Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Of mörg járn í eldinum

„Það getur gert okkur afkastaminni og í raun heimskari“ að hafa of mörg járn í eldinum, það er að segja að fást við fleira en eitt í einu, segir The Wall Street Journal. „Á heildina litið getur það tekið lengri tíma að reyna að gera tvennt eða þrennt í einu eða í flýti heldur en að beina athyglinni að einu verki í einu og það getur líka orðið til þess að við höfum minni orku til að einbeita okkur að hverju verki fyrir sig.“ Sum hættumerkjanna eru skammtímaminnisleysi (til dæmis að gleyma því sem maður var nýbúinn að segja eða gera), skert athygli, einbeitingarskortur, streitueinkenni (til dæmis að vera andstuttur) og samskiptaörðugleikar. Afköstin verða minni þegar við þurfum að nota sama hluta heilans til að framkvæma ákveðin verk, eins og þegar við tölum í símann og hlustum samtímis á barn kalla úr næsta herbergi. Það er sérstaklega hættulegt að gera margt í einu þegar við ökum bíl. Ef við neytum matar og drykkjar undir stýri, teygjum okkur í eitthvað, eigum í hörkusamræðum í farsíma eða við næsta farþega, snyrtum okkur eða stillum útvarpið eða önnur stjórntæki, getum við misst einbeitinguna eitt augnablik og það gæti endað með árekstri.

Hjartað og hjónabandið

„Rannsóknir sýna að ástand hjónabandsins getur hjálpað til við að segja fyrir um hvernig fólk á eftir að ná sér eftir hjartaaðgerð,“ segir Lundúnablaðið The Daily Telegraph. Dr. James Coyne við Pennsylvaníuháskóla í Bandaríkjunum segir að gott hjónaband geti gefið sjúklingnum ástæðu til að reyna að ná aftur heilsu en að „slæmt hjónaband geti verið sjúklingnum verra en ekkert“. Hann og starfsfélagar hans tóku upp á myndband rifrildi hjóna á heimilinu og komust að því að hjartasjúklingar, sem voru óánægðir með maka sinn, voru næstum tvöfalt líklegri til að deyja innan fjögurra ára en þeir sem áttu betri samskipti við maka sinn. Dr. Linda Waite, sem er prófessor í félagsfræði við Chicagoháskóla, segir að gott hjónaband megi setja í „nákvæmlega sama flokk og það að gæta að mataræðinu, þjálfa sig reglulega og reykja ekki“.

„Ævifjórðungsáhyggjur“

„Gullnu árin milli tvítugs og þrítugs“ ættu að vera „tilvalin fyrir ánægjulegt og áhyggjulaust líf,“ að sögn þýska dagblaðsins Gießener Allgemeine. „Gelgjuskeiðinu er lokið og það er enn langt í miðaldraáhyggjurnar.“ Sífellt fleira fólk á þrítugsaldri er hins vegar ekki ánægt og áhyggjulaust heldur þjakað af því sem sérfræðingar kalla „ævifjórðungsáhyggjur“. Hugtakið „táknar tilvistarkreppuna sem leggst á ungt fólk þegar það er að ljúka menntun sinni og þarf að ákveða hvað það ætlar að gera í lífinu,“ segir dagblaðið. Sálfræðingurinn Christiane Papastefanou í Mannheim í Þýskalandi greinir frá því að þjóðfélagsbreytingar á undanförnum árum hafa ýtt undir áhyggjur af framtíðinni. Þar sem hægt er að velja sér ýmiss konar atvinnu og lífsstíl nú á dögum óttast sumt ungt fólk að það muni taka ranga ákvörðun. Papastefanou, sem þýska dagblaðið vitnar í, er hins vegar þeirrar skoðunar að ákvarðanir þurfi ekki að vera endanlegar og það sé ekkert rangt við að taka „nokkra króka á lífsleiðinni“.

Söngur barna

„Það er þroskandi fyrir persónuleika barna að tjá tilfinningar sínar í söng,“ segir Michael Fuchs í þýska heilsutímaritinu Gesundheit en hann er sérfræðingur í háls-⁠, nef- og eyrnalækningum við háskólann í Leipzig. En hann segir að því miður hafi „raddsvið barna þrengst á síðustu 20 árum og raddblærinn hafi sömuleiðis breyst“. Hann nefnir tvær hugsanlegar ástæður. Í fyrsta lagi „syngja börn núna minna heima hjá sér. Hér á árum áður sungu fjölskyldur og spiluðu á hljóðfæri í frítíma sínum en núna sitja þær fyrir framan sjónvarpið og hlusta bara á tónlistina.“ Í öðru lagi eiga börn það til að herma eftir rámum röddum rokk- og poppsöngvara þegar þau syngja. Michael Fuchs segir að „börn reyni of mikið á raddböndin þegar þau hermi eftir þess konar stjörnum“. Þetta veldur spennu bæði í raddböndum og hálsvöðvum. Þessi aukna spenna getur orðið til þess að hnúðar myndist á raddböndunum og skaði röddina enn frekar.