Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Það er ekkert talað um að skála í Biblíunni. Hvers vegna skála Vottar Jehóva þá ekki?
Það að skála í glas af víni (eða öðru áfengi) er gamall og algengur siður, en hann getur verið mismunandi eftir því hvar maður býr. Þeir sem skála klingja stundum glösum saman. Og sá sem lyftir glasi óskar oft þeim sem skálað er fyrir hamingju, góðrar heilsu eða löngu lífi. Og þeir sem taka undir sýna samþykki sitt með því að lyfta glösum og drekka. Mörgum finnst þetta vera saklaus siður eða bara almenn kurteisi. En það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að Vottar Jehóva skála ekki.
Að sjálfsögðu vilja þjónar Guðs að aðrir njóti hamingju og góðrar heilsu. Hið stjórnandi ráð á fyrstu öld lauk bréfi sínu til safnaðanna með orðunum „verið sælir“ sem gæti þýtt ,lifið sælir‘ eða ,lifið lengi‘. (Postulasagan 15:29) Og sumir þjónar Guðs sögðu við konunga: „Megi herra minn … lifa að eilífu,“ eða „lengi lifi konungurinn.“ – 1. Konungabók 1:31; Nehemíabók 2:3.
En hvaðan kemur sá siður að skála? Í Varðturninum 1. janúar 1968 á ensku er vitnað í alfræðiorðabókina The Encyclopædia Britannica (1910), 13. bindi, blaðsíðu 121. En þar segir: „Sá siður að drekka lifandi mönnum ,til heilla‘ má mjög líklega rekja til fornra helgiathafna þar sem skálað var fyrir guðum og hinum látnu. Grikkir og Rómverjar báru fram dreypifórnir fyrir guði sína og drukku fyrir þeim og hinum dauðu hvort sem þeir neyttu matar eða voru við hátíðarhöld.“ Alfræðiorðabókin heldur áfram og segir: „Að drekka lifandi mönnum til heilla tengdist þessum helgiathöfnum.“
Á þetta enn við í dag? Í bókinni International Handbook on Alcohol and Culture frá 1995 segir: „Að skála … tengdist sennilega fornum dreypifórnum þegar helgum vökva var fórnað guðunum – blóð eða vín var haft í skiptum fyrir ósk eða bæn sem dregin var saman í orðunum ,lifðu lengi‘ eða ,heill þér‘.“
Þjónn Guðs hafnar ekki endilega öllu, eins og til dæmis sumum hlutum, mynstri eða hefðum, sem á að einhverjum hluta rætur að rekja til fornra helgiathafna. Tökum granateplið sem dæmi. Í biblíualfræðibók segir: „Granateplið virðist líka hafa verið notað sem heilagt tákn í heiðnum trúarbrögðum.“ Þrátt fyrir það sagði Guð að það ætti að sauma granatepli á slóða kápu æðstaprestsins. Granatepli voru líka notuð til að skreyta koparsúlurnar í musteri Salómons. (2. Mósebók 28:33; 2. Konungabók 25:17) Og giftingarhringur hafði eitt sinn trúarlega þýðingu, en flestir nú á dögum vita það ekki. Þeir líta svo á að hann sé aðeins tákn þess að vera giftur.
Hvað um að nota vín við helgiathafnir? Eitt sinn fóru Síkembúar, sem tilbáðu guðinn Baal, „inn í hús guðs síns. Þeir átu og drukku og bölvuðu Abímelek“ syni Gídeons. (Dómarabókin 9:22–28) Heldurðu að trúfastur þjónn Jehóva hefði tekið þátt í þeirri athöfn og beðið um hjálp frá falsguði til að bölva Abímelek? Amos lýsir þeim tíma þegar Ísrael gerði uppreisn gegn Jehóva, en hann segir: „Þeir teygja úr sér hjá hverju altari á klæðum sem tekin hafa verið að veði og drekka sektarvín í húsi Guðs síns.“ (Amos 2:8, Biblían 2010) Hefði þjónn Jehóva tekið þátt í slíkri athöfn, hvort svo sem vínið hafi verið notað sem dreypifórn eða bara drukkið við það tækifæri? (Jeremía 7:18) Myndi þjónn Guðs lyfta glasi og biðja einhvern guð um að blessa viðkomandi eða að óska honum heilla í framtíðinni?
Það finnast dæmi um að sumir þjónar Jehóva hafi stundum lyft upp höndum til himins og beðið hann að hjálpa sér. Þeir lyftu upp höndum til hins sanna Guðs. Við lesum: „Salómon tók sér nú stöðu fyrir framan altari Jehóva … Hann lyfti höndum til himins og sagði: ,Jehóva Guð Ísraels, enginn guð er eins og þú … Hlustaðu á himnum þar sem þú býrð, já, viltu hlusta og fyrirgefa.‘“ (1. Konungabók 8:22, 23, 30) Á öðrum stað segir: „Esra lofaði þá Jehóva … og fólkið lyfti upp höndunum og sagði: ,Amen! Amen!‘ Það kraup síðan og féll á grúfu frammi fyrir Jehóva.“ (Nehemíabók 8:6; 1. Tímóteusarbréf 2:8) Það er augljóst að þessir trúföstu þjónar lyftu ekki upp höndum til himins til að biðja einhvern heillaguð um blessun. – Jesaja 65:11.
Margir nú á dögum sem hafa þann sið að skála eru kannski ekki að biðja einhvern guð um að svara sér eða blessa. En þeir gera sér ekki heldur grein fyrir því hvers vegna þeir lyfta glösum til himins. Þótt þeir hugsi ekki málið til hlítar þýðir það ekki að þjónar Guðs þurfi að líkja eftir þeim sið.
Það er vel þekkt að Vottar Jehóva forðast að fylgja ákveðnum hefðum sem flestir taka þátt í. Til dæmis heiðra margir þjóðartákn, svo sem fána, en þeir líta ekki á það sem tilbeiðslu. Þjónar Guðs standa ekki í vegi fyrir þessari hefð, en þeir taka ekki persónulega þátt í henni. Margir vottar hafa ákveðið að vera ekki til staðar við slík tækifæri og sýnt þannig tillitssemi til að forðast að móðga aðra. Þeir eru staðráðnir í að taka ekki þátt í þjóðernisathöfnum því að það er í andstöðu við það sem Biblían kennir. (2. Mósebók 20:4, 5; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Nú á dögum er kannski ekki litið á það að skála sem trúarlega athöfn. En það eru samt góðar og gildar ástæður fyrir því hvers vegna þjónar Guðs ákveða að skála ekki. Sá siður hefur trúarlegan uppruna og væri hægt að líta svo á að maður sé að biðja ,himnana‘ um blessun eða að leita hjálpar hjá ofurmannlegum öflum. – 2. Mósebók 23:2.