Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vísindin voru trúarbrögð mín

Vísindin voru trúarbrögð mín

Vísindin voru trúarbrögð mín

Kenneth Tanaka segir frá

„Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Þessi orð standa á einu af innsiglum Tæknistofnunar Kaliforníu (Caltech) og þau hvöttu mig til að ná sem lengst í vísindalegri þekkingu. Ég hóf vísindaferilinn er ég innritaðist til náms þar árið 1974. Að loknu BS- og meistaraprófi í jarðfræði stundaði ég framhaldsnám við Kalíforníuháskóla í Santa Barbara.

Meðan á náminu stóð urðu djúpstæðar breytingar á trúarlegum viðhorfum mínum og gildismati. Þó að menntun mín í þróunarfræðum hafi kæft trúna á Guð neyddist ég síðar meir til að endurskoða afstöðu mína. Hvernig kom það til að jarðfræðingur gerðist dyggur guðsdýrkandi? Ég skal útskýra málið.

Ungur drengur heillaður af alheiminum

Áhugi minn á vísindum kviknaði á unga aldri. Á uppvaxtarárunum í Seattle í Washingtonríki í Bandaríkjunum lögðu foreldrar mínir fast að mér að ganga menntaveginn. Ég hafði yndi af því að lesa um alheiminn — um uppbyggingu efnis og lífs, undirstöðukraftana, tíma, rúm og afstæðiskenninguna. Þegar ég var um átta ára varð áhugi minn á vísindum öllum augljós og skólinn, sem ég sótti, sendi mig í einkatíma hjá raunvísindakennara.

Ég sótti sunnudagaskóla í babtistakirkju, en aðallega til að komast í gönguferðirnar og tjaldferðirnar. Aðrir í fjölskyldunni höfðu engan áhuga á Guði né trúarbrögðum. Þegar ég kynntist mannkynssögunni og grimmdarverkum trúarbragðanna knúði samviskan mig til að hætta kirkjulegu starfi. Ég fór líka að efast um tilvist Guðs þar sem vísindin virtust geta skýrt svo til allt.

Breytt afstaða — meira í vændum

Ég sótti um inngöngu í háskóla með það í hyggju að læra eðlisfræði. En á síðasta árinu í framhaldsskóla tók ég áfanga í jarðfræði og það fól meðal annars í sér að skoða athyglisverðar bergmyndanir í Washingtonríki. Ég hugsaði með mér: ,Það væri yndislegt að geta sameinað ást mína á óbyggðum og ást mína á vísindum.‘

Þegar í háskólann kom var ég fljótur að velja jarðfræði í stað eðlisfræði sem aðalnámsgrein. Í sumum bekkjunum fjallaði námsefnið um tímatal jarðsögunnar og hvernig steingervingaskráin varpar ljósi á hana. Mér var kennt að steingervingaskráin sýndi að tegundirnar hefðu þróast. Minn skilningur var hins vegar sá að enn ætti eftir að sanna þróunarkenninguna. En mér fannst að sem kenning væri hún skynsamleg skýring á þeim jarðfræðilegu gögnum sem til eru, einkum þegar hún er borin saman við algenga túlkun á sköpunarsögunni. Þegar ég frétti að fram ætti að fara kappræða milli sköpunarsinna og þróunarsinna ákvað ég að fara ekki. Það var augljóst að jörðin var ekki sköpuð á innan við viku, eins og sumir sköpunarsinnar halda fram.

Þrátt fyrir að ég væri afhuga trúarlegum hugmyndum fann ég mig knúinn til að endurskoða hugmyndir mínar um tilvist Guðs er ég rannsakaði jarðfræði Suðvestur-Bandaríkjanna. Þegar ég horfði á stjörnubjartan eyðimerkurhimininn á ferðum mínum þar gat ég ekki annað en dregið þá ályktun að Guð hefði skapað þennan mikilfenglega alheim. Stjörnufræðingar höfðu staðfest að alheimurinn ætti sér upphaf en ég gerði mér grein fyrir að vísindin ein sér gætu ekki skýrt hvers vegna það hefði átt sér stað. Mér virtist skynsamlegt að álykta að vitiborinn og máttugur skapari hefði hannað og skapað alheiminn.

Kortlegg Mars og spyr spurninga

Um það leyti sem ég lauk doktorsnámi í jarðvísindum árið 1983, þá 27 ára gamall, vann ég að því að kortleggja jarðfræði Mars fyrir Bandarísku jarðvísindastofnunina. Síðan þá hef ég gefið út fjölda greina og korta sem tengjast jarðfræði reikistjarna, bæði fyrir vísindamenn og hinn almenna lesanda. Ég aðstoðaði við geimferðir til Mars er ég sat í ráðgjafanefndum hjá Geimferðastofnun Bandaríkjanna. Í tengslum við rannsóknarstörf mín og atvinnu hef ég hitt virta reikistjörnufræðinga frá mörgum löndum, háskólum og rannsóknarstofnunum.

Menntun mín og rannsóknarvinna leiðrétti smám saman draumórakennt viðhorf mitt til vísinda. Ég komst að raun um að vísindin hafa ekki öll svörin og munu aldrei hafa. Ég gerði mér einkum grein fyrir því að vísindin gefa lífinu engan varanlegan tilgang. Meðal vísindamanna er almennt álitið að alheimurinn falli annaðhvort saman eða þenjist út í óreiðukenndan massa. Hvernig getur lífið haft tilgang ef endanlegt hlutskipti okkar er tilveruleysi?

Ég marka nýja stefnu

Í september árið 1981 hitti ég votta Jehóva þegar ég bjó í Flagstaff í Arizona. Ég þáði biblíunámskeið með það markmið að sanna að þeir og Biblían hefðu á röngu að standa. Og það gæfi mér líka tækifæri til að sjá loksins hvað Biblían hefði raunverulega að geyma.

Ég fór að rannsaka kenningar Biblíunnar gaumgæfilega nokkrar klukkustundir á viku. Mér til undrunar fann ég mikla þekkingu og djúpt innsæi á síðum hennar. Ég heillaðist af vísindalegri nákvæmni Biblíunnar og hundruðum ítarlegra spádóma sem eiga við atburði í mannkynssögunni. Ég hreifst sérstaklega af því hvernig hægt er að sjá með öruggri vissu að við lifum á „síðustu dögum“ með því að samþætta ýmsa biblíuspádóma, eins og í Daníelsbók og Opinberunarbókinni. — 2. Tímóteusarbréf 3:⁠1.

Ég var óafvitandi í góðum félagsskap þegar ég rannsakaði Biblíuna því að ég komst seinna meir að því að sir Isaac Newton, einn mesti vísindasnillingur sögunnar, dáði Biblíuna og rannsakaði hana af ákafa. Líkt og Newton einbeitti ég mér að spádómunum í Daníelsbók og Opinberunarbókinni sem sögðu fyrir sögulega atburði og framvindu. * Ég stóð hins vegar betur að vígi en Newton því að ég gat séð hvernig margir spádómar hafa ræst síðan hann var uppi og eru að rætast núna. Ég komst að því að þessir spádómar eru einstaklega fjölbreyttir og yfirgripsmiklir, auk þess að vera óskeikulir og ótvíræðir. Það var óvænt að uppgötva að Biblían, sem var skrifuð af meira en 40 mönnum á 1600 ára tímabili, skyldi hafa að geyma mótsagnalausan, heildstæðan og kraftmikinn boðskap um málefni mannkyns og framtíð þess.

En það gekk ekki átakalaust að sleppa þróunarkenningunni. Ég bar virðingu fyrir þeim vísindalegu heimildum sem lágu að baki kenningunni. Ég uppgötvaði hins vegar að allt sem Biblían segir um efnisheiminn er í fullkomnu samræmi við þekktar staðreyndir og er óhrekjanlegt.

Mér varð ljóst að til þess að fá fullan og heildstæðan skilning á hinu víðtæka og samtengda efni Biblíunnar getur maður ekki hafnað einni einustu kenningu, ekki heldur sköpunarsögunni í 1. Mósebók. Ég sá að eina vitlega niðurstaðan var að viðurkenna að öll Biblían væri sannleikur.

Stöðug leit að sannleika

Meðan á þessu stóð tók ég þátt í ýmsum vísindarannsóknum og sá hvernig margar kenningar fengu almenna viðurkenningu um tíma en voru síðar meir afsannaðar. Hluti af þeim vanda, sem vísindamenn eiga við að glíma, er að viðfangsefnið er flókið en gögn og rannsóknartæki takmörkuð. Mér hefur þar af leiðandi lærst að fara gætilega í að viðurkenna ósannaðar kenningar sem staðreynd, sama hversu vandlega þær eru smíðaðar.

Vísindin geta eðlilega ekki skýrt marga grundvallarþætti hins lifandi heims. Hvers vegna eru til dæmis grunneiningar lífsins og eðlislögmálin, sem þær stjórnast af, fullkomlega til þess fallin að viðhalda flóknum lífferlum og vistkerfum? Vísindin eru ekki fær um að opinbera Guð, en innblásið orð hans er hins vegar haldbær vitnisburður um tilvist hans og sköpunarstarf. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Með þessari biblíuþekkingu getum við kynnst honum sem stendur á bak við kraftinn, viskuna og fegurðina í efnisheiminum.

Ég sannfærðist enn frekar um vísindalega nákvæmni Biblíunnar með því að lesa rækilega ýmis rit Votta Jehóva, þar á meðal bækurnar Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? og Er til skapari sem er annt um okkur? Þessi rit fara ofan í saumana á djúpstæðum vísindalegum viðfangsefnum og veita innsýn í nýjustu rannsóknir og niðurstöður leiðandi sérfræðinga. Auk þess er fjallað þar um hvernig vísindalegar staðreyndir koma heim og saman við réttan skilning á Biblíunni.

Til dæmis er sýnt fram á að steingervingaskráin samræmist lýsingunni í 1. Mósebók á því í hvaða röð tegundirnar komu fram. Þar að auki litu menn til forna á sköpunardag sem langt tímabil, mikið til á sama hátt og vísindamenn nota orðin „öld“ og „tímabil“ til að lýsa jarðsögunni. Biblían er því ekki í mótsögn við uppgötvanir vísindanna. Hún gefur í skyn að sköpunardagarnir hafi verið óralangir og styður því ekki ályktun sumra sköpunarsinna sem trúa því að þessir dagar hafi hver um sig verið 24 klukkustundir að lengd.

Trú og trúgirni

Trúgirni fellur ekki að mínum smekk sem vísindamanni. Á hinn bóginn ber ég djúpa virðingu fyrir trú sem byggist á rökum. Slík trú er skilgreind í Hebreabréfinu 11:1: „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“ Traust á loforðum Guðs byggist á öruggum sönnunum fyrir því að Biblían sé innblásin af Guði. Ég sá að það var nauðsynlegt að sneiða hjá algengum en tilhæfulausum trúarkenningum sem stangast á við Ritninguna. Þar á meðal eru kenningarnar um ódauðleika sálarinnar, helvíti og þrenninguna ásamt fleirum. Margar þessara falskenninga spruttu af fornri heimspeki og goðafræði eða af slakri fræðimennsku. Fylgi við falskenningar hefur leitt til þess að flestir trúa í blindni með þeim afleiðingum að margir vísindamenn bera litla virðingu fyrir trúarbrögðum.

Meginábyrgð mín sem vísindamanns hefur verið að skýra rannsóknarniðurstöður mínar, verja þær og dreifa. Mér fannst ég líka verða að kenna öðrum sannleika Biblíunnar þar sem engin önnur þekking gat verið mikilvægari. Ég tók mér þetta starf á hendur og var skírður sem vottur Jehóva fyrir um 20 árum. Í september árið 2000 gat ég svo aukið þátttöku mína í boðunarstarfinu og starfað 70 klukkustundir að meðaltali á mánuði. Síðan þá hef ég getað haldið allt að tíu biblíunámskeið á mánuði og séð nokkra nemendur mína verða sjálfir kappsamir biblíukennarar.

Ég hef enn ánægju af því að rannsaka Mars og aðra himinhnetti með „augum“ háþróaðra geimfara sem send eru til að kanna nálægar reikistjörnur. Vísindin eiga margar ráðgátur óleystar. Ég hlakka til framtíðarinnar þegar leit mannsins að andlegri og vísindalegri þekkingu svalar forvitni okkar og svarar djúpstæðustu spurningum. Ég hef komist að raun um að nákvæm þekking á Guði og fyrirætlunum hans með mannkynið gefur lífinu sannan tilgang, enda er það raunveruleg merking orða Jesú sem skreyta eitt af innsiglum Caltech: „Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ — Jóhannes 8:⁠32.

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Í bók sinni Observations Upon the Prophecies of Daniel, and the Apocalypse of St. John, sem gefin var út árið 1733, fjallaði sir Isaac Newton um spádóma Daníelsbókar og Opinberunarbókarinnar.

[Rammi á blaðsíðu 19]

„Vísindin virtust geta skýrt svo til allt.“

[Rammi á blaðsíðu 20]

„Vísindin hafa ekki öll svörin og munu aldrei hafa.“

[Rammi á blaðsíððu 21]

,Ég fann mikla þekkingu og djúpt innsæi á síðum Biblíunnar.‘

[Mynd á blaðsíðu 18]

Kort af Mars.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Líkt og Newton var ég heillaður af Daníelsbók og Opinberunarbókinni.

[Credit line]

Háskólinn í Flórída

[Mynd á blaðsíðu 21]

Ég segi öðrum frá því sem ég hef lært í Biblíunni.

[Mynd credit line á blaðsíðu 18]

Efst til vinstri: Með góðfúslegu leyfi USGS Astrogeology Research Program, http://astrogeology.usgs.gov. Kort af Mars: National Geographic Society, MOLA Science Team, MSS, JPL, NASA. Yfirborð Mars: NASA/JPL/Caltech.

[Mynd credit line á blaðsíðu 21]

Mynd úr geimnum: J. Hester and P. Scowen (AZ State Univ.), NASA