Biblían breytir lífi fólks
Biblían breytir lífi fólks
HVAÐ fékk fjárhættuspilara og innbrotsþjóf til að losa sig við fíknina og breyta um lífsstíl? Lestu frásögu hans.
„Veðhlaupahestar voru ástríða mín.“ – RICHARD STEWART
FÆÐINGARÁR: 1965
FÖÐURLAND: JAMAÍKA
FORSAGA: FJÁRHÆTTUSPILARI OG GLÆPAMAÐUR
FORTÍÐ MÍN: Ég ólst upp í þéttbýlu og fátæku hverfi í Kingston, höfuðborg Jamaíku. Atvinnuleysi var mikið og glæpir algengir. Fólk lifði í ótta við glæpagengi. Ég heyrði byssuskot nánast daglega.
Harðdugleg móðir mín gerði allt sem hún gat fyrir mig og yngri bróður minn og systur. Hún sá til þess að við fengjum góða menntun. Ég var áhugalítill um skólann en hafði ástríðu fyrir veðhlaupum. Ég stundaði að skrópa í skólanum til að fara á skeiðvöllinn. Ég fékk meira að segja að fara á hestbak.
Fljótlega var ég kominn á kaf í að veðja á hesta. Ég lifði siðlausu lífi og var með mörgum konum. Ég reykti maríjúana og fjármagnaði lífsstílinn með ránum. Ég átti margar byssur og er núna þakklátur að enginn skyldi vera drepinn í þeim ótalmörgu ránum sem ég tók þátt í.
Að lokum var ég tekinn af lögreglunni og settur í fangelsi vegna glæpa minna. Þegar ég losnaði úr fangelsinu hélt ég uppteknum hætti. Ég varð reyndar verri en áður. Þótt ég væri saklaus á svipinn var ég þver, skapstyggur og grimmur. Ég hugsaði ekki um neinn annan en sjálfan mig.
HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Á þessu erfiða tímabili í lífi mínu byrjaði móðir mín að rannsaka Biblíuna og gerðist vottur Jehóva. Ég sá jákvæðar breytingar á persónuleika hennar og varð forvitinn. Ég ákvað að komast að því hvað varð til þess að móðir mín gerði breytingar svo að ég fór að ræða Biblíuna við vottana.
Ég komst að því að það sem vottar Jehóva kenna er öðruvísi en kenningar annarra trúfélaga og að það sem þeir segja byggist á Biblíunni. Ég vissi ekki um neinn annan hóp sem boðaði trúna hús úr húsi rétt eins og hinir frumkristnu. (Matteus 28:19; Postulasagan 20:20) Ég sannfærðist um að ég hefði fundið hina sönnu trú þegar ég sá þann ósvikna kærleika sem þeir sýndu hver öðrum. – Jóhannes 13:35.
Af því sem ég lærði af Biblíunni sá ég að ég þurfti að gera miklar breytingar í lífi mínu. Ég skildi að Jehóva Guð hatar kynferðislegt siðleysi og að ég yrði að hætta að stunda það sem óhreinkar líkamann ef ég vildi hafa velþóknun hans. (2. Korintubréf 7:1; Hebreabréfið 13:4) Það snerti mig að fá að vita að Jehóva hefur tilfinningar og að ég get sært hann eða glatt með hegðun minni. (Orðskviðirnir 27:11) Ég ákvað því að hætta að reykja maríjúana, losa mig við byssurnar og leggja mig fram um að breyta persónuleika mínum. Að segja skilið við siðlaust líf og fjárhættuspil var með erfiðustu breytingunum sem ég gerði.
Til að byrja með vildi ég ekki að vinir mínir vissu að ég væri að skoða Biblíuna með vottum Jehóva. Það breyttist þegar ég las Matteus 10:33: „Þeim sem afneitar mér fyrir mönnum mun ég einnig afneita fyrir föður mínum á himnum.“ Þessi orð hvöttu mig til að segja félögum mínum að ég væri í biblíunámi hjá vottum Jehóva. Þeir fengu áfall. Þeir gátu ekki trúað því að maður eins og ég vildi gerast kristinn. En ég sagði þeim að ég vildi ekkert lengur með fyrrverandi lífstíl minn hafa.
HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS: Móðir mín var yfir sig glöð þegar hún sá mig fara að lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Nú hafði hún ekki lengur áhyggjur af því hverju ég tæki upp á. Við getum rætt um kærleikann sem við höfum bæði til Jehóva. Stundum þegar ég hugsa um hvernig ég var áður á ég erfitt með að skilja breytingarnar sem ég gat gert með hjálp Jehóva. Lífsstíll sem einkennist af siðleysi og efnishyggju togar ekki lengur í mig.
Ég væri dauður eða í fangelsi ef ég hefði ekki tekið við boðskap Biblíunnar. En nú á ég dásamlega og hamingjusama fjölskyldu. Ég finn mikla gleði í að þjóna Jehóva Guði ásamt konunni minni sem styður mig og dóttur sem stendur sig vel. Ég er þakklátur Jehóva fyrir að leyfa mér að vera hluti af kærleiksríku kristnu bræðrafélagi. Ég met líka mikils að einhver skyldi taka það að sér að fræða mig um sannindi Biblíunnar. Ég gleðst yfir tækifærum sem ég fæ til að hjálpa öðrum að kynnast Biblíunni. Og ég er Jehóva sérstaklega þakklátur fyrir þann trygga kærleika sem hann hefur sýnt mér með því að draga mig til sín.
[Innskot]
„Ég fékk að vita að Jehóva hefur tilfinningar og að ég get sært hann eða glatt með hegðun minni.“
[Innskot]
Með konunni minni og dóttur.
[Innskot]
Ég sá jákvæðar breytingar á persónuleika móður minnar.