Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Ég komst að því að Jehóva er miskunnsamur og fús að fyrirgefa

Ég komst að því að Jehóva er miskunnsamur og fús að fyrirgefa
  • FÆÐINGARÁR: 1954

  • FÖÐURLAND: KANADA

  • FORSAGA: SVIKAHRAPPUR OG FJÁRHÆTTUSPILARI

FORTÍÐ MÍN:

Ég ólst upp í hverfi í borginni Montreal þar sem var fátækt og atvinnuleysi. Þegar ég var sex mánaða dó faðir minn og eftir stóð móðir mín með alla ábyrgðina í fjölskyldunni. Ég var yngstur af átta systkinum.

Þegar ég var krakki snerist daglegt líf um eiturlyf, fjárhættuspil, ofbeldi og samskipti við glæpamenn. Þegar ég var tíu ára fór ég í sendiferðir fyrir vændiskonur og okurlánara. Ég laug oft að fólki og naut þess að stjórna því og pretta. Það var eins og eiturlyf fyrir mig.

Þegar ég var 14 ára fann ég nýjar leiðir til að blekkja fólk. Til dæmis keypti ég gullhúðuð úr, armbönd og hringi í stórum stíl, merkti eins og þau væru úr 14 karata gulli og seldi síðan á götum og bílastæðum við verslanamiðstöðvar. Mér fannst frábært að geta aflað mér peninga á svo auðveldan hátt. Einu sinni fékk ég 10.000 dollara á einum degi.

Eftir að ég var rekinn úr betrunarskóla þegar ég var 15 ára átti ég hvergi heima. Ég svaf á götunni, í almenningsgörðum eða hjá félögum sem skutu yfir mig skjólshúsi.

Lögreglan yfirheyrði mig oft vegna þess að ég prettaði fólk. Ég seldi ekki stolinn varning og lenti því aldrei í fangelsi. En ég þurfti oft að borga háa sekt fyrir svik, falsanir eða fyrir að selja í leyfisleysi. Ég óttaðist ekkert og innheimti jafnvel peninga fyrir okurlánara. Það var hættulegt og stundum var ég með byssu á mér. Í sumum tilfellum vann ég með glæpamönnum.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Ég kynntist fyrst Biblíunni þegar ég var 17 ára. Ég bjó með kærustunni minni en hún fór að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva. Ég var á móti siðferðishömlum Biblíunnar og fór því frá henni og fór að búa með annarri konu.

Það urðu þáttaskil í lífi mínu þegar önnur kærastan mín fór líka að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva. Hún tók að breyta lífi sínu og það hafði mikil áhrif á mig hvað hún varð mildari og þolinmóðari. Ég þáði boð um að koma á samkomu í ríkissal Votta Jehóva. Vingjarnlegt og snyrtilegt fólk bauð mig velkominn. Hvílíkur munur á því og fólkinu sem ég þekkti. Fjölskylda mín hafði aldrei sýnt að hún vildi mig, ég fór á mis við ástúð og blíðu alla mína æsku. Hlýjan sem ég fann meðal votta Jehóva var einmitt það sem mig vantaði. Þegar vottarnir buðust til að rannsaka Biblíuna með mér þáði ég það með þökkum.

Það sem ég lærði í Biblíunni bjargaði trúlega lífi mínu. Ég hafði haft áform um að fremja rán með tveimur félögum til að greiða fjárhættuspilaskuldir sem voru orðnar meira en 50.000 dollarar. En ég er mjög ánægður að ég hætti við. Fyrrverandi félagar mínir frömdu ránið. Annar var handtekinn og hinn lét lífið.

Þegar ég kynnti mér Biblíuna betur komst ég að því að ég þurfti að breyta mörgu. Ég las til dæmis það sem segir í 1. Korintubréfi 6:10: „Þjófar, ágjarnir, drykkjumenn, lastmálir og ræningjar erfa ekki ríki Guðs.“ Þegar ég las þetta vers áttaði ég mig á því hversu illa staddur ég var og brast í grát. Ég skildi að ég varð að breyta lífi mínu algerlega. (Rómverjabréfið 12:2) Ég var ofbeldisfullur og árásargjarn og allt líf mitt var byggt á lygum.

En þegar ég rannsakaði Biblíuna komst ég líka að því að Jehóva er miskunnsamur og fús að fyrirgefa. (Jesaja 1:18) Ég bað ákaft til Jehóva og grátbað hann um að hjálpa mér að breyta um lífsstíl. Með hjálp hans gat ég smám saman breytt persónuleika mínum. Það var mikilvægt skref þegar við kærastan mín gengum í hjónaband.

Ég er á lífi vegna þess að ég fer eftir meginreglum Biblíunnar.

Ég var 24 ára, giftur og átti þrjú börn. Nú þurfti ég að finna mér löglega vinnu. En ég hafði litla menntun og engin meðmæli. Aftur bað ég innilega til Jehóva. Síðan fór ég að leita að vinnu. Ég sagði mögulegum vinnuveitendum að ég vildi gera breytingar á lífi mínu og fá heiðarlega vinnu. Stundum sagði ég að ég væri að kynna mér Biblíuna og mig langaði að verða betri þjóðfélagsþegn. Margir vildu ekki ráða mig. Að lokum svaraði einn vinnuveitandi eftir að ég sagði honum opinskátt frá fortíð minni: „Ég veit ekki af hverju en eitthvað segir mér að ég ætti að ráða þig.“ Ég held að þetta hafi verið svar við bænum mínum. Með tímanum skírðumst við hjónin.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Ég er á lífi vegna þess að ég byrjaði að fara eftir meginreglum Biblíunnar og lifa eftir kristnum gildum. Ég á góða fjölskyldu. Ég er sannfærður um að Jehóva er búinn að fyrirgefa mér og hef góða samvisku.

Síðustu 14 árin hef ég verið í fullu starfi í boðuninni við að hjálpa öðrum að læra það sem Biblían kennir og nýlega byrjaði konan mín með mér í fullu starfi. Síðustu 30 ár hef ég notið þeirrar ánægju að hjálpa 22 af vinnufélögum mínum að byrja að þjóna Jehóva. Ég fer enn þá í verslunarmiðstöðvar, en ekki til að pretta fólk eins og ég gerði áður fyrr. Þegar ég fer þangað núna segi ég öðrum gjarnan frá trú minni. Mig langar að gefa þeim von um að lifa í heimi sem verður laus við þá sem svíkja aðra. – Sálmur 37:10, 11.