Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Brúin sem var alltaf byggð aftur

Brúin sem var alltaf byggð aftur

Brúin sem var alltaf byggð aftur

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í BÚLGARÍU

Í BORGINNI Lovetsj í norðurhluta Búlgaríu er að finna yfirbyggða brú yfir ána Osăm. Þessi brú á sér mikla sögu, ekki síður en fólkið sem hún hefur þjónað.

Einn af þeim fyrstu sem vakti athygli á þessari brú var austurríski jarðfræðingurinn Ami Boué en hann heimsótti Lovetsj á fyrri hluta 19. aldar. Hann skrifaði um brú sem var „yfirbyggð og prýdd litlum verslunum“. Þessi einstaka brú var hluti af samgöngukerfi borgarinnar, hún tengdi borgarhlutana saman og á henni var auk þess markaður. Hún var eitt af kennileitum borgarinnar.

Upphaflega var brúin í Lovetsj byggð úr timbri en ekki steini. En með árunum skemmdist hún í flóðum og þarfnaðist oft mikilla viðgerða. Árið 1872 skolaðist hún síðan alveg í burtu og þar með misstu borgarbúar þessa mikilvægu samgönguæð.

En það var ekkert áhlaupaverk að endurbyggja brúna. Þess vegna var fenginn til verksins frægur búlgarskur byggingarmeistari, Kolyo Ficheto að nafni, sem átti að hanna og byggja nýja og sterkari brú.

Nýstárleg hönnun

Ficheto ákvað að halda sig við upprunalegu hugmyndina og hannaði yfirbyggða brú með litlum verslunum. Brúin var 84 metra löng og 10 metra breið og til að halda henni uppi hannaði hann sporöskjulaga brúarstólpa. Stólparnir voru fimm metra háir og sneru mjórri endarnir upp í strauminn. Hönnunin var nýstárleg því að frá miðjum stólpunum og upp að brúargólfinu voru op sem hleyptu flóðvatni í gegn. Ofan á brúarstólpana voru lagðir gegnheilir eikarbjálkar og plankar. Að öðru leyti var brúin smíðuð úr beyki, þar með taldar þær 64 verslanir sem voru til beggja hliða á brúnni. Þakið var einnig úr beyki og lagt járnplötum.

Annað sem er athyglisvert við hönnun Fichetos er að hann ákvað að festa saman undirstöðubitana í brúnni með trénöglum og -boltum í staðinn fyrir að nota járnfestingar og eldsmíðaða nagla. Brúargólfið var úr tré sem var lagt steinum en efsta lagið var úr möl. Litlir gluggar á hliðunum og þakgluggar hleyptu inn dagsbirtunni. Á kvöldin var kveikt á gasluktum. Hönnun og bygging nýju brúarinnar tók um þrjú ár [1].

Lífið á brúnni

Hvernig gekk lífið fyrir sig á brúnni? Tökum eftir hvernig sjónarvottur lýsti því: „Raddir kaupmanna, vegfarenda og áhorfenda blönduðust hávaðanum frá blikksmiðunum og einstaka sinnum fóru bílar, hestvagnar eða klyfjaðir asnar fram hjá . . . svo mátti heyra í sölumönnum sem reyndu að selja vörur sínar háum rómi. Brúin var heill heimur út af fyrir sig. Litlu verslanirnar voru litríkar, fullar af ullarvefnaði, perlum og ýmsum varningi og þær fylgdu sínum eigin takti og hefðum.“

En auk þess að versla á þessari yfirbyggðu brú kom fólk oft þangað til að sjá skemmtiatriði því að margir kaupmannanna voru líka tónlistarmenn. Sjónarvotturinn, sem vitnað var í áðan, sagði: „Á rakarastofunni voru fimm eða sex rakarar sem voru mjög færir tónlistarmenn auk þess að vera góðir rakarar. Þeir spiluðu aðallega á strengjahljóðfæri. Inn á milli gafst þeim tími til að spila og fastakúnnarnir voru meira en fúsir til að bíða þangað til þeir höfðu lokið við lagið.“ Eftir fyrri heimsstyrjöldina tóku nokkrir af þessum rökurum þátt í að stofna Rakarasveitina sem svo var nefnd.

Brúin brennur

Brú Fichetos stóð af sér flóð, stríð og aðrar hörmungar í um hálfa öld. En aðfaranótt 3. ágúst 1925 kviknaði í henni. Eldtungurnar lýstu upp næturhimininn í Lovetsj og brúin brann til kaldra kola. Hvað gerðist? Enn þann dag í dag er ekki vitað með vissu hvort um slys var að ræða eða íkveikju. En burtséð frá því stóðu borgarbúar enn á ný frammi fyrir því að þá vantaði brú til að tengja saman borgarhlutana.

Árið 1931 var lokið við að byggja nýja yfirbyggða brú með litlum verslunum og vinnustofum [2]. En í stað timburs og steina var notast við stál og steinsteypu. Öll hönnunin var mjög ólík hönnun Fichetos. Þakið var úr gleri og engir útveggir voru á miðri brúnni. Á árunum 1981-82 var brúin endurbyggð samkvæmt upprunalegri hönnun Kolyo Fichetos [3].

Yfirbyggða brúin í Lovetsj er tákn borgarinnar og er afbragðsdæmi um góða hönnun. Enn þann dag í dag hefur brúin með verslununum mikið aðdráttarafl og bæði borgarbúar og aðkomufólk eru tíðir gestir þar.

[Kort á blaðsíðu 16]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

BÚLGARÍA

SOFÍA

Lovetsj

[Mynd credit line á blaðsíðu 17]

Ljósmynd 2: Úr bókinni Lovech and the Area of Lovech.