Hoppa beint í efnið

Endalok falstrúarbragða eru í nánd!

Endalok falstrúarbragða eru í nánd!

Guðsríkisfréttir nr. 37

Dreift um allan heim

Endalok falstrúarbragða eru í nánd!

▪ Hvað eru falstrúarbrögð?

▪ Hvernig líða þau undir lok?

▪ Hvernig snertir það þig?

Hvað eru falstrúarbrögð?

Blöskra þér þeir glæpir sem menn fremja í nafni trúar? Ofbýður þér að menn sem segjast þjóna Guði skuli kynda undir stríð, hryðjuverk og spillingu? Af hverju virðist sem trúarbrögð séu undirrót margra erfiðleika sem hrjá mannkynið?

Sökin liggur ekki hjá öllum trúarbrögðum heldur aðeins þeim fölsku. Jesús Kristur, höfundur kristinnar trúar, gaf í skyn að falstrúarbrögð væru kveikja alls konar vondra verka, rétt eins og slæmt tré bæri vonda ávexti. (Matteus 7:15-17) Hvers konar ávöxt bera falstrúarbrögðin?

Falstrúarbrögð . . .

BLANDA SÉR Í STRÍÐ OG STJÓRNMÁL: „Valdagráðugir leiðtogar í Asíu og annars staðar notfæra sér blygðunarlaust trúarsannfæringu manna í eiginhagsmunaskyni,“ segir í tímaritinu Asiaweek. Blaðið segir að „heimurinn virðist vera að ganga af göflunum“. Þekktur bandarískur trúarleiðtogi lýsti yfir: „Við verðum að drepa hryðjuverkamennina til að stöðva manndrápin.“ Hvaða lausn stakk hann upp á? „Útrýmum þeim í nafni Drottins.“ Biblían segir á hinn bóginn: „Ef einhver segir: ,Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari.“ (1. Jóhannesarbréf 4:20) Jesús sagði meira að segja: „Elskið óvini yðar.“ (Matteus 5:44) Hve mörg trúarbrögð geturðu nefnt sem leyfa áhangendum sínum að taka þátt í stríði?

ÚTBREIÐA FALSKENNINGAR: Flest trúarbrögð kenna að eitthvað ósýnilegt innra með manninum — sál eða andi — lifi áfram þegar líkaminn deyr. Mörg trúfélög nota þessa kenningu til að hafa fé af áhangendum sínum með því að bjóðast til að biðja fyrir sálum látinna gegn gjaldi. En Biblían kennir allt annað. Hún segir: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4) „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Jesús kenndi að hinir dánu verði reistir upp frá dauðum en það væri auðvitað óþarfi ef mennirnir hefðu ódauðlega sál. (Jóhannes 11:11-25) Kennir trúfélagið þitt að sálin sé ódauðleg?

UMBERA SIÐLEYSI: Ýmsir trúarhópar á Vesturlöndum vígja samkynhneigða til prestsembættis og hvetja yfirvöld til að viðurkenna hjónabönd fólks af sama kyni. Kirkjudeildir, sem fordæma siðleysi almennt, hafa jafnvel umborið kynferðisofbeldi gegn börnum meðal forystumanna sinna. En hvað kennir Biblían? Hún segir skorinort: „Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar . . . Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Kannast þú við trúfélög sem líða siðleysi innan vébanda sinna?

Hvaða framtíð bíður trúarbragða og trúfélaga sem bera vondan ávöxt? „Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað,“ sagði Jesús. (Matteus 7:19) Falstrúarbrögð verða sem sagt ,höggvin upp‘ og þeim útrýmt. En hvernig gerist það og hvenær? Svarið er að finna í spádómlegri sýn sem sagt er frá í 17. og 18. kafla Opinberunarbókarinnar í Biblíunni.

Hvernig líða falstrúarbrögðin undir lok?

Sjáðu fyrir þér skækju sitjandi á baki ógurlegu dýri með sjö höfuð og tíu horn. (Opinberunarbókin 17:1-4) Hvað táknar skækjan? Sagt er að hún hafi mikið vald „yfir konungum jarðarinnar“. Hún er vellauðug, klæðist purpura og brennir reykelsi. Hún leiðir „allar þjóðir . . . í villu“ af því að hún stundar töfra og spíritisma. (Opinberunarbókin 17:18; 18:12, 13, 23) Með hjálp Biblíunnar komumst við að raun um að skækjan táknar trúarlegt veldi sem teygir anga sína um allan heim. Hún táknar ekki eina ákveðna trú heldur öll þau trúarbrögð sem bera vondan ávöxt.

Dýrið, sem skækjan situr á, táknar stjórnmálaöflin í heiminum. * (Opinberunarbókin 17:10-13) Falstrúarbrögðin sitja á baki þessu pólitíska dýri og reyna að stjórna því og hafa áhrif á ákvarðanir þess.

En bráðlega gerist óvæntur atburður. „Hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ (Opinberunarbókin 17:16) Öllum að óvörum snúast stjórnmálaöflin í heiminum gegn falstrúarbrögðunum og gereyða þeim. Hver er kveikjan að þessari skyndilegu tortímingu? Opinberunarbókin svarar: „Guð hefur lagt þeim í brjóst að gjöra vilja sinn.“ (Opinberunarbókin 17:17) Já, Guð lætur falstrúarbrögðin svara til saka fyrir öll þau ódæði sem þau hafa unnið í nafni hans. Það er fullkomið réttlæti af hans hálfu að nota stjórnmálaöflin til að fullnægja dómi yfir þeim.

Hvað þarftu að gera til að umflýja þau örlög sem bíða falstrúarbragðanna? „Gangið út, mitt fólk, út úr henni,“ hvetur sendiboði Guðs. (Opinberunarbókin 18:4) Nú er rétti tíminn til að yfirgefa fölsk trúarbrögð. En hvert er hægt að flýja? Varla er hægt að leita skjóls í guðleysi því að það á enga framtíð fyrir sér. (2. Þessaloníkubréf 1:6-9) Eina skjólshúsið er sönn trú. Hvernig er hægt að bera kennsl á sanna trú?

Að þekkja sanna trú

Hvaða góða ávöxt ætti sönn trú að bera? — Matteus 7:17.

Sönn trú . . .

ÁSTUNDAR KÆRLEIKA: Þeir sem stunda sanna trú „eru ekki af heiminum“, þeir eru ekki sundraðir eftir kynþáttum og menningu heldur ,bera elsku hver til annars‘. (Jóhannes 13:35; 17:16; Postulasagan 10:34, 35) Í stað þess að drepa hver annan eru þeir fúsir til að deyja hver fyrir annan. — 1. Jóhannesarbréf 3:16.

TREYSTIR ORÐI GUÐS: Sönn trú kennir ekki „mannasetningar“ og ,erfikenningar‘ heldur byggist í einu og öllu á orði Guðs, Biblíunni. (Matteus 15:6-9) Af hverju? Af því að „sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar“. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

STYRKIR FJÖLSKYLDUNA OG STUÐLAR AÐ GÓÐU SIÐFERÐI: Sönn trú kennir eiginmönnum að „elska konur sínar eins og eigin líkami“ og konum að bera djúpa virðingu fyrir eiginmönnum sínum, og hún innprentar börnum að hlýða foreldrum sínum. (Efesusbréfið 5:28, 33; 6:1) Siðferði þeirra sem falin eru ábyrgðarstörf verður einnig að vera til fyrirmyndar. — 1. Tímóteusarbréf 3:1-10.

Eru nokkur trúarbrögð til sem fullnægja þessum skilyrðum? Í bókinni Holocaust Politics, sem kom út árið 2001, segir: „Ef fleiri breyttu eftir því sem Vottar Jehóva boða og ástunda hefði mátt koma í veg fyrir Helförina og þjóðarmorð myndu ekki hrjá mannkynið framar.“

Vottar Jehóva í 235 löndum halda á lofti því siðferði sem Biblían kennir — og þeir breyta eins og þeir boða. Við hvetjum þig til að kynna þér hvers Guð ætlast til af okkur mönnunum svo að þú getir tilbeðið hann eins og hann vill. Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að aðstoða þig við það. Þú mátt engan tíma missa. Endalok falstrúarbragða eru í nánd! — Sefanía 2:2, 3.

Þér er velkomið að hafa samband við Votta Jehóva ef þú óskar nánari upplýsinga um boðskap Biblíunnar sem þeir boða. Þú getur notað heimilisfangið hér að neðan.

□ Vinsamlegast sendið mér án allra skuldbindinga eintak af bæklingnum Haltu vöku þinni!

□ Vinsamlegast hafið samband við mig varðandi ókeypis biblíunámskeið.

[Neðanmáls]

^ gr. 17 Nánari upplýsingar er að finna í bæklingnum Haltu vöku þinni! sem gefinn er út af Vottum Jehóva.

[Innskot á bls. 3]

Falstrúarbrögðin hafa mikið vald „yfir konungum jarðarinnar“.

[Innskot á bls. 3]

„Gangið út, mitt fólk.“