Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Val þitt hefur áhrif á heilsuna

Val þitt hefur áhrif á heilsuna

Val þitt hefur áhrif á heilsuna

OFT er hægara sagt en gert að temja sér rétt mataræði og halda sér í góðri þjálfun. Vegna álags nútímans virðist þægilegra að borða unninn „skyndimat“ en að matreiða úr nýju hráefni, og auðveldara að verja frístundunum við sjónvarpið eða tölvuna en að reyna eitthvað á sig. En þetta val gæti verið ávísun á alvarlegt heilsuleysi fyrir æ fleiri börn og fullorðna.

Tímaritið Asiaweek segir að „fitandi mataræði og auknar kyrrsetur séu að valda sykursýkifaraldri“ í Asíu. Það vekur ugg að sjúkdómurinn skuli leggjast á stöðugt yngri þjóðfélagsþegna. Rannsóknir í Kanada hafa leitt í ljós að „aðeins sjöunda hvert barn undir 13 ára aldri borðar nægilega mikið af ávöxtum og grænmeti [og] tæpur helmingur nær aldrei að svitna í leik“, segir í grein í dagblaðinu The Globe and Mail. Svona lífsmáti veldur því að þessi ungmenni „eru á hraðri leið með að fá hjartasjúkdóma um þrítugt“, segir í greininni.

Sérfræðingar, sem stunda svefnrannsóknir, benda jafnframt á að fullorðnir þurfi að jafnaði um átta tíma svefn á hverri nóttu og að ungt fólk þurfi jafnvel lengri svefn. Rannsókn við Chicagoháskóla leiddi í ljós að ungir og hraustir karlar, sem fengu ekki nema fjögurra tíma svefn sex nætur í röð, fóru að sýna sjúkdómseinkenni sem venjulega tengjast öldrun. Enda þótt margir fórni dýrmætum svefntíma fyrir vinnu, skóla eða afþreyingu verður árangurinn oft annar en til er ætlast. James Maas stundar svefnrannsóknir við Cornellháskóla í New York. Hann segir: „Eitt er að teljast starfhæfur og annað að vera röskur og skapandi og dotta ekki undir stýri.“

Vitanlega hefur margt annað áhrif á líkamlega vellíðan okkar. Bjartsýni getur til dæmis haft góð áhrif á heilsuna. Og þeir sem hafa raunverulegan tilgang í lífinu velja frekar það sem hefur góð áhrif á heilsuna.