Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Síberíutígurinn í útrýmingarhættu

Síberíutígurinn í útrýmingarhættu

Síberíutígurinn í útrýmingarhættu

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í RÚSSLANDI

Það er heiðskír vetrardagur lengst austur í Rússlandi. Stórt kattardýr hendist eftir glitrandi snjóbreiðunni á flótta undan þyrlu. Skytta situr í dyrum þyrlunnar og miðar riffli á dýrið. Tígurinn klifrar upp í tré og öskrar. Maðurinn hleypir af skoti. Þyrlan lendir og farþegarnir nálgast dýrið gætilega þar sem það liggur.

ERU þetta veiðiþjófar? Nei, þetta eru rannsóknarmenn og þeir skjóta deyfipílum. Þeir eru komnir til að rannsaka dýr sem er í mikilli útrýmingarhættu, hinn sjaldséða Síberíutígur. *

Tíguleg skepna

Fyrrum heimkynni Síberíutígursins voru í Kóreu, Norður-Kína, Mongólíu og allt vestur að Bajkalvatni í Rússlandi. Á síðustu öld fækkaði tígrunum þó verulega. Síðasta vígi þeirra er afskekktur fjallgarður norður af borginni Vladívostok sem stendur við Japanshaf.

Tígrisdýr læra að þekkja hvert annað af lykt og þannig geta fress fundið tígrisynjur um fengitímann. Í hverju goti koma í heiminn tveir eða þrír hvolpar, blindir og ósjálfbjarga. Ólíkt venjulegum kettlingum læra þeir aldrei að mala heldur ýlfra lágt. Þeir nærast á mjólk móður sinnar í fimm eða sex mánuði og eftir það byrja þeir að éta kjöt. Í fyrstu fara þeir með móður sinni í veiðiferðir en 18 mánaða geta þeir sjálfir veitt sér til matar. Ung tígrisdýr fylgja móður sinni í allt að tvö ár en eftir það fara þau á flakk og helga sér svæði.

Í náttúrulegum heimkynnum sínum verða sum þessara tígrisdýra mjög stór. Fress geta vegið allt að 270 kíló og verið meira en þrír metrar á lengd að rófunni meðtalinni. Tígrarnir eru vel búnir til að þola snjó og kulda. Feldurinn er þykkur og loppurnar stórar og loðnar og eru eins og þrúgur í snjónum.

Síberíutígurinn er með dökkar rákir á gulbrúnum feldi. Rákamunstur hvers tígurs er einstakt og gerir það að verkum að hægt er að greina þá í sundur jafn örugglega og fingrafar hvers manns greinir hann frá öðrum. Rákir og litir tígursins gera hann nánast ósýnilegan ef hann er hreyfingarlaus í þéttum skógi. En ef tígur fer út á opið svæði að vetri til sker hann sig mjög greinilega úr í snjónum. Maðurinn, eini óvinur tígursins, hefur fært sér þetta í nyt.

Í útrýmingarhættu

Til að komast af þarf Síberíutígurinn að veiða sér til matar stór dýr, þar á meðal hirti, elgi og villisvín. Lítið er þó orðið um slíka bráð í óbyggðum Austur-Síberíu. Þúsund ferkílómetra skóglendi dugar rétt svo til að seðja fjögur eða fimm tígrisdýr. Til að lifa af í náttúrunni þurfa dýrin því að hafa nægilegt veiðisvæði.

Lengi vel var hið afskekkta skógarflæmi í Síberíu afar heppilegt búsvæði fyrir þessa stóru tígra. Maðurinn, eini raunverulegi óvinur þeirra, hætti sér sjaldan þangað. En á undanförnum árum hafa erlend skógarhöggsfyrirtæki fellt skóginn á stórum hluta þessa svæðis.

Með trjánum hverfa einnig hirtir, elgir og villisvín og þar með Síberíutígurinn. Til að sporna gegn þeirri þróun hafa rússnesk yfirvöld friðað stór svæði fyrir dýralíf eins og Síkhote-Alín-friðlandið. En þegar tígrisdýrin ráfa út fyrir þessi svæði eru þau berskjalda fyrir veiðiþjófum sem versla með óvenjulega minjagripi. Tennur, klær, bein og feldur tígrisdýranna, jafnvel hvolpa, seljast fyrir hátt verð.

Til bjargar tígrinum

Mikið er gert til að bjarga Síberíutígrinum og heimamenn hafa tekið forystuna í því. Árangurinn er sá að villti stofninn í Síberíu hefur náð sér að einhverju leyti. Árið 2005 var hann talinn vera á bilinu 430 til 540 dýr.

Síberíutígurinn unir sér nokkuð vel í dýragörðum og auðvelt er að rækta hann þar. Meira en 500 Síberíutígrar eru í dýragörðum út um allan heim. Af hverju er sumum þeirra ekki sleppt svo að hægt sé að fjölga tígrisdýrum í náttúrunni? Vísindamenn hika við að gera það. „Til hvers að sleppa dýri út í náttúruna nema hægt sé að tryggja framtíð þess,“ segir einn þeirra.

Allar lifandi verur, þar á meðal stóru kattardýrin, eru sönnun um visku og mátt Guðs og hann lætur sér annt um þau. (Sálmur 104:10, 11, 21, 22) Margir sem dást að verkum skaparans treysta að þegar fram líða stundir verði Síberíutígurinn ekki lengur í útrýmingarhættu.

[Neðanmáls]

^ Síberíutígurinn er stundum nefndur Amúrtígur því að hann er nú helst að finna við Amúrfljót austast í Rússlandi.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 20, 21]

STÆRSTA KATTARDÝRIÐ

Lígoninn (afkvæmi ljóns og tígrisynju) er stærri en Síberíutígurinn. Lígonar geta orðið meira en 3 metrar á lengd og vegið meira en 500 kíló. Lígonar eru ræktaðir í dýragörðum og þá er sjaldan eða aldrei að finna í náttúrunni.

[Mynd credit line á blaðsíðu 20]

Efri mynd: © photodisc/age fotostock; neðri mynd: Hobbs, með góðfúslegu leyfi Sierra Safari Zoo, Reno, NV