Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar barnið grætur stöðugt

Þegar barnið grætur stöðugt

Þegar barnið grætur stöðugt

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í KANADA

LÆKNIRINN staðfesti það sem móðurina hafði grunað. Barnið var með dæmigerðan magakrampa. Þessi kvilli hrjáir „allt að fjórðung barna“, að sögn kanadíska dagblaðsins Globe and Mail. Börn með þennan kvilla gráta að jafnaði nokkra tíma á dag í að minnsta kosti þrjá daga í viku. Hvað getur áhyggjufullt foreldri gert? Barnalæknar segja að í mörgum tilfellum sé eina ráðið fyrir foreldri og barn að þrauka. En hversu lengi?

Nýlega var gerð rannsókn í Kanada á mæðrum með magakveisubörn sem sýnir að við þriggja mánaða aldur dregur úr magakrampanum í 85 prósent tilfella. Rannsókninni var stjórnað af Tammy Clifford sem er læknir og forstjóri faraldursfræðideildar við barnaspítalann Children’s Hospital of Eastern Ontario Research Institute. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að það hefur ekki varanleg áhrif á andlega heilsu móðurinnar þó að hún eigi magakveisubarn. Clifford segir: „Eftir sex mánuði frá fæðingu eru mæður magakveisubarna nákvæmlega eins og mæður heilbrigðra barna. Eftir að kveisutímabilinu lýkur er eins og þær gleymi að það hafi nokkru sinni átt sér stað.“

Þessi nýja rannsókn sem Clifford og samstarfsmenn hennar birtu, hefur að sögn Globe „aukið vísindalega þekkingu á magakveisu því að hún sýnir að um er að ræða þrjár ólíkar gerðir af magakrampa. Ein gerðin lýsir sér þannig að einkennin koma fram og stöðvast innan þriggja mánaða aldurs. Önnur gerðin er linnulaus magakrampi í nokkra mánuði. Þriðja gerðin er sjaldgæf og lýsir sér með því að einkennin koma fram tiltölulega seint, eða nokkrum mánuðum eftir fæðingu.“ Önnur rannsókn er í gangi þar sem fylgst er með hvernig magakveisubörnum farnast í uppvextinum. Í þeirri rannsókn er það síðastnefndi hópurinn sem vekur sérstaka forvitni.

Í sumum tilfellum er stöðugur grátur talinn vera undanfari hristingsheilkennis (shaken baby syndrome). Að sögn dagblaðsins Globe, „er það ekki gráturinn sjálfur sem skaðar barnið, heldur getur það að hrista barn harkalega, jafnvel í stuttan tíma, orsakað varanlegan taugaskaða eða jafnvel dauða“.

Á hinn bóginn getur grátur barns haft jákvæð áhrif, jafnvel þótt stöðugur sé. Globe segir: „Rannsóknir hafa sýnt að smábörn, sem gráta mikið, fá í raun mun meiri athygli frá þeim sem annast þau, talað er meira við þau, brosað oftar til þeirra, haldið oftar á þeim og þau kjössuð meira.“