Hoppa beint í efnið

Þjáningar taka brátt enda

Þjáningar taka brátt enda

Þjáningar taka brátt enda

Líklega hefurðu einhvern tíma á lífsleiðinni velt fyrir þér hvers vegna svo miklar þjáningar eru í heiminum. Um þúsundir ára hefur mannkynið þjáðst vegna styrjalda, fátæktar, hörmunga, glæpa, óréttlætis, sjúkdóma og dauða. Á liðinni öld hafa verið meiri þjáningar en nokkru sinni fyrr. Tekur þetta einhvern tíma enda?

Já, það er hughreystandi að vita til þess að það gerist mjög bráðlega. Í Biblíunni, orði Guðs, stendur: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar. . . . En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ Hve lengi? „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur,“ það er að segja að eilífu. — Sálmur 37:10, 11, 29.

Þegar Guð hefur fjarlægt illsku og þjáningar af jörðinni verður henni breytt í paradís. Þá getur fólk lifað hamingjusamt að eilífu við fullkomna heilsu. Orð Guðs segir um framtíðina: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — Opinberunarbókin 21:4.

Í nýja heiminum verða jafnvel dánir reistir upp til lífs á ný til að njóta þessara blessana: „Upp [munu] rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:15) Þess vegna gat Jesús Kristur fullvissað iðrandi illvirkja um að hann yrði með honum í paradís. — Lúkas 23:43.

Upphaf þjáninganna

Hvers vegna leyfði Guð að þjáningar ættu sér stað fyrst hann ætlaði mönnum að eiga svona dásamlega framtíð fyrir höndum? Hvers vegna hefur hann látið þær viðgangast svona lengi?

Guð skapaði Adam og Evu fullkomin á huga og líkama. Hann lét þau í paradísargarð og gaf þeim ánægjuleg verkefni að vinna. Biblían segir: „Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ (1. Mósebók 1:31) Ef þau hefðu hlýtt honum hefðu þau eignast fullkomin börn og öll jörðin hefði orðið að paradís þar sem fólk hefði lifað að eilífu við frið og farsæld.

Guð áskapaði Adam og Evu frjálsan vilja. Þau áttu ekki að vera eins og vélmenni sem hugsa ekki sjálfstætt heldur var frjálsi viljinn þáttur í eðli mannsins. En til að vera hamingjusöm til langframa þurftu þau að nota þennan frjálsa vilja á réttan hátt og hlýða lögum Guðs. Guð sagði: „Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ (Jesaja 48:17) Það myndi hafa hræðilegar afleiðingar að misnota frjálsan vilja þar sem mennirnir voru ekki skapaðir þannig að þeim gæti farnast vel óháðir Guði. Biblían segir að það sé ekki „á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum“. — Jeremía 10:23.

Því miður héldu foreldrar mannkynsins að þeim gæti farnast vel óháð Guði. En þegar þau hættu að lúta yfirráðum hans viðhélt hann ekki lengur fullkomleika þeirra. Þau fóru því að hrörna og að lokum urðu þau ellihrum og dóu. Við höfum erft þennan ófullkomleika og dauða í samræmi við erfðalögmálið. — Rómverjabréfið 5:12.

Deilumálið um drottinvald Guðs

Hvers vegna deyddi Guð ekki Adam og Evu, byrjaði upp á nýtt og skapaði ný hjón? Vegna þess að drottinvald hans hafði verið véfengt, það er að segja réttur hans til að stjórna alheiminum. Þá vöknuðu spurningar eins og: „Hver hefur rétt til að stjórna og stjórn hvers er réttlát? Myndi mönnunum farnast betur ef þeir lytu ekki stjórn Guðs?“ Með því að gefa þeim nægan tíma til að reyna að stjórna sér sjálfir myndi Guð útkljá í eitt skipti fyrir öll hvort þeir væru betur settir undir stjórn hans eða undir eigin stjórn. Tíminn þyrfti að vera nógu langur til að þeir gætu reynt alls kyns stjórnmálakerfi, þjóðfélagskerfi, hagkerfi og trúarbrögð án leiðsagnar Guðs.

Hverjar hafa afleiðingarnar orðið? Sagan sýnir að þjáningar mannanna hafa aukist jafnt og þétt undanfarnar árþúsundir. Á liðinni öld hefur mannkynið upplifað meiri þjáningar en nokkru sinni fyrr. Milljónir voru myrtar í Helförinni. Meira en 100 milljónir hafa fallið í stríðum og styrjöldum. Ofbeldi og glæpir eru í algleymingi. Fíkniefnaneysla er orðin að faraldri. Kynsjúkdómar halda áfram að breiðast út. Tugir milljóna deyja vegna sjúkdóma eða matarskorts á hverju ári. Fjölskyldulíf á undir högg að sækja og siðferði hefur hrakað. Engin ríkisstjórn hefur lausn á þessum vandamálum. Engin þeirra getur sigrast á öldrun, sjúkdómum og dauða.

Ástand mannkynsins er alveg eins og Biblían sagði fyrir að það yrði á okkar dögum. Orð Guðs kallar okkar tíma „örðugar tíðir“ og ,síðustu daga‘ þessa heimskerfis. ,Vondir menn og svikarar hafa magnast í vonskunni‘ eins og Biblían sagði fyrir. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13.

Þjáningar heyra brátt sögunni til

Allt bendir til þess að stutt sé eftir af þeim tíma sem mennirnir hafa fengið til að reyna að vera óháðir Guði. Það hefur komið skýrt í ljós að þeir munu aldrei geta stjórnað sér sjálfir án aðstoðar Guðs svo að vel fari. Aðeins stjórn Guðs getur veitt frið, hamingju, fullkomna heilsu og eilíft líf. Það líður því ekki á löngu þangað til Jehóva bindur enda á illsku og þjáningar. Innan skamms mun hann grípa inn í mál mannanna og eyða þessu ófullkomna heimskerfi.

Biblían segir fyrir: „Á dögum þessara konunga [núverandi stjórna manna] mun Guð himnanna hefja ríki [á himnum], sem aldrei skal á grunn ganga . . . Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [núverandi stjórnir], en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Ríki Guðs mun verja drottinvald hans, það er að segja rétt hans til að stjórna. Þetta gengur eins og rauður þráður gegnum alla Biblíuna. Jesús sagði fyrir mikilvægan þátt í tákninu um hina síðustu daga: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.

Hverjir munu lifa af þegar endirinn kemur? Biblían svarar: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu.“ (Orðskviðirnir 2:21, 22) Hinir hreinskilnu eru þeir sem læra hver vilji Jehóva er og fara eftir honum. Jesús Kristur sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Já, „heimurinn fyrirferst . . . en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu“. — 1. Jóhannesarbréf 2:17.