Fyrri Konungabók 18:1–46

  • Elía hittir Óbadía og Akab (1–18)

  • Elía og spámenn Baals á Karmel (19–40)

    • Fólkið haltrar til beggja hliða (21)

  • Þriggja og hálfs árs þurrkur endar (41–46)

18  Nokkru síðar, á þriðja árinu,+ sagði Jehóva við Elía: „Farðu til Akabs. Ég ætla að láta rigna á jörðina.“+  Elía lagði þá af stað til Akabs, en hungursneyðin var mikil+ í Samaríu.  Um sama leyti boðaði Akab Óbadía hallarráðsmann á sinn fund. (Óbadía bar djúpa lotningu fyrir Jehóva.*  Þegar Jesebel+ ætlaði að útrýma spámönnum Jehóva faldi Óbadía 100 spámenn í tveim hellum, 50 í hvorum, og sá þeim fyrir brauði og vatni.)  Akab sagði við Óbadía: „Farðu um landið og kannaðu allar vatnslindir og alla dali. Ef til vill finnum við nóg gras til að halda hestunum og múldýrunum á lífi og koma í veg fyrir að öll dýrin drepist.“  Síðan skiptu þeir með sér landinu til yfirferðar. Akab fór einn síns liðs í aðra áttina en Óbadía einn í hina.  Þegar Óbadía var á leiðinni mætti Elía honum og Óbadía þekkti hann um leið. Hann féll á grúfu og sagði: „Ert þetta þú, Elía herra minn?“+  „Já, það er ég,“ svaraði hann. „Farðu og segðu herra þínum að ég sé kominn.“  En Óbadía svaraði: „Hvað hef ég gert rangt? Ef þú gefur mig í hendur Akabs drepur hann mig! 10  Svo sannarlega sem Jehóva Guð þinn lifir hefur herra minn látið leita að þér meðal allra þjóða og ríkja. Ef sagt var: ‚Hann er ekki hér,‘ lét hann ríkið eða þjóðina sverja að enginn hefði fundið þig.+ 11  Og nú segir þú mér að fara og láta herra minn vita að þú sért kominn! 12  Þegar ég fer frá þér mun andi Jehóva bera þig burt,+ og ég veit ekki hvert. Þegar ég læt síðan Akab vita og hann finnur þig ekki drepur hann mig. Ég, þjónn þinn, hef óttast Jehóva frá unga aldri. 13  Hefur enginn sagt þér, herra minn, hvað ég gerði þegar Jesebel drap spámenn Jehóva? Ég faldi 100 spámenn Jehóva í tveim hellum, 50 í hvorum, og sá þeim fyrir brauði og vatni.+ 14  En nú segirðu mér að fara og láta herra minn vita að þú sért kominn. Hann á eftir að drepa mig!“ 15  En Elía sagði: „Svo sannarlega sem Jehóva hersveitanna lifir, sá sem ég þjóna,* mun ég fara til Akabs í dag.“ 16  Óbadía fór til Akabs og lét hann vita. Akab hélt þá af stað til að hitta Elía. 17  Þegar Akab sá Elía sagði hann: „Þarna ertu, þú sem hefur leitt allar þessar hörmungar yfir Ísrael!“ 18  En hann svaraði: „Það er ekki ég sem hef leitt hörmungar yfir Ísrael heldur þú og ætt föður þíns. Þið hafið snúið baki við fyrirmælum Jehóva og fylgið Baölunum.+ 19  Kallaðu nú allan Ísrael til mín á Karmelfjall+ ásamt þeim 450 spámönnum Baals og þeim 400 spámönnum helgistólpans*+ sem matast við borð Jesebelar.“ 20  Akab sendi þá boð til allra Ísraelsmanna og stefndi spámönnunum til Karmelfjalls. 21  Elía gekk fram fyrir allt fólkið og sagði: „Hversu lengi ætlið þið að haltra til beggja hliða?*+ Ef Jehóva er hinn sanni Guð, fylgið honum.+ En ef Baal er það, fylgið þá honum.“ En fólkið svaraði honum ekki einu orði. 22  Þá sagði Elía við fólkið: „Ég er eini spámaður Jehóva sem er eftir+ en spámenn Baals eru 450. 23  Sækið handa okkur tvö ungnaut. Þeir skulu velja sér annað nautið, hluta það sundur og leggja það á viðinn. En þeir mega ekki leggja eld að því. Ég mun sjá um hitt nautið og leggja það á viðinn en ekki leggja eld að því. 24  Síðan skuluð þið ákalla nafn guðs ykkar+ og ég mun ákalla nafn Jehóva. Sá Guð sem svarar með eldi er hinn sanni Guð.“+ Allt fólkið svaraði: „Þetta er góð hugmynd.“ 25  Þá sagði Elía við spámenn Baals: „Þar sem þið eruð svo margir fáið þið að byrja. Veljið ykkur annað ungnautið og hafið það til reiðu. Ákallið síðan nafn guðs ykkar en kveikið ekki eld.“ 26  Þeir tóku þá við ungnautinu sem varð fyrir valinu og undirbjuggu það. Síðan ákölluðu þeir nafn Baals frá morgni til hádegis. „Baal, svaraðu okkur!“ hrópuðu þeir. En engin rödd heyrðist og enginn svaraði.+ Þeir dönsuðu haltrandi í kringum altarið sem þeir höfðu gert. 27  Um hádegi fór Elía að hæðast að þeim og sagði: „Hrópið hærra! Hann er nú einu sinni guð!+ Hann er kannski djúpt hugsi eða hefur þurft að ganga erinda sinna.* Eða kannski sefur hann og einhver þarf að vekja hann.“ 28  Þá hrópuðu þeir eins hátt og þeir gátu og skáru sig með rýtingum og spjótum, eins og siður þeirra var, þar til þeir voru útataðir í blóði. 29  Hádegið leið og þeir létu eins og óðir væru* allt fram á kvöld þegar færa átti kornfórnina. En engin rödd heyrðist og enginn svaraði. Þeir fengu engin viðbrögð.+ 30  Loks sagði Elía við allt fólkið: „Komið til mín.“ Og fólkið gerði það. Síðan endurreisti hann altari Jehóva sem hafði verið rifið niður.+ 31  Elía tók 12 steina, jafn marga og ættkvíslir sona Jakobs sem Jehóva hafði sagt við: „Þú skalt heita Ísrael.“+ 32  Úr steinunum reisti hann altari+ nafni Jehóva til heiðurs. Síðan gerði hann skurð í kringum altarið. Reiturinn var nógu stór til að taka tvær seur* sáðkorns. 33  Hann raðaði viðnum á altarið, hlutaði ungnautið sundur og lagði það á viðinn.+ Síðan sagði hann: „Fyllið fjórar stórar krukkur af vatni og hellið því yfir brennifórnina og viðinn.“ 34  Því næst sagði hann: „Gerið þetta aftur“. Og þeir gerðu það. Síðan sagði hann: „Gerið það í þriðja sinn.“ Og þeir gerðu það í þriðja sinn. 35  Vatnið flæddi allt í kringum altarið og hann fyllti einnig skurðinn af vatni. 36  Þegar kominn var tími til að færa kornfórnina um kvöldið+ gekk Elía spámaður fram og sagði: „Jehóva, Guð Abrahams,+ Ísaks+ og Ísraels, gerðu öllum ljóst í dag að þú ert Guð í Ísrael og að ég er þjónn þinn og geri allt þetta samkvæmt fyrirmælum þínum.+ 37  Svaraðu mér, Jehóva! Svaraðu mér svo að þessu fólki verði ljóst að þú, Jehóva, ert hinn sanni Guð og að þú vilt snúa hjörtum þess aftur til þín.“+ 38  Þá féll eldur Jehóva niður og gleypti brennifórnina,+ viðinn, steinana og moldina og sleikti upp vatnið í skurðinum.+ 39  Þegar fólkið sá þetta féll það á grúfu og sagði: „Jehóva er hinn sanni Guð! Jehóva er hinn sanni Guð!“ 40  Þá sagði Elía við fólkið: „Grípið spámenn Baals! Látið engan þeirra sleppa!“ Fólkið greip spámennina þegar í stað og Elía fór með þá niður að Kísoná+ þar sem hann drap þá.+ 41  Síðan sagði Elía við Akab: „Farðu upp eftir, borðaðu og drekktu, því að ég heyri dyn af hellirigningu.“+ 42  Akab fór þá upp eftir til að borða og drekka en Elía fór upp á tind Karmelfjalls og grúfði sig niður á jörðinni með andlitið milli hnjánna.+ 43  Síðan sagði hann við þjón sinn: „Farðu upp og horfðu í áttina að hafinu.“ Hann fór upp og litaðist um en sagði: „Það er ekkert að sjá.“ Elía sagði honum sjö sinnum að fara þangað aftur. 44  Í sjöunda skiptið sagði þjónninn: „Ég sé lítið ský á stærð við mannshönd stíga upp úr hafinu.“ Þá sagði Elía: „Farðu og segðu við Akab: ‚Spenntu fyrir vagninn og aktu niður eftir svo að regnið hindri ekki för þína.‘“ 45  Fyrr en varði hrönnuðust skýin upp og himinninn myrkvaðist, það tók að hvessa og hellirigna.+ Akab lagði af stað og ók til Jesreel.+ 46  En Jehóva styrkti Elía með hendi sinni. Hann batt upp kyrtilinn um mittið og hljóp á undan Akab alla leið til Jesreel.

Neðanmáls

Orðrétt „óttaðist Jehóva mjög“.
Orðrétt „stend frammi fyrir“.
Eða „á tveim hækjum“.
Eða hugsanl. „farinn í ferð“.
Eða „létu eins og spámenn“.
Sea jafngilti 7,33 l. Sjá viðauka B14.