Hoppa beint í efnið

Hvers vegna þú getur treyst Biblíunni

Hvers vegna þú getur treyst Biblíunni

Hvers vegna þú getur treyst Biblíunni

Sumir halda því fram að Biblían sé óáreiðanleg og hefur sú skoðun hlotið mikið fylgi. Margir segja því að orðum Biblíunnar sé ekki treystandi og vísa þeim á bug.

Jesús Kristur sagði aftur á móti í bæn til Guðs: „Þitt orð er sannleikur.“ Þetta eru traustvekjandi orð og Biblían sjálf fullyrðir að hún sé innblásin af Guði. — Jóhannes 17:⁠17; 2. Tímóteusarbréf 3:⁠16.

Hvað finnst þér um þetta? Er gild ástæða til að treysta Biblíunni? Eru kannski glögg merki þess að Biblíunni sé ekki treystandi, hún sé mótsagnakennd og sjálfri sér ósamkvæm?

Er hún mótsagnakennd?

Sumir halda því kannski fram að Biblían sé mótsagnakennd, en hefur þér nokkurn tíma verið bent á dæmi um það? Við höfum aldrei séð slíkt dæmi sem þolir að farið sé ofan í saumana á því. Að vísu getur mönnum virst vera misræmi í sumum frásögnum Biblíunnar, en það kemur venjulega til af því að þá skortir vitneskju um viss smáatriði og kringumstæður þeirra tíma.

Sem dæmi má nefna að sumir sjá mótsögn í fyrstu köflum Biblíunnar og spyrja: ‚Hvar náði Kain sér í konu?‘ Þeir gera ráð fyrir að Kain og Abel hafi verið einu börn Adams og Evu. En það er á misskilningi byggt. Biblían segir að Adam hafi eignast „sonu og dætur.“ (1. Mósebók 5:4) Kain gekk því að eiga eina af systrum sínum, eða þá bróður- eða systurdóttur.

Oft eru þeir sem gagnrýna hreinlega að leita að mótsögnum. Þeir nefna dæmi eins og þetta: ‚Biblíuritarinn Matteus segir að liðsforingi hafi komið til Jesú og beðið hann ásjár, en Lúkas segir hann hafa sent þjóna sína með beiðnina. Hvort er rétt?‘ (Matteus 8:5, 6; Lúkas 7:2, 3) En er þetta einhver mótsögn?

Þegar verk manna eða athöfn er eignað þeim sem í raun stendur á bak við það lítur sanngjarn maður ekki á það sem mótsögn. Álítur þú til dæmis rangt með farið ef sagt er í frétt að Jón Jónsson hafi byggt hús, þótt hann hafi fengið byggingameistara og iðnaðarmenn til að vinna verkið fyrir sig? Auðvitað ekki! Eins er það engin mótsögn þótt Matteus segi að liðsforingi hafi beiðst nokkurs af Jesú, en að beiðninni hafi verið komið til skila í gegnum fulltrúa hans eins og Lúkas skýrir frá.

Með aukinni vitneskju hverfa þær mótsagnir sem mönnum virðast vera í Biblíunni.

Mannkynssaga og vísindi

Söguleg nákvæmni Biblíunnar var um tíma stórlega dregin í efa. Biblíugagnrýnendur véfengdu til dæmis að verið hefðu til einstaklingar, sem Biblían segir frá, svo sem Sargon Assýríukonungur, Belsassar konungur í Babýlon og rómverski landstjórinn Pontíus Pílatus. Fornleifafundir hafa hins vegar staðfest eina frásögn Biblíunnar af annarri. Því sagði sagnfræðingurinn Moshe Pearlman: „Skyndilega fóru efahyggjumenn, sem höfðu véfengt áreiðanleika jafnvel hins sögulega hluta Gamlatestamentisins, að endurskoða sjónarmið sín.“

Ef við eigum að treysta Biblíunni verður hún líka að vera nákvæm þegar hún drepur á vísindi. Er hún það? Ekki er langt síðan vísindamenn fullyrtu að alheimurinn ætti sér ekkert upphaf og andmæltu þar með Biblíunni. Stjarnfræðingurinn Robert Jastrow benti hins vegar nýlega á ýmsar upplýsingar sem hrekja þá skoðun og sagði: „Nú sjáum við hvernig stjarnfræðileg gögn leiða okkur að sömu niðurstöðu um uppruna heimsins og Biblían heldur fram. Smáatriðin eru ólík en meginatriðin í stjarnfræðinni og sögu Biblíunnar í 1. Mósebók eru þau sömu.“ — 1. Mósebók 1:1.

Menn hafa líka skipt um skoðun varðandi lögun jarðar. Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir: „Könnunarleiðangrar sýndu fram á að jörðin var hnöttótt, ekki flöt eins og flestir höfðu trúað.“ En Biblían fór alla tíð með rétt mál! Meira en 2000 árum áður en þessir könnunarleiðangrar hófust sagði Biblían í Jesaja 40:22: „Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni,“ eða, eins og önnur þýðing segir, „yfir hnöttóttri jörðinni.“ (Moffat)

Því meira sem menn læra, þeim mun sterkari rök fá þeir fyrir því að hægt sé að treysta Biblíunni. Fyrrum forstöðumaður hins virta British Museum í Lundúnum, Sir Frederic Kenyon, skrifaði: „Þær niðurstöður, sem nú þegar liggja fyrir, staðfesta það sem trúin gefur í skyn, sem sé að Biblíunni sé einungis hagur í að þekking manna aukist.“

Segir fyrir framtíðina

En getum við treyst spám Biblíunnar um framtíðina, þar á meðal loforði hennar um ‚réttláta nýja himna og nýja jörð‘? (2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:3, 4) Nú, hve áreiðanleg hefur Biblían reynst í fortíðinni? Aftur og aftur hafa ræst í smæstu smáatriðum spádómar sem bornir voru fram jafnvel öldum áður!

Til dæmis sagði Biblían fyrir með nálega 200 ára fyrirvara að hin volduga Babýlon myndi falla. Meira að segja voru Medar, sem tóku höndum saman við Persa, nefndir sem sigurvegarar. Og þótt Kýrus Persakonungur væri ófæddur þá, sagði Biblían að hann myndi gegna mikilvægu hlutverki í sigrinum. Hún sagði að vötnin, sem vernduðu Babýlon, skyldu ‚þorna upp‘ og að ‚borgarhliðin í Babýlon yrðu eigi lokuð.‘ — Jeremía 50:38; Jesaja 13:​17-19; 44:27-45:⁠1.

Allt þetta rættist í smáatriðum eins og sagnfræðingurinn Heródótus greinir frá. Enn fremur boðaði Biblían að Babýlon skyldi verða að óbyggðum rústum. Og þannig fór það líka. Núna er Babýlon rústir einar. (Jesaja 13:20-22; Jeremía 51:37, 41-43) Og Biblían er full af öðrum spádómum sem hafa ræst með áberandi hætti.

Hvað segir þá Biblían um það heimskerfi sem nú er? Hún segir: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

Enginn vafi leikur á að við sjáum þetta rætast núna! En Biblían sagði líka fyrir að fleira myndi gerast „á síðustu dögum.“ „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.“ Auk þess skyldu „verða landskjálftar miklir og drepsóttir.“ — Matteus 24:7; Lúkas 21:⁠11.

Svo sannarlega eru spádómar Biblíunnar að rætast núna! En hvað þá um óuppfyllt fyrirheit svo sem þetta: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur,“ eða „Þær [þjóðirnar] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum . . . og ekki skulu þær temja sér hernað framar“? — Sálmur 37:29; Jesaja 2:⁠4.

‚Þetta er nú bara of gott til að geta verið satt,‘ segja sumir. En í rauninni er engin ástæða til að efast um nokkuð sem skapari okkar lofar. Við getum treyst orði hans! (Títusarbréfið 1:⁠2) Með því að rannsaka málið nánar getur þú sannfærst enn betur um það.

Nema annað sé tekið fram eru allar tilvitnanir í Biblíuna teknar úr íslensku biblíunni frá 1981.

[Innskot á blaðsíðu 4]

„Þær niðurstöður, sem nú þegar liggja fyrir, staðfesta það sem trúin gefur í skyn, sem sé að Biblíunni sé einungis hagur í að þekking manna aukist.“