Ný árþúsund — hvað ber framtíðin í skauti sínu?
Guðsríkisfréttir nr. 36
Ný árþúsund — hvað ber framtíðin í skauti sínu?
Nýja árþúsundin — upphaf nýrra tíma?
TUTTUGASTA öldin tók enda 31. desember 1999. * Þetta var öld mikilla umbrota en jafnframt öld nýrrar tækni, gífurlegra framfara í læknavísindum, upplýsingasprengingar og mikils hagvaxtar í heiminum. Margir fagna nýrri árþúsund og telja hana tákn vonar og heillaríkra breytinga. Tekst kannski að binda enda á stríð, fátækt, mengun og sjúkdóma?
Margir vonast til þess. En hvaða líkur skyldu vera á því að ný árþúsund hafi í för með sér breytingar sem verða þér til hagsbóta — breytingar sem auka öryggi þitt og fjölskyldu þinnar? Lítum á örfá þeirra vandamála sem við blasa og athugum hve hrikaleg þau eru.
Mengun
Iðnríkin „valda umfangsmikilli mengun og umhverfisspjöllum um allan heim og eyðileggja vistkerfi.“ Haldi fram sem horfir „mun umhverfisálagið aukast jafnt og þétt.“ — Global Environment Outlook — 2000, Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna.
Sjúkdómar
„Búist er við að árið 2020 verði sjö af hverjum tíu dauðsföllum á þróunarsvæðunum af völdum smitvana sjúkdóma, samanborið við tæplega helming núna.“ — The Global Burden of Disease, Harvard University Press, 1996.
Sumir sérfræðingar fullyrða að „íbúum 23 landa, þar sem alnæmisfaraldurinn er skæðastur, fækki um 66 milljónir fram til ársins 2010.“ — „Confronting AIDS: Evidence From the Developing World,“ skýrsla framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Alþjóðabankans.
Fátækt
„Næstum 1,3 milljarðar manna draga fram lífið á innan við 70 krónum á dag, og næstum 1 milljarður getur ekki fullnægt næringarþörf sinni.“ — „Human Development Report 1999,“ Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna.
Stríð
„Innanlandsátök [víða um lönd] gætu stóraukist. Ofbeldisverk, . . . sem rekja má til þjóða-, ættflokka- og trúarsundrungar, verða . . . algengustu átök næsta aldarfjórðungs . . . og munu kosta hundruð þúsunda mannslífa á ári.“ — „New World Coming: American Security in the 21st Century,“ Bandarísk nefnd um þjóðaröryggi á 21. öld.
Í öllum fagnaðarlátunum og spenningnum yfir tilkomu nýrrar árþúsundar hefur mönnum gleymst að mengun, sjúkdómar, fátækt og stríð ógna mannkyni meir en nokkru sinni fyrr. Undirrót þessara vandamála eru ágirnd, vantraust og eigingirni sem vísindarannsóknir, tækni og stjórnmál geta ekki upprætt.
Árþúsundin sem verður mannkyni til blessunar
„Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum,“ sagði rithöfundur endur fyrir löngu. (Jeremía 10:23) Sannleikurinn er sá að maðurinn hefur hvorki hæfileika né rétt til að stjórna jörðinni. Enginn nema skaparinn, Jehóva Guð, hefur kunnáttu og rétt til að leysa vandamál mannkyns. — Rómverjabréfið 11:33-36; Opinberunarbókin 4:11.
En hvenær og hvernig? Öll rök hníga að því að hinir ‚síðustu dagar‘ séu nærri á enda. Flettu upp á 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5 í Biblíunni og lestu. Þar er nákvæm lýsing á persónueinkennum fólks á þessum ‚örðugu tíðum‘ sem við lifum. Matteus 24:3-14 og Lúkas 21:10, 11 lýsa einnig hinum „síðustu dögum.“ Þar er athyglinni beint að atburðum sem hafa átt sér stað frá 1914, svo sem heimsstyrjöldum, drepsóttum og víðtækum matvælaskorti.
Hinir ‚síðustu dagar‘ eru brátt á enda. Daníel 2:44 segir að ‚Guð himnanna muni hefja ríki sem aldrei skuli á grunn ganga, og að það muni knosa og að engu gjöra öll þessi jarðnesku ríki en sjálft standa að eilífu.‘ Þannig var boðað að Guð myndi setja á stofn ríki eða stjórn yfir allri jörðinni. Að sögn Opinberunarbókarinnar 20:4 fer þessi stjórn með völd í þúsund ár. Lítum á nokkur dæmi um það hvernig lífsskilyrði mannkyns munu batna í þessu þúsundáraríki:
Efnahagslíf. „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta.“ — Jesaja 65:21, 22.
Heilbrigðismál. „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ — Jesaja 33:24; 35:5, 6.
Umhverfismál. Guð mun „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ — Opinberunarbókin 11:18.
Mannleg samskipti. „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva].“ — Jesaja 11:9.
Milljónir manna trúa á þessi loforð Biblíunnar. Þeir eru bjartsýnir og jákvæðir gagnvart framtíðinni og veitist þar með auðveldara að takast á við álag og vandamál lífsins. Hvernig getur þú gert Biblíuna að leiðarljósi í lífi þínu?
Þekking sem veitir líf
Vísindi og tækni hafa áorkað ýmsu en mannleg þekking hefur þó ekki dugað til að tryggja hamingju og öryggi flestra manna. Það er aðeins ein tegund þekkingar sem getur gert það og henni er lýst í Biblíunni í Jóhannesarguðspjalli 17:3. Þar stendur: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“
Þessa þekkingu er að finna í Biblíunni. Margir hafa ákveðnar skoðanir á hinni helgu bók en fáir hafa rannsakað hana sjálfir. Hvað um þig? Vissulega þarf að leggja nokkuð á sig til að lesa Biblíuna en það er vel þess virði. Biblían er eina bókin sem er „innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Hvernig geturðu kynnt þér innihald Biblíunnar? Þú gætir þegið aðstoð votta Jehóva. Þeir bjóða upp á ókeypis kennslu á einkaheimilum og milljónir manna notfæra sér aðstoð þeirra. Ýmis biblíutengd rit eru notuð við kennsluna, til dæmis bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur? sem inniheldur hnitmiðuð svör við fjölmörgum biblíuspurningum. Hver er Guð? Hver er tilgangur Guðs með jörðina? Hvað er Guðsríki? Hvernig getur Biblían bætt fjölskyldulífið?
Útfylltu og sendu miðann hér að neðan ef þú vilt fá einn af vottum Jehóva í heimsókn. Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að veita þér nánari upplýsingar um þúsundáraríkið sem framundan er.
□ Sendið mér bæklinginn Hvers krefst Guð af okkur?
□ Hafið samband við mig varðandi ókeypis heimabiblíunámskeið
[Neðanmáls]
^ gr. 4 Hér er miðað við almenn viðhorf Vesturlandabúa. Fræðilega séð hefst ný árþúsund ekki fyrr en 1. janúar 2001.