Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Hverja á Páll við þegar hann talar um ,vantrúaða‘ í 2. Korintubréfi 6:14?
Í 2. Korintubréfi 6:14 segir: „Gangist ekki undir ok með vantrúuðum því að okið verður ójafnt.“ Af samhenginu er ljóst að Páll er að tala um einstaklinga sem tilheyra ekki kristna söfnuðinum. Önnur biblíuvers þar sem Páll notar orðið „vantrúaður“ eða „vantrúaðir“ styðja þann skilning.
Til dæmis ávítaði Páll kristna menn sem stóðu í málaferlum hver gegn öðrum „fyrir vantrúuðum“. (1. Korintubréf 6:6) Hér eiga ,vantrúaðir‘ við um dómara í réttarkerfi Korintu. Í síðara bréfi sínu segir Páll að Satan hafi „blindað huga hinna vantrúuðu“. Það var eins og ,slæða‘ væri bundin fyrir augun á þeim. Þessir vantrúuðu sýndu engan áhuga á að þjóna Jehóva. Páll hafði áður sagt: „Þegar einhver snýr sér til Jehóva er slæðan fjarlægð.“ – 2. Korintubréf 3:16; 4:4.
Sumir ,vantrúaðir‘ gerðu það sem var illt eða tilbáðu skurðgoð. (2. Korintubréf 6:15, 16) En þeir voru ekki allir á móti þjónum Jehóva. Sumir sýndu sannleikanum áhuga. Margir þeirra voru giftir þjóni Jehóva og ákváðu að vera það áfram. (1. Korintubréf 7:12–14; 10:27; 14:22–25; 1. Pétursbréf 3:1, 2) En Páll notaði aftur og aftur orðið „vantrúaðir“ um þá sem tilheyrðu ekki kristna söfnuðinum, sem samanstendur af þeim sem „trúa á Drottin“. – Postulasagan 2:41; 5:14; 8:12, 13.
Meginreglan í 2. Korintubréfi 6:14 er gott viðmið fyrir þjóna Guðs á öllum sviðum lífsins og hefur oft verið notuð til að gefa þeim leiðbeiningar varðandi val á maka. (Matteus 19:4–6) Það er skynsamlegt af vígðum og skírðum þjóni Jehóva að leita sér ekki að maka á meðal vantrúaðra þar sem siðferðisgildi þeirra, markmið og trú eru mjög ólík.
En hvað um þá sem eru að kynna sér Biblíuna og sækja samkomur? Og hvað um óskírða boðbera? Eru þeir vantrúaðir? Nei. Við ættum ekki að telja þá vantrúaða sem hafa tekið við fagnaðarboðskapnum og eru að taka framförum til að láta skírast. (Rómverjabréfið 10:10; 2. Korintubréf 4:13) Kornelíus var kallaður „trúrækinn og guðhræddur“ áður en hann lét skírast. – Postulasagan 10:2.
Væri þá skynsamlegt af þjóni Guðs að finna sér maka sem er óskírður boðberi fyrst ráðin í 2. Korintubréfi 6:14 eiga strangt til tekið ekki við um hann? Nei, það væri ekki skynsamlegt enda gaf Páll kristnum ekkjum þessar skýru leiðbeiningar: „Henni [er] frjálst að giftast hverjum sem hún vill, þó aðeins ef hann þjónar Drottni.“ (1. Korintubréf 7:39) Í samræmi við þetta ráð ættu vígðir þjónar Guðs aðeins að leita sér að maka sem „þjónar Drottni“.
Hvað er átt við með orðalaginu „þjónar Drottni“ og „í þjónustu Krists“? Í Rómverjabréfinu 16:8–10 og Kólossubréfinu 4:7 talar Páll um bræður sem eru „í þjónustu Krists“ og sem ,þjóna Drottni‘. Af þessum versum má sjá að þeir eru ,samstarfsmenn‘, bræður „sem Kristur hefur velþóknun á“, ,kærir bræður‘ og að þeir ,þjóna Drottni trúfastlega‘.
Hvenær verður einhver „samstarfsmaður sem þjónar Drottni“? Þegar hann býður sig fúslega fram til að gera það sem ætlast er til af þjóni Drottins með því að afneita sjálfum sér. Jesús sagði: „Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kvalastaur sinn og fylgi mér stöðugt.“ (Matteus 16:24) Þegar einstaklingur vígir sig Guði fylgir hann Jesú Kristi og beygir sig algerlega undir vilja Jehóva Guðs. Síðan býður hann sig fram til skírnar og getur þá eignast náið samband við Jehóva. * Að giftast þeim sem „þjónar Drottni“ þýðir því að giftast einhverjum sem hefur sýnt og sannað að hann tilheyri söfnuði Jehóva – að hann sé vígður „þjónn Guðs og Drottins Jesú Krists“. – Jakobsbréfið 1:1.
Sá sem er að kynna sér Biblíuna með aðstoð Votta Jehóva og tekur góðum andlegum framförum á hrós skilið. En hann hefur samt ekki enn vígt sig Jehóva og boðið sig fram til að þjóna honum og lifa fórnfúsu lífi. Hann er enn að gera nauðsynlegar breytingar í þá átt. Hann þarf að ljúka við að gera þessar stóru breytingarnar til að geta orðið vígður og skírður þjónn Guðs áður en hann stígur annað stórt skref eins og að gifta sig.
Væri skynsamlegt af þjóni Guðs að kynnast náið biblíunemanda sem virðist taka góðum framförum í námi sínu í Biblíunni – með það í huga að giftast honum eftir að hann er skírður? Nei. Biblíunemandi gæti stefnt að skírn af röngum hvötum ef hann veit að vígður og skírður vottur vill giftast honum eftir að hann hefur látið skírast.
Yfirleitt eru menn óskírðir boðberar í tiltölulega stuttan tíma áður en þeir eru tilbúnir að láta skírast. Ráðin hér að ofan um að giftast einhverjum „aðeins ef hann þjónar Drottni“ eru því ekki óraunhæf. En hvað um að kynnast náið einhverjum sem er búinn að vera óskírður boðberi í nokkur ár, er alinn upp í söfnuðinum og kominn á giftingaraldur? Spyrðu þig: Hvað hefur komið í veg fyrir að hann vígi líf sitt Jehóva? Hvað heldur aftur af honum? Er hann með efasemdir? Þó að hann sé ekki vantrúaður er ekki heldur hægt að segja að hann ,þjóni Drottni‘.
Ráð Páls um hjónabandið eru gagnleg fyrir okkur. (Jesaja 48:17) Þegar tilvonandi hjón eru bæði vígð Jehóva verður hjónaband þeirra byggt á traustum grunni. Þau hafa sömu lífsgildi og markmið en það á stóran þátt í að hjónabandið verði hamingjuríkt. Auk þess sýna þau Jehóva trúfesti með því að giftast aðeins þeim sem „þjónar Drottni“. Og Jehóva blessar það því að hann er „trúföstum trúfastur“. – Sálmur 18:26.
[Neðanmáls]
^ Páll skrifaði bréfið til andasmurðra kristinna manna á fyrstu öld. Að ,þjóna Drottni‘ þýddi auk þess fyrir þá að taka við kölluninni sem synir Guðs og bræður Krists.
[Mynd]
Jehóva er trúföstum trúfastur.