Langar þig að vita meira um Biblíuna
Langar þig að vita meira um Biblíuna
Hvers vegna ættirðu að lesa Biblíuna?
BIBLÍAN er ólík öllum öðrum bókum vegna þess að hún inniheldur leiðbeiningar frá Guði. (1. Þessaloníkubréf 2:13) Það er hverjum manni hollt að fara eftir því sem hún kennir. Þannig styrkir maður kærleika sinn til Guðs og tengsl sín við hann, en það er hann sem gefur ‚sérhverja góða gjöf og sérhverja fullkomna gáfu.‘ (Jakobsbréfið 1:17) Maður kynnist honum og lærir að biðja til hans. Hann er reiðubúinn að hjálpa á neyðarstund og hann gefur þeim eilíft líf sem laga sig að þeim kröfum sem hann setur fram í Biblíunni. — Rómverjabréfið 6:23.
Biblían upplýsir og fræðir. Hún leysir fólk úr fjötrum ranghugmynda sem milljónir manna eru haldnar. Sá sem veit hvað verður um manninn við dauðann óttast til dæmis ekki að látnir vinir og ættingjar þjáist eða að hinir dánu geti gert hinum lifandi mein. (Esekíel 18:4) Upprisukenning Biblíunnar er hughreystandi fyrir þá sem misst hafa ástvin í dauðann. (Jóhannes 11:25) Vitneskjan um illa engla er viðvörun gegn spíritisma og varpar ljósi á það hvers vegna erfiðleikarnir á jörðinni eru svo magnaðir sem raun ber vitni.
Meginreglur Guðs, sem settar eru fram í Biblíunni, ýta undir heilbrigt líferni. Hún hvetur til dæmis til hófstillingar sem stuðlar að góðri heilsu. (1. Tímóteusarbréf 3:2) Við spillum ekki heilsunni ef við ‚hreinsum okkur af allri saurgun á líkama og sál.‘ (2. Korintubréf 7:1) Ráðleggingar Guðs í Biblíunni stuðla jafnframt að sjálfsvirðingu og hamingju í hjónabandi. — 1. Korintubréf 6:18.
Þú verður hamingjusamari maður ef þú ferð eftir orði Guðs. Biblíuþekking veitir innri frið, lífsfyllingu og von. Hún auðveldar okkur að þroska með okkur aðlaðandi eiginleika eins og umhyggjusemi, kærleika, gleði, frið, góðvild og trú. (Galatabréfið 5:22, 23; Efesusbréfið 4:24, 32) Og þetta eru eiginleikar sem gera okkur að betri manneskjum, betri eiginmönnum og eiginkonum, betri feðrum og mæðrum og betri sonum og dætrum.
Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvað framtíðin ber í skauti sínu? Biblíuspádómarnir benda á hvar við stöndum í framrás tímans. Þeir lýsa bæði ástandi umheimsins eins og það er núna og gefa fyrirheit um það að Guð breyti jörðinni í paradís áður en langt um líður. — Opinberunarbókin 21:3, 4.
Aðstoð til að skilja Biblíuna
Kannski hefurðu reynt að lesa Biblíuna en fundist hún torskilin. Kannski veistu ekki hvar þú átt að leita svara í henni við spurningum þínum. Þú ert ekki einn um það. Allir þurfa aðstoð til að skilja Biblíuna. Vottar Jehóva veita milljónum manna ókeypis biblíufræðslu í 235 löndum og eru meira en fúsir til að aðstoða þig líka.
Yfirleitt er best að byrja á undirstöðukenningunum og fara kerfisbundið yfir Biblíuna. (Hebreabréfið 6:1) Smám saman ferðu að geta neytt ‚föstu fæðunnar,‘ það er að segja hinna dýpri sanninda. (Hebreabréfið 5:14) Biblían er lögð til grundvallar við fræðsluna en biblíutengd rit, svo sem bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur?, auðvelda þér að skilja ritningarstaði sem fjalla um alls konar efni.
Ertu tilbúinn til að taka þér tíma í hverri viku til að fræðast um Biblíuna?
Yfirleitt er hægt að velja stað og stund fyrir biblíunámið eftir því sem hentar þér best. Oft fer námið fram heima hjá fólki og stundum jafnvel símleiðis. Þetta er ekki námskeið með bekkjarformi og mörgum nemendum heldur einkanámskeið sniðið að þörfum og aðstæðum hvers og eins. Tekið er mið af menntun fólks og uppruna. Engin próf fara fram. Þú færð svör við biblíuspurningum þínum og lærir hvernig þú getur eignast náið samband við Guð.
Biblíunámskeiðið er ókeypis. (Matteus 10:8) Allir eiga kost á slíku námskeiði óháð trú sinni, og einnig þeir sem aðhyllast enga trú en langar til að kynnast Biblíunni betur.
Öll fjölskyldan getur tekið þátt í náminu og einnig aðrir ættingjar og vinir ef þú vilt. En þú getur líka verið einn um námið ef þú kýst svo.
Margir taka frá klukkustund í hverri viku til biblíunáms. En vottarnir geta aðstoðað þig, hvort sem þú hefur meiri tíma aflögu í hverri viku eða minni.
Boð um biblíunám
Við hvetjum þig til að setja þig í samband við Votta Jehóva. Þú getur til dæmis sent miðann hér að neðan eða haft samband símleiðis og þú færð þá leiðbeinanda í heimsókn. Biblíunámskeiðið er ókeypis.
□ Sendið mér bæklinginn Hvers krefst Guð af okkur?
□ Hafið samband við mig varðandi ókeypis heimabiblíunámskeið.
Vitnað er í íslensku Biblíuna frá 1981.