Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vinnustaður eða vígvöllur?

Vinnustaður eða vígvöllur?

Vinnustaður eða vígvöllur?

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í ÞÝSKALANDI

„Ég þoldi þetta ekki lengur. Ég hafði starfað hjá fyrirtækinu í meira en 30 ár og var orðinn yfirmaður. Þá kom nýi forstjórinn. Hann var ungur, kraftmikill og uppfullur af hugmyndum. Honum fannst ég vera til óþurftar og lagði mig í einelti. Eftir að hafa þolað móðganir, lygar og auðmýkingar mánuðum saman var ég búinn að vera. Þegar mér var boðinn starfslokasamningur féllst ég á að láta af störfum hjá fyrirtækinu.“ — Peter. *

PETER var fórnarlamb eineltis á vinnustað. Í Þýskalandi, þar sem hann á heima, verða um það bil 1,2 milljónir manna fyrir einelti á vinnustað. Í Hollandi er einn á móti fjórum lagður í einelti einhvern tíma á starfsævinni. Í skýrslu frá Alþjóðavinnumálastofnuninni kemur fram að einelti er vaxandi vandamál í Austurríki, Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð. En hvað er einelti?

„Taugastríð“

Í þýska fréttablaðinu Focus er talað um að einelti sé „tíð, endurtekin og kerfisbundin áreitni“. Það er meira en glens og glettur á vinnustað, svo sem hæðni, gagnrýni, stríðni og smáhrekkir. Einelti er skipulögð aðgerð til að brjóta einstakling niður andlega. Markmiðið er að útskúfa fórnarlambinu. *

Áreitnin getur verið allt frá barnalegri óvild til glæpsamlegs athæfis. Fórnarlambið er rægt og svívirt og má þola yfirgang og kuldalegt viðmót. Sumir þolendurnir eru af ásettu ráði látnir vinna of mikið eða eru stöðugt valdir úr til að sinna leiðinlegustu verkunum sem enginn annar vill taka að sér. Vinnufélagar koma kannski í veg fyrir að fórnarlambið geti unnið starf sitt á árangursríkan hátt, ef til vill með því að leyna upplýsingum. Í sumum tilfellum hafa sökudólgarnir stungið í hjólbarða á bíl fórnarlambsins eða brotist inn í tölvuna hans.

Stundum er það ein manneskja sem stundar eineltið en oftast er það hópur vinnufélaga sem er að verki. Það furðulegasta er að oft á áreitnin sér stað með vilja og vitund forstjórans. Í nokkrum evrópskum rannsóknum kom fram að yfirmaðurinn tók virkan þátt í um það bil helmingi tilfellanna og mjög oft reyndist hann vera eini gerandinn. Allt þetta breytir vinnunni í „langt og lýjandi taugastríð“ eins og það var kallað í þýska dagblaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung.

Áhrif utan vinnustaðarins

Áhrif eineltis ná oft langt út fyrir vinnustaðinn. Hjá mörgum þolendanna kemur þessi miskunnarlausa meðferð niður á heilsunni. Einelti veldur meðal annars þunglyndi, svefntruflunum og kvíðaköstum. Hvernig fór fyrir Peter sem minnst var á í upphafi greinarinnar? Sjálfsmat hans fór niður úr öllu valdi. Margaret, sem á einnig heima í Þýskalandi, þurfti samkvæmt læknisráði að leita meðferðar á geðdeild. Ástæðan var áreitni á vinnustað. Einelti getur líka haft alvarleg áhrif á hjónabandið og fjölskyldulífið.

Einelti er orðið svo algengt í Þýskalandi að sjúkratryggingafélag nokkurt hefur komið á hjálparlínu handa fórnarlömbum. Félagið komst að raun um að meira en helmingur þeirra sem hringdu voru frá vinnu í sex vikur, um það bil þriðjungur upp í þrjá mánuði og yfir 10 prósent í meira en þrjá mánuði. Í þýsku læknablaði er áætlað að „allt að 20 prósent allra sjálfsvíga séu vegna eineltis á vinnustað“.

Greinilegt er að einelti getur gert vinnuna að martröð. Er nokkur leið að koma í veg fyrir það? Hvernig er hægt að láta frið ríkja á vinnustaðnum?

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 6 Tölfræðilegar upplýsingar gefa til kynna að fleiri konur verði fyrir áreitni á vinnustað en karlar. Skýringin gæti þó legið í því að konur eru líklegri til að tala um vandamálið og leita hjálpar.

[Myndir á blaðsíðu 4]

Einelti breytir vinnunni í taugastríð.