Hún fann tilgang í lífinu
Fréttir úr boðuninni
Hún fann tilgang í lífinu
JESÚS segist þekkja sauði sína. (Jóhannes 10:14) Einstaklingur með gott hjartalag sem elskar frið og réttlæti dregst að fylgjendum Jesú. Hann finnur tilgang í lífinu eins og kona ein í Belgíu gerði. Þetta er saga hennar:
„Þegar vottar Jehóva bönkuðu hjá mér var ég þunglynd og hugleiddi að binda enda á líf mitt. Mér leist vel á það sem vottarnir sögðu um lausn vandamála þessa sjúka heims en líkaði ekki hugmyndin um hlutverk Guðs í því. Ég hafði hætt að fara í kirkju átta árum áður því ég hataði hræsnina sem ég sá þar. Ég áttaði mig hins vegar á því að það sem vottarnir sögðu var sannleikur og að þrátt fyrir allt væri erfitt að lifa án Guðs.
Því miður missti ég sambandið við vottana eftir að þeir höfðu komið fáein skipti. Mér leið ömurlega. Ég reykti tvo pakka af sígarettum á dag og fór jafnvel að nota vímuefni. Mig langaði að komast í samband við látinn afa minn og fiktaði við andatrú. Ég varð frá mér af hræðslu ein um nótt þegar ég varð fyrir árás illra anda. Þetta ástand varði mánuðum saman. Ég var skelfingu lostin á hverju kvöldi við tilhugsunina um að vera ein.
Dag einn fór ég í gönguferð og fór leið sem ég var ekki vön að fara. Ég kom að stórri byggingu. Mér til undrunar sá ég fjölda fólks. Þegar ég kom nær sá ég að þetta voru vottar Jehóva að byggja ríkissal. Ég mundi eftir heimsóknum vottanna og hugsaði með mér hversu dásamlegt það yrði ef allir menn lifðu eins og þetta fólk.
Mig langaði virkilega að fá vottana aftur í heimsókn til mín og talaði því við nokkra sem voru að vinna við ríkissalinn. Ég bað til Guðs og tíu dögum síðar kom maðurinn sem hafði fyrst heimsótt mig. Hann stakk upp á að við myndum halda áfram biblíunámskeiðinu sem ég þáði með þökkum. Hann bauð mér strax á samkomu í ríkissalnum. Ég þáði það. Ég hafði aldrei séð annað eins. Ég var svo lengi búin að leita að fólki sem elskaði hvert annað og væri hamingjusamt. Og nú hafði ég loksins fundið það.
Eftir þetta mætti ég á allar samkomur. Eftir um það bil þrjár vikur hætti ég þeim vonda sið að reykja. Ég henti bókunum sem ég átti um stjörnuspeki og hjómplötum með djöfullegri tónlist og ég fann að illir andar voru að missa tökin á mér. Ég breytti lífi mínu í samræmi við mælikvarða Jehóva í Biblíunni og þrem mánuðum síðar fór ég að boða fagnaðarboðskapinn. Að sex mánuðum liðnum lét ég skírast. Tveim dögum eftir skírnina byrjaði ég að starfa sem aðstoðarbrautryðjandi.
Ég er Jehóva svo þakklát fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig. Ég hef loksins fundið tilgang í lífinu. Nafn Jehóva er sterkur turn og þar er ég óhult. (Orðskviðirnir 18:10) Mér líður eins og sálmaskáldinu sem skrifaði Sálm 84:11: ,Einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir. Heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dveljast í tjöldum óguðlegra.‘“
Þessi auðmjúka kona fann tilgang í lífinu. Hver sem er með gott hjarta og leitar Jehóva getur það líka.