Hoppa beint í efnið

Munu allir menn nokkurn tíma elska hver annan?

Munu allir menn nokkurn tíma elska hver annan?

Guðsríkisfréttir nr. 35

Munu allir menn nokkurn tíma elska hver annan?

NÁUNGAKÆRLEIKUR HEFUR KÓLNAÐ

MILLJÓNIR manna eru vansælar, finnst þær vera hjálparvana og eiga í ekkert hús að venda. Kaupsýslukona sagði svo frá: ‚Kvöld eitt bankaði ekkja, sem bjó á sömu hæð, á dyrnar hjá mér og sagðist vera einmana. Ég sagði henni kurteislega en afdráttarlaust að ég væri upptekin. Hún baðst afsökunar á að ónáða mig og fór.‘

Því miður framdi þessi ekkja sjálfsmorð þetta sama kvöld. Kaupsýslukonan sagði síðar að þetta hefði orðið sér „hörð lexía.“

Skortur á náungakærleika hefur oft hörmulegar afleiðingar. Hverjir neyddu meira en milljón manna til að yfirgefa heimili sín og drápu tugþúsundir í þjóðernisátökunum í Bosníu og Hersegóvínu sem áður tilheyrðu ­Júgóslavíu? „Nágrannar okkar,“ andvarpaði stúlka sem var hrakin úr þorpi sínu. „Við þekktum þá.“

Í Rúanda voru hundruð þúsunda brytjuð niður og voru nágrannar hinna myrtu þar oft að verki. „Hútúmenn og tútsar bjuggu saman, giftust innbyrðis og var sama um eða vissu jafnvel ekki hver væri hútúmaður og hver tútsi,“ sagði í The New York Times. „Þá var sem stífla brysti og drápin hófust.“

Gyðingar og arabar í Ísrael búa líka hlið við hlið en hatur ríkir milli margra þeirra. Ástandið er svipað hjá fjölda kaþólskra og mótmælenda á Írlandi og hjá sífellt fleiri þjóðarbrotum í öðrum löndum. Aldrei fyrr í sögunni hefur svo mikið skort á kærleikann í heiminum.

Hvers vegna hefur náungakærleikurinn kólnað?

Skaparinn svarar því. Orð hans, Biblían, kallar tímana, sem við lifum á, ‚síðustu daga.‘ Spádómar Biblíunnar segja að menn muni á þessu tímabili vera „kærleikslausir.“ Þessar ‚örðugu tíðir‘ kallar Ritningin líka ‚endalok veraldar‘ og Jesús Kristur spáði að þá myndi „kærleikur flestra kólna.“ 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 24:3, 12.

Kærleiksskorturinn nú á dögum er þess vegna eitt af því sem gefur til kynna að við lifum á síðustu dögum þessa heims. Til allrar hamingju þýðir hann líka að þessi heimur óguðlegra manna verði bráðlega látinn víkja fyrir réttlátum nýjum heimi þar sem kærleikurinn ríkir. — Matteus 24:3-14; 2. Pétursbréf 2:5; 3:7, 13.

En höfum við í raun og veru ástæðu til að trúa því að slík breyting sé möguleg — að allir menn geti lært að elska hver annan og búa saman í friði hver við annan?

NÁUNGAKÆRLEIKUR ER RAUNVERULEIKI

„HVER er þá náungi minn?“ spurði lögvitringur á fyrstu öld Jesú. Vafalaust bjóst hann við að Jesús segði: ‚Samlandar þínir, Gyðingar.‘ En í sögu um miskunnsaman og hjálpfúsan Samverja sýndi Jesús fram á að menn af öðru þjóðerni eru líka nágrannar okkar. — Lúkas 10:29-37; Jóhannes 4:7-9.

Jesús undirstrikaði að kærleikur til náungans ætti, næst á eftir kærleikanum til Guðs, að stjórna lífi okkar. (Matteus 22:34-40) En hefur einhver hópur manna nokkurn tíma elskað náunga sinn í raun og veru? Já, frumkristnir menn gerðu það! Þeir voru þekktir fyrir kærleikann sem þeir báru til annarra. — Jóhannes 13:34, 35.

Hvað um okkar tíma? Sýna einhverjir kristinn kærleika í verki? Alfræðiritið Encyclopedia Canadiana segir: „Starf votta Jehóva er endurvakning þeirrar frumkristni sem Jesús og lærisveinar hans ástunduðu . . . Allir eru bræður.“

Hvað þýðir það? Það þýðir að vottar Jehóva leyfa engu — hvorki kynþætti, þjóðerni né félagslegum bakgrunni — að koma sér til að hata nágranna sína. Þeir drepa ekki heldur nokkurn mann vegna þess að þeir hafa í óeiginlegri merkingu smíðað plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. (Jesaja 2:4) Vottarnir eru raunar þekktir fyrir að eiga frumkvæðið að því að hjálpa nágrönnum sínum. — Galatabréfið 6:10.

Ekki er því undarlegt að ritstjórnargrein í dagblaðinu Sacramento Union í Kaliforníu hafi sagt: „Það nægir að segja að ef allur heimurinn lifði eftir trú votta Jehóva væri bundinn endi á blóðsúthellingar og hatur og kærleikurinn myndi ráða ríkjum.“ Maður skrifaði í ungverska tímaritið Ring: „Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ef vottar Jehóva væru einir um að byggja jörðina yrðu engar styrjaldir framar og lögreglan hefði ekki öðrum skyldum að gegna en að stjórna umferð og gefa út vegabréf.“

Óneitanlega þarf þó að eiga sér stað gríðarstór breyting um allan heim ef allir menn eiga að elska hver annan. Hvernig kemst sú breyting á? (Líttu á baksíðuna.)

ÞEGAR ALLIR MENN ELSKA HVER ANNAN

BÆN, sem Jesús Kristur kenndi lærisveinum sínum, sýnir að afdrifarík breyting er í vændum. Í hinni frægu fjallræðu sinni kenndi Jesús okkur að biðja: „Komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:10.

Hvað er ríki Guðs? Það er raunveruleg ríkisstjórn sem stjórnar af himni ofan. Þess vegna er það kallað „himnaríki.“ Faðir Jesú, ‚Friðarhöfðingjans,‘ hefur skipað hann stjórnanda þessa ríkis. —Matteus 10:7; Jesaja 9:6, 7; Sálmur 72:1-8.

Hvað verður um þennan hatursfulla heim þegar Guðsríki kemur? „Það ríki“ mun „knosa og að engu gjöra“ allar hinar spilltu ríkisstjórnir þessa heims. (Daníel 2:44) Biblían segir: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Biblían segir um hinn nýja heim Guðs: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ (Sálmur 37:9-11, 29; Orðskviðirnir 2:21, 22) Það verða dýrlegir tímar! „Dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ (Opinberunarbókin 21:4) Dáið fólk mun jafnvel vakna til lífsins og allri jörðinni verður umbreytt í bókstaflega paradís. — Jesaja 11:6-9; 35:1, 2; Lúkas 23:43; Postulasagan 24:15.

Til þess að fá að lifa í nýjum heimi Guðs verðum við að elska hver annan eins og Guð kennir okkur að gera. (1. Þessaloníkubréf 4:9) Austurlenskur biblíunemandi sagði: „Ég hlakka til þess tíma þegar allir menn hafa lært að elska hver annan eins og Biblían gefur fyrirheit um.“ Við þurfum ekki að efast um að Guð standi við fyrirheit sín. „Það sem ég tala,“ segir hann, „það læt ég einnig fram koma.“ — Jesaja 46:11.

En til þess að njóta blessunar í Guðsríki verður þú að afla þér biblíuþekkingar eins og milljónir hreinhjartaðra manna um allan heim gera. (Jóhannes 17:3) Bæklingurinn, Hvers krefst Guð af þér? sem er 32 blaðsíður, mun hjálpa þér. Þú getur fengið eintak með því að útfylla miðann á blaðsíðunni á undan og senda hann í það póstfang sem næst er heimili þínu.

[Mynd credit line á blaðsíðu 2]

Leyniskytta og jarðarför í Bosníu: Reuters/Corbis-Bettmann