FORSÍÐUEFNI
Að nota tímann skynsamlega
„Ég vildi að ég hefði meiri tíma!“ Hve oft hefur þú óskað þess? Allir eru jafnir hvað tíma varðar. Þeir sem eru valdamiklir og ríkir eiga ekki meira af honum heldur en þeir sem eru lágt settir og fátækir. Hvorki ríkir né fátækir geta heldur safnað sér tíma. Þegar hann er liðinn kemur hann aldrei aftur. Það er því skynsamlegt að nýta vel tímann sem við höfum. Hvernig getum við gert það? Lestu um fjögur úrræði sem hafa hjálpað mörgum að nota tíma sinn skynsamlega.
1. úrræði: Skipuleggðu þig
Forgangsraðaðu. Biblían ráðleggur: „Metið hvað sé mikilvægt.“ (Filippíbréfið 1:10) Búðu til verkefnalista yfir það sem er mikilvægt, áríðandi eða hvort tveggja. Hafðu í huga að það sem er mikilvægt – eins og að versla í matinn – þarf ekki að vera áríðandi. Og það sem virðist áríðandi – eins og að ná byrjuninni af uppáhalds sjónvarpsþættinum þínum – er kannski ekki mikilvægt. *
Hugsaðu fram í tímann. „Sé öxin orðin sljó og eggin ekki brýnd, þá verður maðurinn að neyta því meiri orku,“ segir í Prédikaranum 10:10. Og þar heldur áfram: „Það er ávinningur að undirbúa allt með hagsýni.“ Hvað lærum við af þessu? Þú getur brýnt öxina ef svo má að orði komast með því að gera áætlun svo að þú getir nýtt tímann sem best. Frestaðu eða hættu við verkefni sem eru ekki nauðsynleg og myndu bara taka frá þér tíma og orku. Ef þú hefur lausan tíma vegna þess að þú ert búinn að klára verkefni væri ráð að byrja á nýju verkefni sem var á áætlun seinna. Með því að hugsa fram í tímann geturðu afkastað meiru, líkt og skynsamur verkamaður sem brýnir öxina sína.
Einfaldaðu lífið. Lærðu að hafna því sem skiptir litlu máli og gerir lítið annað en að ræna þig tíma. Að hafa of mikið á dagskrá getur valdið óþarfa streitu og rænt þig gleðinni.
2. úrræði: Forðastu tímaþjófa
Frestun og óákveðni. „Sá sem sífellt gáir að vindinum sáir ekki og sá sem sífellt horfir á skýin uppsker ekki.“ (Prédikarinn 11:4) Hvað lærum við af þessu? Frestun rænir okkur bæði tíma og afköstum. Bóndi sem bíður eftir fullkomnum aðstæðum nær kannski aldrei að sá eða uppskera. Við gætum á svipaðan hátt leyft óvissu að gera okkur óákveðin. Eða okkur gæti fundist við þurfa að hafa allar mögulegar upplýsingar um málið áður en við tökum ákvörðun. Að sjálfsögðu þurfum við að kynna okkur málin og hugsa okkur um áður en við tökum mikilvægar ákvarðanir. Í Orðsviðunum 14:15 segir: „Hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ En raunin er sú að við þurfum oft að taka ákvarðanir þó að við séum ekki viss um útkomuna. – Prédikarinn 11:6.
Fullkomnunarárátta. Í Jakobsbréfinu 3:17 segir: „Viskan sem kemur ofan að [eða frá Guði] er ... sanngjörn.“ Það er auðvitað hrósvert að vilja gera vel. En stundum setjum við markið svo hátt að það er líklegt að okkur mistakist og við verðum fyrir vonbrygðum. Til dæmis þarf sá sem er að læra nýtt tungumál að vera viðbúinn því að gera mistök, meðvitaður um að hann lærir af þeim. En sá sem er með fullkomnunaráráttu er líklega dauðhræddur um að hann segi eitthvað vitlaust og það hindrar hann í að taka framförum. Það er mikið betra að gera sér hóflegar væntingar. „Hjá hinum hógværu er viska,“ segir í Orðskviðunum 11:2. Auk þess taka þeir sem eru hógværir og auðmjúkir sig ekki of alvarlega og geta yfirleitt hlegið að sjálfum sér.
„Maður borgar í rauninni ekki fyrir hluti með peningum heldur tíma sínum.“ – What to Do Between Birth and Death.
3. úrræði: Sýndu jafnvægi og vertu raunsær
Hafðu jafnvægi milli vinnu og afþreyingar. „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 4:6) Vinnufíklar hafa oft „báðar hendur fullar af striti“ en njóta ekki ávaxtarins af því. Þeir hafa hreinlega ekki tíma eða orku til þess. Letinginn vill hins vegar hafa „báðar hendur fullar“ af ró og hann sóar dýrmætum tíma. En Biblían hvetur okkur til að hafa jafnvægi: Að leggja hart að okkur og njóta launanna. Gleðin af því er „Guðs gjöf“. – Prédikarinn 5:18.
Fáðu nægan svefn. Biblíuritari sagði: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna.“ (Sálmur 4:9) Flestir fullorðnir þurfa um átta tíma svefn til að líkaminn, tilfinningarnar og hugurinn hafi fullt gagn af honum. Varðandi hið síðastnefnda má segja að svefn sé góð fjárfesting í tímanum vegna þess að hann eykur einbeitinguna og styrkir minnið, sem gerir okkur auðveldara með að læra. En ónógur svefn gerir nám erfiðara og eykur líkurnar á slysum, mistökum og pirringi.
Settu þér raunhæf markmið. „Betri er sjón augnanna en reik girndarinnar.“ (Prédikarinn 6:9, Biblían 1981) Hvað er átt við með því? Sá sem er skynsamur lætur ekki langanir stjórna lífi sínu, sérstaklega langanir sem eru óraunhæfar eða ómögulegt að fullnægja. Hann lætur því ekki tælast af snjöllum auglýsingum eða auðfengnum lánum. Hann lærir öllu heldur að vera sáttur við „sjón augnanna“, eða það sem hann getur fengið.
4. úrræði: Fylgdu góðum lífsgildum
Hugsaðu um lífsgildi þín. Lífsgildi þín auðvelda þér að meta hvað sé gott, mikilvægt og þess virði að verja tímanum í. Ef þú hugsar um líf þitt sem ör eru lífsgildi þín það sem þú notar til að miða henni. Góð lífsgildi hjálpa þér að forgangsraða vel og nýta tíma þinn sem best allan daginn, alla daga. Hvað getur hjálpað þér að setja þér slík lífsgildi? Margir leita í Biblíuna vegna þess að þeir gera sér grein fyrir að viska hennar er einstök. – Orðskviðirnir 2:6, 7.
Við þurfum að sýna kærleika. Kærleikurinn „er fullkomið einingarband,“ segir í Kólossubréfinu 3:14. Án kærleika, sérstaklega innan fjölskyldunnar, getum við ekki verið hamingjusöm í raun og fundið til öryggis. Fólk sem hunsar þessa staðreynd og sækist fyrst og fremst eftir peningum eða frama verður ekki hamingjusamt. Það er góð ástæða fyrir því að Biblían segir kærleikann vera mikilvægasta lífsgildið og nefnir hann mörg hundruð sinnum. – 1. Korintubréf 13:1–3; 1. Jóhannesarbréf 4:8.
Taktu frá tíma til að sinna andlegri þörf þinni. Maður að nafni Geoff átti ástríka eiginkonu, tvö hamingjusöm börn, góða vini og var í gefandi starfi sem bráðaliði. En í vinnunni þurfti hann oft að horfa upp á þjáningar og dauða. Hann velti fyrir sér: „Á lífið að vera svona?“ Einn daginn las hann biblíutengd rit gefin út af Vottum Jehóva og fékk fullnægjandi svör.
Geoff sagði konu sinni og börnum frá því sem hann var að læra og það kveikti áhuga hjá þeim líka. Fjölskyldan byrjaði að kynna sér Biblíuna. Það auðgaði líf þeirra og hjálpaði þeim að nota tíma sinn skynsamlegar. Nám þeirra í Biblíunni veitti þeim einnig dásamlega von um eilíft líf í heimi án þjáninga og tilgangsleysis. – Opinberunarbókin 21:3, 4.
Reynsla Geoffs minnir á orð Jesú Krists: „Þeir sem skynja andlega þörf sína eru hamingjusamir.“ (Matteus 5:3) Ert þú tilbúinn að taka frá smá tíma til að sinna andlegri þörf þinni? Þú mátt vera viss um að það veitir þér visku til að nota tíma þinn sem best dag frá degi og allt lífið.
^ gr. 5 Sjá „20 leiðir til að skapa sér meiri tíma“ í Vaknið! júlí 2010.