Hoppa beint í efnið

Af hverju eru vandamálin svona mörg?

Af hverju eru vandamálin svona mörg?

Guðsríkisfréttir nr. 34

Af hverju eru vandamálin svona mörg?

Verður jörðin nokkurn tíma friðsæl paradís?

Alvarleg vandamál versna — af hverju?

Menn hafa alltaf átt við vandamál að stríða. Margir héldu að tækni nútímans gæti leyst þau en sannleikurinn er sá að alvarleg vandamál færast í aukana.

Glæpir: Fáum finnst þeir vera óhultir á götum úti eða jafnvel heima hjá sér. Fyrir stuttu varð þriðji hver maður í einu Evrópuríki fyrir barðinu á glæpamönnum á einu ári.

Umhverfi: Mengun lofts, láðs og lagar ágerist stöðugt. Í þróunarlöndunum hefur fjórðungur manna ekki aðgang að hreinu vatni.

Fátækt: Fleiri eru fátækir og hungraðir en nokkru sinni fyrr. Í sumum löndum búa yfir 90 af hundraði manna við fátækt; 30 af hundraði vinnuafls í heiminum, eða um 800 milljónir manna, er án atvinnu eða hefur ónóga vinnu — og talan hækkar.

Hungur: Jafnvel þótt þú hafir nóg að borða eru milljónir manna vannærðar og fer fjölgandi. Í vanþróuðu löndunum deyja að minnsta kosti 13 milljónir manna af völdum hungurs árlega, aðallega börn.

Stríð: Hundruð þúsundir manna hafa fallið í þjóðernisátökum upp á síðkastið. Á þessari öld hafa styrjaldir orðið meira en hundrað milljónum manna að bana.

Önnur vandamál: Við þetta má svo bæta að æ fleiri fjölskyldur leysast upp, ógiftum mæðrum fjölgar, fleiri eru heimilislausir, fíkniefnanotkun er útbreidd og siðleysi magnað. Fyrrverandi ráðherra í bandarísku ríkisstjórninni sagði réttilega: „Það eru hreinlega allt of mörg teikn á lofti um að . . . siðmenningin sé orðin rotin.“ Á 30 ára tímabili hefur íbúum Bandaríkjanna fjölgað um 41 af hundraði en ofbeldisglæpir hafa rokið upp um 560 prósent, óskilgetnum börnum hefur fjölgað um 400 prósent, hjónaskilnuðum um 300 prósent og sjálfsmorðum unglinga um ríflega 200 prósent. Ástandið er svipað meðal annarra þjóða.

Af hverju hafa vandamálin versnað?

Skapari okkar svarar því. Orð hans kallar þessa vandamálatíma ‚hina síðustu daga‘ og segir að þeir séu „örðugar tíðir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Síðustu dagar hvers? Heimskerfisins, því að Biblían talar um ‚endalok veraldar.‘ — Matteus 24:3.

Hin vaxandi vandamál nútímans eru augljóst merki um að endalok þessa heimskerfis séu í nánd og þar með endir illskunnar og þeirra sem bera ábyrgð á henni. (Matteus 24:3-14; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Opinberunarbókin 12:7-12) Bráðlega mun Guð skerast í leikinn og sjá til þess að öll vandamál okkar tíma verði leyst að fullu. — Jeremía 25:31-33; Opinberunarbókin 19:11-21.

TRÚARBRÖGÐ HEIMS HAFA BRUGÐIST

Trúarbrögð heims auka á vandamál nútímans í stað þess að stuðla að lausn þeirra. Í styrjöldum drepa kaþólskir kaþólska og mótmælendur mótmælendur — í milljónatali. Í Rúanda, þar sem flestir eru kaþólskrar trúar, drápu menn hver annan í hundruðþúsundatali nú fyrir skemmstu! (Sjá myndina fyrir neðan.)

Myndi Jesús fara í stríð með byssu eða sveðju og drepa lærisveina sína af því að þeir væru annarrar þjóðar en hann? Það er fráleitt! „Sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn,“ segir Biblían. (1. Jóhannesarbréf 4:20, 21) Þar hafa trúarbrögð þessa heims brugðist. „[Þau] segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum.“ — Títusarbréfið 1:16.

Með því að framfylgja ekki siðferðiskröfum Biblíunnar í reynd stuðla trúarbrögð heimsins þar að auki að hinu hrikalega siðferðishruni um heim allan.

Jesús sagði að þekkja mætti sundur falska trú og sanna „af ávöxtum þeirra“ — af því sem áhangendurnir gera. Hann sagði líka: „Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.“ (Matteus 7:15-20) Orð Guðs leggur fast að okkur að yfirgefa þau trúarbrögð sem bera vondan ávöxt og eiga því tortímingu í vændum. — Opinberunarbókin 18:4.

Sönn trúarbrögð hafa ekki brugðist

Sönn trúarbrögð bera „góða ávöxtu,“ ekki síst kærleika. (Matteus 7:17; Jóhannes 13:34, 35) Hvaða sameinað alþjóðabræðralag kristinna manna sýnir slíkan kærleika í verki? Hverjir neita að drepa trúbræður sína og aðra menn? — 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.

Vottar Jehóva eru kunnir fyrir að bera þennan ‚góða ávöxt.‘ Í rúmlega 230 löndum um heim allan hafa þeir ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum.‘ (Jesaja 2:4) Þeir sýna líka mannkærleika sinn í verki með því að hlýða fyrirmælum Krists um að prédika ‚fagnaðarerindið‘ um ríki Guðs um allan heim. (Matteus 24:14) Þeir fylgja líka því háleita siðgæði sem Biblían kennir og eru talsmenn þess. — 1. Korintubréf 6:9-11.

Sönn trúarbrögð hafa ekki brugðist. Þau beina fólki til þess Guðs sem einn er fær um að leysa vandamál mannkynsins. Mjög bráðlega mun hann koma á algerlega nýjum heimi. Hver er þessi Guð? (Sjá baksíðu.)

FRIÐSÆL PARADÍS ER Í NÁND

Myndir þú ekki leysa öll þau vandamál, sem hrjá mannkynið, ef þú gætir? Auðvitað myndirðu gera það! Eigum við að halda að kærleiksríkur skapari okkar, sem einn hefur mátt og visku til að leysa vandamál mannkynsins, geri sig ánægðan með eitthvað minna?

Biblían opinberar að Guð muni láta himneska stjórn sína í höndum Jesú Krists skerast í leikinn. Hún mun „knosa“ spilltar stjórnir á jörðinni. (Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10) Og hvers vegna? Sálmaritarinn svarar því og beinir orðum sínum til Guðs: „Að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir [Jehóva], Hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ — Sálmur 83:19.

Lifa einhverjir af endalok þessa heims? „Heimurinn fyrirferst,“ segir Biblían, „en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Hvar eiga þeir sem eftir lifa að búa að eilífu? ‚Hinir réttlátu fá jörðina til eignar og búa á henni um aldur,‘ svarar Biblían. — Sálmur 37:9-11, 29; Orðskviðirnir 2:21, 22.

Í nýjum heimi Guðs verður ‚dauðinn ekki framar til, hvorki harmur né vein né kvöl verður framar til.‘ (Opinberunarbókin 21:4) Engir glæpir, fátækt, hungur, sjúkdómar, sorg eða dauði framar! Jafnvel hinir dánu fá að lifa á ný! ‚Upp munu rísa bæði réttlátir og ranglátir.‘ (Postulasagan 24:15) Og sjálfri jörðinni verður breytt í bókstaflega paradís. — Jesaja 35:1, 2; Lúkas 23:43.

Hvað þurfum við að gera til að fá að lifa í nýjum heimi Guðs? Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Milljónir einlægra manna um heim allan eru að afla sér þessarar þekkingar. Hún gerir þeim kleift að takast á við mörg af sínum persónulegu ­vandamálum núna, en það sem meira máli skiptir, hún gefur þeim fulla ástæðu til að treysta að í nýjum heimi Guðs verði ráðin full bót á þeim vandamálum sem ekki verða leyst núna.

[Mynd credit line á blaðsíðu 2]

Ljósmynd: WHO, P. Almasy

[Mynd credit line á blaðsíðu 3]

Jerden Bouman/Sipa Press