Hoppa beint í efnið

Jehóva — hver er hann?

Jehóva — hver er hann?

Jehóva — hver er hann?

FRANSKI nítjándu aldar landkönnuðurinn Henri Mouhot var að höggva sér leið gegnum frumskóginn í Kambódíu er hann kom að hofi umluktu breiðu díki. Þetta var Angkor Vat, stærsta trúarminnismerki jarðar. Mouhot sá strax að þessar mosaþöktu byggingar voru mannaverk. „Þessar byggingar eru mikilfenglegri en nokkuð sem Grikkir eða Rómverjar skildu eftir sig og voru reistar af einhverjum Michelangelo fortíðar,“ skrifaði hann. Þótt þessi margbrotna bygging hefði staðið yfirgefin og vanrækt um aldaraðir var hann ekki í vafa um að hún ætti sér hönnuð.

Það er athyglisvert að rekast á svipaða rökfærslu í aldagömlu spekiriti: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ (Hebreabréfið 3:4) Sumir segja kannski að náttúran vinni öðruvísi en maðurinn, en vísindamenn eru ekki allir sammála því.

Eftir að hafa viðurkennt að „lífefnakerfi séu ekki lífvana hlutir“ spyr Michael Behe, aðstoðarprófessor í lífefnafræði við Lehigh-háskóla í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum: „Geta lifandi lífefnakerfi verið verk vitiborins hönnuðar?“ Hann bendir síðan á að nú geti vísindamenn beinlínis breytt lifandi verum með erfðatækni. Ljóst er að það er hægt að hanna bæði lífvana hluti og lifandi. Behe kafar ofan í hinn smásæja heim lifandi frumna og bendir á ótrúlega flókin kerfi mynduð úr einingum sem eru hver annarri háðar til að verka. „Samanlögð niðurstaða allra þessara rannsókna á frumunni — lífrannsókna á sameindastiginu — er skýr, ákveðin og afdráttarlaus: Hönnun!“ segir hann.

Hver er þá hönnuðurinn að baki öllum þessum flóknu kerfum?

Hver er hönnuðurinn?

Svarið er að finna í hinu forna spekiriti sem áður er nefnt — Biblíunni. Í inngangsorðum sínum svarar Biblían með ótrúlega einföldum og skýrum orðum hver hafi hannað alla hluti: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ — 1. Mósebók 1:1.

En skaparinn aðgreinir sig frá öðrum, sem eru sagðir vera Guð, og nefnir sig einstæðu nafni: „Svo segir [Jehóva] Guð, sá er skóp himininn . . . , sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni.“ (Jesaja 42:5, 8) Jehóva er nafn þess Guðs sem hannaði alheiminn og skapaði menn og konur á jörðinni. En hver er Jehóva? Hvers konar Guð er hann? Og hvers vegna ættir þú að hlusta á hann?

Þýðing nafns hans

Hvað merkir nafnið Jehóva, nafn skaparans? Nafnið er skrifað með fjórum hebreskum bókstöfum (יהוה) og stendur næstum 7000 sinnum í hinum hebreska hluta Biblíunnar. Nafnið er talið vera orsakamynd hebresku sagnarinnar hawaʹ („að verða“) og merkja „hann kemur til leiðar.“ Með öðrum orðum lætur Jehóva sig verða hvaðeina sem þarf til að hann nái fram tilgangi sínum. Hann verður skapari, dómari og frelsari, og hann viðheldur lífi og margt fleira til að geta uppfyllt fyrirheit sín. Það sem meira er, hebreska sögnin stendur í beygingarmynd sem gefur til kynna verknað sem er að fullkomnast. Það gefur til kynna að Jehóva sé enn að uppfylla fyrirheit sín. Hann er lifandi Guð.

Höfuðeiginleikar Jehóva

Lýsing Biblíunnar á þessum skapara, sem uppfyllir loforð sín, er einkar aðlaðandi. Jehóva opinberaði sjálfur eiginleika sína og sagði: „[Jehóva, Jehóva], miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Jehóva er lýst sem ástríkum og góðum Guði. Hebreska orðið, sem þýtt er „gæskuríkur,“ getur einnig þýtt „tryggur kærleikur.“ Jehóva sýnir sköpunarverum sínum tryggð og kærleika meðan hann vinnur að eilífum tilgangi sínum. Myndi þér ekki þykja mikils virði að njóta slíks kærleika?

Jehóva er seinn til reiði og fljótur að fyrirgefa mistök okkar. Það er notalegt að umgangast persónu sem er ekki sífellt að gagnrýna okkur heldur er fús til að fyrirgefa. En það merkir þó ekki að Jehóva láti ranga breytni viðgangast. Hann lýsir yfir: „Ég, [Jehóva], elska réttlæti, en hata glæpsamlegt rán.“ (Jesaja 61:8) Hann er réttlátur Guð og umber ekki endalaust óskammfeilna syndara sem halda áfram vonskuverkum sínum. Við getum því verið viss um að hann leiðréttir ranglætið í heiminum þegar þar að kemur.

Það þarf visku til að gæta fullkomins jafnvægis milli kærleika og réttvísi. Þessir tveir eiginleikar Jehóva birtast í góðu jafnvægi í samskiptum hans við okkur. (Rómverjabréfið 11:33-36) Viska hans blasir reyndar við okkur alls staðar, eins og náttúruundrin eru til vitnis um. — Sálmur 104:24; Orðskviðirnir 3:19.

En viska nægir ekki ein sér. Skaparinn þarf líka að vera almáttugur til að framkvæma allt sem hann ætlar sér. Biblían segir að hann sé það: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu . . . Sökum mikilleiks kraftar hans . . . verður einskis þeirra vant.“ (Jesaja 40:26) Jehóva ræður yfir ‚miklum krafti‘ til að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Þykja þér þetta ekki aðlaðandi eiginleikar?

Gagnið af því að þekkja Jehóva

Jehóva skapaði ekki jörðina „til þess, að hún væri auðn,“ heldur ‚myndaði hana svo, að hún væri byggileg‘ mönnum sem eiga innihaldsríkt samband við hann. (Jesaja 45:18; 1. Mósebók 1:28) Hann lætur sér annt um jarðneskar sköpunarverur sínar. Hann gaf mannkyninu fullkomna byrjun í paradísargarði. Mennirnir eru hins vegar að eyðileggja heimili sitt, Jehóva til mikillar skapraunar. En Jehóva er trúr nafni sínu og mun láta upphaflegan tilgang sinn með manninn og jörðina rætast. (Sálmur 115:16; Opinberunarbókin 11:18) Hann endurreisir paradís á jörð handa þeim sem vilja hlýða honum og vera börn hans. — Orðskviðirnir 8:17; Matteus 5:5.

Síðasta bók Biblíunnar lýsir þeim lífsgæðum sem þú getur notið í paradís: „Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Þetta er hið sanna líf sem Jehóva vill að þú njótir. Jehóva er svo sannarlega góðviljaður faðir. Ertu fús til að kynnast honum betur og fræðast um það sem þú þarft að gera til að fá að lifa í paradís?

Nema annað sé tekið fram eru allar biblíutilvitnanir sóttar í íslensku biblíuna frá 1981.