VIÐTAL | RACQUEL HALL
Kona sem var gyðingatrúar skýrir frá því hvers vegna hún endurskoðaði trú sína
Móðir Racquelar Hall var ísraelskur Gyðingur og faðir hennar frá Austurríki og hafði tekið gyðingatrú. Afi hennar og amma í móðurætt voru síonistar sem höfðu flust til Ísraels 1948, árið sem það varð sjálfstætt ríki. Vaknið! spurði Racquel hvað fékk hana til að rannsaka betur trú sína sem Gyðingur.
Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér.
Ég fæddist í Bandaríkjunum árið 1979. Þegar ég var þriggja ára skildu foreldrar mínir. Mamma ól mig upp samkvæmt venjum Gyðinga og sendi mig í yeshiva, eða gyðingaskóla. Þegar ég var sjö ára fluttum við til Ísraels í eitt ár og ég sótti skóla á samyrkjubúi sem kallast kibbutz. Síðan fluttum við mamma til Mexíkó.
Þó að það væri ekki samkunduhús á þeim slóðum hélt ég áfram að fylgja siðvenjum Gyðinga. Ég kveikti á kertum fyrir hvíldardaginn, las Tóruna okkar og fór með bænir með hjálp siddur, eða bænabókar. Í skólanum sagði ég oft bekkjarfélögum mínum að mín trú væri sú upprunalega. Ég hafði aldrei lesið það sem er oftast kallað Nýja testamentið, en það beinir athyglinni að boðun og kennslu Jesú Krists. Reyndar varaði mamma mig við því að lesa það svo að ég myndi ekki spillast af kenningum þess.
Hvers vegna ákvaðstu að lesa Nýja testamentið?
Þegar ég varð 17 ára flutti ég aftur til Bandaríkjanna til að klára nám. Kunningi minn þar sem sagðist vera kristinn sagði mér að án Jesú myndi alltaf vanta eitthvað í líf mitt.
„Fólk sem trúir á Jesú er vegvillt,“ svaraði ég.
„Hefur þú lesið Nýja testamentið?“ spurði hann.
„Nei,“ sagði ég.
„Er þá ekki óviturlegt af þér að tjá skoðun þína á einhverju sem þú veist ekkert um?“ sagði hann.
Það sem hann sagði stakk mig. Mér hafði alltaf fundist heimskulegt að mynda sér skoðanir á einhverju í blindni. Ég játaði mig sigraða og tók Biblíuna hans með mér heim og byrjaði að lesa Nýja testamentið.
Hvaða áhrif hafði það sem þú last á þig?
Ég var hissa þegar ég komst að því að ritarar Nýja testamentisins voru Gyðingar. Eftir því sem ég las meira sá ég líka betur að Jesús var góður og auðmjúkur Gyðingur sem vildi hjálpa fólki en ekki notfæra sér það. Ég fór meira að segja á bókasafnið og tók út bækur um hann. En engin þeirra sannfærði mig um að hann væri Messías. Sumar sögðu meira að segja að hann væri Guð, en það var viðhorf sem mér fannst alls ekki rökrétt. Hvers bað Jesús til – sjálfs sín? Þar að auki dó Jesús. En Biblían segir að Guð ,deyi aldrei‘. *
Hvernig fannstu svörin við þessum spurningum?
Það eru engar mótsagnir í sannleikanum. Ég var ákveðin í að finna sannleikann. Ég bað því grátandi til Guðs í einlægni – í fyrsta sinn án hjálpar bænabókarinnar. Ég hafði varla sleppt orðinu þegar bankað var á dyrnar. Það voru vottar Jehóva. Þeir gáfu mér eitt af biblíunámsgögnum sínum. Þetta rit og samræðurnar sem ég átti síðar við vottana sannfærðu mig um að trú þeirra væri byggð á Biblíunni. Vottarnir viðurkenna Jesú til dæmis ekki sem hluta af þrenningu heldur sem ,son Guðs‘ * og „fyrsta sköpunarverk Guðs“. *
Stuttu seinna fór ég aftur til Mexíkó og hélt áfram að rannsaka Messíasarspádóma með vottunum. Ég var undrandi yfir því hve margir þeir voru. En ég hafði samt enn einhverjar efasemdir. Ég velti fyrir mér: „Var Jesús sá eini sem spádómarnir pössuðu við?“ og „Hvað ef hann var bara klár leikari sem þóttist vera Messías?“
Hvað sannfærði þig algerlega?
Vottarnir sýndu mér spádóma sem enginn svikari gat komið í kring. Til dæmis sagði spámaðurinn Míka meira en 700 árum fram í tímann að Messías myndi fæðast í Betlehem í Júdeu. * Hver getur ákveðið hvar hann fæðist? Jesaja skrifaði að Messías yrði tekinn af lífi eins og fyrirlitinn glæpamaður en yrði samt grafinn meðal ríkra. * Allir þessir spádómar rættust á Jesú.
Síðasta sönnunin var ætterni Jesú. Í Biblíunni segir að Messías yrði afkomandi Davíðs konungs. * Ef Jesús hefði ekki verið af ætt Davíðs hefðu óvinir hans hrópað það af húsþökunum vegna þess að Gyðingar til forna héldu ættarskrár. En þeir gátu það ekki því að tengsl Jesú við Davíð voru óumdeilanleg. Fólk kallaði hann meira að segja „son Davíðs“. *
Árið 70–37 árum eftir að Jesús dó – lögðu Rómverskar hersveitir Jerúsalem í rúst og ættarskrárnar glötuðust eða þeim var eytt. Messías þurfti því að koma fram fyrir árið 70 til að hægt væri að bera kennsl á ætt hans.
Hvaða áhrif hafði þessi skilningur á þig?
Í 5. Mósebók 18:18, 19 var sagt fyrir að Guð myndi láta fram koma spámann eins og Móse í Ísrael. „Hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar,“ sagði Guð. Nákvæm rannsókn mín á allri Biblíunni sannfærði mig um að Jesús frá Nasaret væri þessi spámaður.
^ gr. 21 Jesaja 9:5, 6; Lúkas 1:30–32. Í Matteusi 1. kafla er að finna ættartölu Jesú í föðurætt og í Lúkasi 3. kafla er að finna ættartölu hans í móðurætt.