Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þar sem ég heyrði nafnið Jehóva í fyrsta sinn

Þar sem ég heyrði nafnið Jehóva í fyrsta sinn

Þar sem ég heyrði nafnið Jehóva í fyrsta sinn

PAVOL KOVÁR segir frá

Meðan á sprengjuárásinni stóð komumst við með naumindum í byrgi. Þegar árásin magnaðist og byrgið tók að leika á reiðiskjálfi fór einn samfanginn að biðja hástöfum. „Ó, Jehóva, bjargaðu okkur! Viltu bjarga okkur vegna þíns heilaga nafns!“

ÞETTA átti sér stað 8. janúar 1945 en þá var ég stríðsfangi í borginni Linz í Austurríki. Við vorum um 250 í byrginu og lifðum allir af sprengingarnar. Þegar við komum út sáum við eyðileggingu allt í kringum okkur. Þessi innilega bæn, sem ég heyrði, festist mér í minni þó að ég hafi aldrei vitað hver fór með hana. Áður en ég segi frá því hvernig ég kynntist Jehóva um síðir ætla ég að segja ykkur í stuttu máli frá uppruna mínum.

Ég fæddist 28. september 1921 í húsi nálægt þorpinu Krajné í Vestur-Slóvakíu sem þá var hluti af Tékkóslóvakíu. Foreldrar mínir voru mótmælendur og iðkuðu trú sína af einlægni. Faðir minn las í heimilisbiblíunni á sunnudagsmorgnum og móðir mín og við bræðurnir fjórir hlustuðum á með athygli. En ég minnist þess ekki að faðir minn hafi nokkurn tíma notað nafnið Jehóva. Fólk lifði fábreyttu lífi á þessum slóðum en við vorum ánægð með það litla sem við höfðum.

Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út árið 1939 varð fólk óttaslegið. Mörgum voru í fersku minni þjáningarnar sem hlutust af fyrri heimsstyrjöldinni um tuttugu árum áður. Árið 1942 var ég kvaddur í slóvakíska herinn. Þótt Slóvakía tæki opinberlega afstöðu með Þýskalandi var gerð tilraun í ágúst 1944 til að endurreisa lýðræði. Þegar það tókst ekki var ég á meðal þúsunda slóvakískra hermanna sem handteknir voru og fluttir á yfirráðasvæði Þjóðverja. Ég hafnaði að lokum í Gusen, fangabúðum sem tengdust hinum illræmdu fangabúðum í Mauthausen nálægt borginni Linz.

Stríðsfangi

Við áttum að vinna í flugvélaverksmiðju ekki langt frá þorpinu Sankt Georgen an der Gusen. Þar vann ég í sögunarmyllu. Matur var af skornum skammti og í janúar 1945 var enn dregið úr matarskammtinum þar sem herir nasista biðu ósigur á öllum vígstöðvum. Eina heita máltíðin, sem við fengum, var smáskammtur af súpu. Á hverjum morgni komu verkamenn frá aðalbúðunum í Mauthausen. Verðirnir börðu oft til ólífis þá fanga sem voru of veikburða til að vinna. Seinna köstuðu meðfangarnir líkunum upp á vagn og fluttu í líkbrennsluna.

Þrátt fyrir eymdina vorum við vongóðir um að stríðinu lyki innan skamms. Fimmta maí 1945, fjórum mánuðum eftir sprengjuregnið sem áður er lýst, vaknaði ég upp við að allt var á tjá og tundri. Ég hljóp út á fangelsislóðina. Verðirnir voru farnir, byssunum hafði verið staflað upp og hliðin stóðu galopin. Við gátum séð fangabúðirnar hinum megin við engið. Frjálsir vistmennirnir hlupu þaðan eins og fætur toguðu. Í kjölfar frelsunarinnar frömdu fangarnir grimmileg hefndarverk. Blóðbaðið stendur mér enn skýrt fyrir hugskotssjónum.

Fangarnir hefndu sín með því að berja til ólífis kapóana, en það voru fangar sem unnu með fangavörðum nasista. Oft voru kapóarnir grimmari en nasistaverðirnir. Ég horfði upp á að fangi barði kapóa til dauða og hrópaði um leið: „Hann drap föður minn. Við höfðum haldið lífi saman en fyrir aðeins tveimur dögum drap hann föður minn!“ Um kvöldið var engið þakið líkum dauðra kapóa og annarra vistmanna — í hundraða tali. Áður en við yfirgáfum fangabúðirnar fórum við og skoðuðum aftökutólin — sérstaklega gasklefana — og líkbrennsluofnana.

Ég kynnist hinum sanna Guði

Ég kom heim í maílok 1945. Í fjarveru minni höfðu foreldrar mínir ekki aðeins lært nafn Guðs, nafnið sem ég hafði heyrt í byrginu, heldur voru þeir einnig orðnir vottar Jehóva. Stuttu eftir heimkomuna kynntist ég Oľgu, andlega sinnaðri stúlku, og ári síðar gengum við í hjónaband. Brennandi áhugi hennar á sannleika Biblíunnar varð til þess að ég hélt áfram að læra um Jehóva. Á einu af síðustu mótunum áður en nýja kommúnistastjórnin bannaði prédikunarstarfið árið 1949 skírðumst við Oľga ásamt 50 öðrum skírnþegum í ánni Váh í Piešťany. Þegar fram liðu stundir eignuðumst við tvær dætur, Oľgu og Vlasta.

Ján Sebín kom oft í heimsókn til okkar og var náinn samstarfsmaður minn í boðunarstarfinu. Hann hafði hjálpað við að endurskipuleggja boðunarstarfið eftir síðari heimsstyrjöldina. Þrátt fyrir vaxandi ofsóknir kommúnista héldum við áfram að prédika. Við töluðum við fólk um Biblíuna svo lítið bar á og fljótlega héldum við mörg biblíunámskeið. Þegar Ján fór af svæðinu tókum við hjónin við þessum námskeiðum. Seinna hittum við oft þessa gömlu biblíunemendur okkar á mótum, ásamt börnum þeirra og barnabörnum. Það gladdi okkur mikið.

Sérstök þjónusta

Árið 1953 höfðu margir vottar, sem höfðu leitt prédikunarstarfið, verið hnepptir í fangelsi. Ég var þá beðinn um að aðstoða við boðunarstarfið á svæði sem var um 150 kílómetra frá heimili okkar. Aðra hverja viku fór ég síðdegis á laugardögum eftir vinnu með lest frá borginni Nové Mesto nad Váhom til borgarinnar Martin í norðanverðri Mið-Slóvakíu. Þar fræddi ég fólk um Biblíuna fram eftir kvöldi og allan sunnudaginn. Að kvöldi sunnudags fór ég með lest til baka til Nové Mesto. Ég var venjulega kominn þangað um miðnætti og naut gestrisni eldri hjóna sem ég dvaldi hjá til morguns. Þaðan fór ég beint í vinnuna og að kvöldi mánudags sneri ég heim til fjölskyldunnar í þorpinu Krajné. Oľga sá um dæturnar helgarnar sem ég var í burtu.

Árið 1956 var mér boðið að þjóna sem farandumsjónarmaður. Starfið fólst í því að heimsækja söfnuði í nágrenninu og hjálpa þeim að styrkja samband sitt við Jehóva. Margir farandumsjónarmenn höfðu verið hnepptir í fangelsi og því fannst mér nauðsynlegt að þiggja starfið. Við hjónin vorum fullviss um að Jehóva myndi hjálpa okkur fjölskyldunni.

Samkvæmt lögum kommúnista áttu allir að vinna. Stjórnin leit á þá sem ekki voru í vinnu sem ónytjunga og varpaði þeim í fangelsi. Ég hélt því áfram að vinna. Tvær helgar í mánuði var ég heima með fjölskyldunni og tók þátt í trúarlífinu með henni og öðru starfi. En hinar tvær helgarnar heimsótti ég einn af sex söfnuðunum á farandsvæðinu.

Framleiðsla ritanna meðan starfið var bannað

Farandhirðar báru ábyrgð á að hver söfnuður á farandsvæðinu fengi biblíutengd rit. Í byrjun voru blöðin aðallega fjölfölduð með því að handskrifa þau eða vélrita. Seinna gátum við fengið Varðturninn á framkölluðum filmum og sent þær til safnaðanna. Blöðin voru síðan fjölfölduð á ljósmyndapappír. Þar sem það vakti grunsemdir að kaupa mikið magn af slíkum pappír varð sá sem annaðist innkaupin að sýna dirfsku og gætni.

Štefan Hučko hafði dálæti á þessu starfi og honum fórst það mjög vel úr hendi. Hér er dæmi um það: Einu sinni fór Štefan að kaupa ljósmyndapappír til borgar langt frá heimaborg sinni. Hann var á leiðinni út úr búðinni þar sem pappírinn var ekki til. En þá kom hann auga á vingjarnlegu afgreiðslustúlkuna sem hafði lofað að panta pappír fyrir hann. Í því sem Štefan ætlar að nálgast hana sér hann að lögreglumaður kemur inn í búðina. Á sömu stundu sér afgreiðslustúlkan Štefan og hrópar glaðlega: „Herra! Þú ert aldeilis heppinn. Við vorum að fá sendinguna af ljósmyndapappírnum sem þig vantaði.“

Štefan var fljótur að hugsa og svaraði: „Mér þykir það leitt en þú hlýtur að hafa tekið mig fyrir einhvern annan. Ég ætlaði nú bara að fá eina ljósmyndafilmu.“

Þegar Štefan kom að bílnum gat hann ekki fengið af sér að fara án dýrmæta ljósmyndapappírsins sem hann hafði ætlað að ná í. Hann fór því aftur litlu seinna og hafði þá farið úr frakkanum, tekið ofan húfuna og reynt að breyta útliti sínu. Hann kom inn í búðina og sneri sér beint að afgreiðslustúlkunni. „Ég kom hingað fyrir viku,“ útskýrði hann, „og þú lofaðir að panta fyrir mig ljósmyndapappír. Er hann kominn?“

„Já einmitt, hann er kominn.“ svaraði hún. „En veistu að fyrir aðeins nokkrum mínútum var maður hér inni sem leit út alveg eins og þú. Það er ótrúlegt — þið gætuð verið tvíburabræður!“ Štefan tók snarlega á móti pappírnum, fór út og þakkaði Jehóva fyrir hjálpina.

Á níunda áratugnum byrjuðum við að nota fjölritunarvélar og litlar prentvélar til að framleiða biblíutengd rit í kjöllurum og öðrum vandfundnum leynistöðum. Með tímanum urðu afrituðu eintökin af blöðunum næstum því eins mörg og jafnvel fleiri en vottarnir — og sama er að segja um bækur og bæklinga.

Óvelkomnar heimsóknir

Dag einn á sjöunda áratugnum var ég kallaður fyrir hermáladeild fyrirtækisins sem ég vann hjá. Þrír borgaralega klæddir menn lögðu fyrir mig spurningar: „Hve lengi hefurðu verið í sambandi við votta Jehóva? Og hverja hittirðu?“ Þar sem ég gaf ekki upp nein nöfn var mér tjáð að haft yrði samband við mig seinna. Þetta var í fyrsta skipti sem ég komst í kynni við leynilögregluna.

Stuttu síðar var ég tekinn úr vinnunni og færður á lögreglustöðina. Autt blað var sett fyrir framan mig og ég beðinn um að skrifa niður nöfn votta Jehóva. Þegar maðurinn kom til baka eftir klukkustund eða svo var blaðið enn þá autt og ég sagði að ég gæti ekki skrifað nein nöfn. Það sama endurtók sig vikuna á eftir. En þá var ég barinn og svo var sparkað í mig eftir endilöngum ganginum á leiðinni út.

Eftir þetta var ég látinn í friði í eitt ár. Þá sendi lögreglan mann í heimsókn til mín. Hann hafði verið samfangi minn í fangabúðum nasista. Hann sagði við mig: „Við verðum að breyta aðferðunum sem við notum á ykkur votta Jehóva. Við setjum einn vott í fangelsi en það koma fimm út!“ Stjórnvöld vildu að minnsta kosti hafa einhverja stjórn á starfi okkar. Ég var samt ákveðinn í að láta ekki nokkrar upplýsingar í té sem gerðu þeim það auðveldara.

Í mörg ár var ég meðal þeirra sem lentu öðru hverju í slíkum kynnum við leynilögregluna. Stundum komu þeir fram við okkur sem vinir en stundum sendu þeir einn okkar í fangelsi. Til allrar hamingju var mér aldrei varpað í fangelsi en þessir óvæntu fundir með lögreglunni héldu áfram allt til ársins 1989, þar til stjórn kommúnista hrundi í Tékkóslóvakíu.

Nokkrum vikum eftir hrunið kom háttsettur maður úr leynilögreglunni í Bratislava í heimsókn til mín. Hann sagði afsakandi: „Ef það hefði verið í mínu valdi hefðum við aldrei angrað ykkur.“ Síðan tók hann tvo poka af niðursoðnum ávöxtum úr bílnum og gaf mér.

Jehóva, sterkur turn

Þótt boðunarstarfið hafi verið bannað fyrstu 40 árin, sem ég var vottur Jehóva, hef ég notið hamingju í lífinu og hlotið mikla umbun. Það sem við upplifðum á þessum árum styrkti böndin á milli okkar trúsystkinanna. Við mátum vináttu okkar mikils og vorum háð því að geta treyst hvert öðru.

Í mars 2003 missti ég Oľgu, ástkæru eiginkonu mína. Hún var tryggur félagi allt okkar hjónaband. Við vorum upptekin í boðunarstarfinu öll þessi ár. Ég held áfram að starfa sem öldungur í söfnuðinum og leita þeirra sem hafa áhuga á að kynnast Biblíunni. Nafnið Jehóva, sem ég heyrði í fyrsta skipti í byrginu í síðari heimsstyrjöldinni, hefur reynst mér vera sterkur turn. * — Orðskviðirnir 18:10.

[Neðanmáls]

^ Bróðir Pavol Kovár lést 14. júlí 2007 þegar þessi grein var í vinnslu. Hann var 85 ára.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Þegar ég var í slóvakíska hernum árið 1942.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Seinna sat ég í fangelsi í Gusen (sést í bakgrunni).

[Credit line]

© ČTK

[Mynd á blaðsíðu 12]

Faðir minn las fyrir okkur upp úr Biblíunni á hverjum sunnudagsmorgni.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Brúðkaupsdagurinn okkar 1946.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Við Oľga, stuttu fyrir andlát hennar.