Er Jesús guð?
MARGIR álíta þrenningarkenninguna „kjarna kristinnar trúar“. Samkvæmt henni eru faðirinn, sonurinn og heilagur andi þrjár persónur í einum Guði. John O‘Connor kardináli segir um þrenningarkenninguna: „Við vitum að þetta er djúptækur leyndardómur sem við reynum ekki að skilja.“ Hvers vegna er svona erfitt að skilja þrenningarkenninguna?
Ein ástæða er nefnd í ritinu The Illustrated Bible Dictionary. Þar segir um þrenningarkenninguna: „Þetta er ekki biblíuleg kenning í þeim skilningi að það séu biblíuvers sem útskýra hana.“ Þeir sem aðhyllast þrenningarkenninguna hafa leitað logandi ljósi að biblíuversum sem styðja hana og jafnvel rangtúlkað biblíuvers til þess.
Biblíuvers sem eiga að styðja þrenningarkenninguna
Eitt dæmi um biblíuvers sem er oft notað ranglega er Jóhannes 1:1. Í íslensku biblíunni frá árinu 2010 hljóðar versið þannig: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði [á grísku ton þeon] og Orðið var Guð [þeos].“ Í þessu versi er gríska nafnorðið þeos (guð) í tveim myndum. Í fyrra tilvikinu stendur það með ton sem er ákveðinn greinir í grísku og þá á orðið þeon við Guð almáttugan. Í síðara tilvikinu er orðið þeos án ákveðins greinis. Voru það mistök?
Hvers vegna er svona erfitt að skilja þrenningarkenninguna?
Jóhannesarguðspjall var skrifað á koine-grísku sem hefur sérstakar reglur um notkun ákveðins greinis. Biblíufræðingurinn A.T. Robertson segir að ef bæði frumlag og sagnliður hafa greini þá séu báðir setningarliðirnir „ákveðnir og jafngildir og merki það sama“. Robertson álítur Matteus 13:38 dæmi um þetta. Þar segir: „Akurinn [á grísku ho agros] er heimurinn [ho kosmos].“ Málfræðin gerir okkur kleift að skilja að heimurinn er akurinn.
En hvað ef frumlagið er með ákveðnum greini en sagnliðurinn ekki eins og í Jóhannesi 1:1? Fræðimaðurinn James Allen Hewett útskýrir það þegar hann vísar í versið og segir: „Þegar setning er þannig byggð upp eru frumlagið og sagnliðurinn ekki það sama, ekki jafngild.“
Til að útskýra þetta bendir Hewett á 1. Jóhannesarbréf 1:5. Þar segir: „Guð er ljós.“ Á grísku er „Guð“ ho þeos og hefur þar með ákveðinn greini. En orðið fos fyrir „ljós“ er ekki með greini. Hewett segir: „Maður getur alltaf … sagt um Guð að hann sé persónugervingur ljóssins, en maður getur ekki alltaf sagt að ljós sé Guð.“ Líkt dæmi er að finna í Jóhannesi 4:24: „Guð er andi,“ og í 1. Jóhannesarbréfi 4:16: „Guð er kærleikur.“ Í báðum þessum biblíuversum er frumlagið með ákveðnum greini en sagnliðirnir „andi“ og „kærleikur“ eru greinislausir. Frumlagið og sagnliðurinn í þessum versum eru því ekki eitt og hið sama. Þessi vers geta ekki þýtt „andi er Guð“ eða „kærleikur er Guð“.
Hver er „Orðið“?
Margir grískufræðingar og biblíuþýðendur viðurkenna að Jóhannes 1:1 leggi áherslu á eiginleika „Orðsins“ en ekki hver það er. Biblíuþýðandinn William Barclay segir: „Þar sem [Jóhannes postuli] hefur ekki ákveðinn greini með orðinu þeos verður það lýsandi … Jóhannes er ekki að segja að Orðið sé Guð. Hann er með öðrum orðum ekki að segja að Jesús sé Guð.“ Fræðimaðurinn Jason David BeDuhn tekur í sama streng og segir: „Ef þú sleppir greininum með orðinu þeos í setningu í grísku eins og gert er í Jóhannesi 1:1c álykta lesendur að þú meinir ,guð‘ … Þegar þeos stendur án ákveðins greinis er merking þess gerólík ho þeos, rétt eins og orðið guð er ólíkt orðinu Guð í ensku.“ BeDuhn bætir við: „Í Jóhannesi 1:1 er Orðið ekki hinn eini sanni Guð heldur guð, eða guðleg vera.“ Eða eins og Joseph Henry Thayer, fræðimaður sem vann að þýðingu American Standard Version, sagði: „Logos [eða Orðið] var guðlegt, ekki Guð sjálfur.“
Jesús gerði skýran greinarmun á sjálfum sér og föður sínum.
Þarf það að vera „djúptækur leyndardómur“ að skilja hver Guð er? Það virðist ekki hafa verið þannig í huga Jesú. Í bæn Jesú til föður síns gerði hann skýran greinarmun á sér og föður sínum þegar hann sagði: „Til að hljóta eilíft líf þurfa þeir að kynnast þér, hinum eina sanna Guði, og þeim sem þú sendir, Jesú Kristi.“ (Jóh. 17:3) Ef við trúum Jesú og skiljum skýr orð Biblíunnar virðum við hann sem guðlegan son Guðs. Við munum líka tilbiðja Jehóva sem hinn „eina sanna Guð“.