Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÚR SÖGUSAFNINU

Fyrstu fræjum Guðsríkis sáð í Portúgal

Fyrstu fræjum Guðsríkis sáð í Portúgal

ÖLDURNAR dundu á skipinu á leið þess til Evrópu yfir Atlantshafið. Einn farþeganna, George Young, hugsaði ánægður til þess sem hann hafði áorkað í starfi Guðsríkis í Brasilíu. * En er ferðinni miðaði áfram fór hann að hugsa um nýja verkefnið – Spán og Portúgal sem var næstum ósnert svæði. Hann vonaðist til að geta dreift 300.000 smáritum þar og undirbúið komu Josephs F. Rutherfords sem flytja átti biblíutengdan fyrirlestur.

George Young fór í margar boðunarferðir sjóleiðis.

Bróðir George Young kom til Lissabon vorið 1925 en þá var mikil ólga í landinu. Með lýðveldisbyltingunni árið 1910 leið konungsveldið undir lok og áhrif kaþólsku kirkjunnar dvínuðu. Íbúar landsins höfðu meira frelsi en þó ríkti enn ólga meðal almennings.

Á meðan George var að gera ráðstafanir til að bróðir Rutherford gæti flutt fyrirlesturinn setti ríkisstjórnin á herlög vegna valdaránstilraunar í landinu. Ritari Breska og erlenda biblíufélagsins varaði George við að hann myndi mæta mikilli andstöðu. En George sótti samt um leyfi til að nota íþróttasal í framhaldsskólanum Camões og leyfið var veitt.

Þrettándi maí rann upp – dagurinn sem bróðir Rutherford átti að flytja fyrirlesturinn. Það var spenna í loftinu. Opinberi fyrirlesturinn „Hvernig er hægt að fá eilíft líf á jörð?“ var auglýstur í dagblöðum og á plakötum sem hengd voru utan á byggingar. Trúarlegir andstæðingar flýttu sér að birta grein í dagblaði sínu þar sem þeir vöruðu lesendur við „falsspámönnunum“ sem voru nýlega komnir. Við innganginn í íþróttasalinn dreifðu andstæðingarnir þar að auki nokkrum þúsundum bæklinga sem beindust gegn þeim kenningum sem bróðir Rutherford kom á framfæri.

Um 2.000 manns fylltu samt sem áður salinn og álíka margir komust ekki að. Sumir áhugasamir áheyrendur héngu jafnvel í kaðalstigum meðfram veggjunum og aðrir sátu á æfingatækjunum.

Það gekk nú á ýmsu. Andstæðingar hrópuðu og brutu stóla. En bróðir Rutherford hélt ró sinni og steig upp á borð til að það heyrðist í honum. Þegar hann hafði lokið máli sínu – nálægt miðnætti – skildu fleiri en 1.200 áhugasamir eftir nafn sitt og heimilisfang til að fá biblíutengd rit. Daginn eftir birtist grein um fyrirlesturinn í dagblaðinu O Século.

Varðturninn á portúgölsku byrjaði að koma út í Portúgal í september 1925. (Áður hafði verið gefin út portúgölsk þýðing í Brasilíu.) Um það leyti fór Virgílio Ferguson, einn biblíunemendanna í Brasilíu, að búa sig undir að flytjast til Portúgals til að aðstoða við boðun Guðsríkis þar. Hann hafði áður unnið með bróður George á lítilli deildarskrifstofu Biblíunemendanna í Brasilíu. Áður en langt um leið lagði Virgílio upp í siglingu ásamt Lizzie, konu sinni, til að hitta George aftur. Virgílio kom þangað á réttum tíma því að stuttu síðar fluttist George burt til að sinna öðrum verkefnum í þjónustu Jehóva, þar á meðal í Sovétríkjunum.

Dvalarleyfi Lizzie og Virgílios Fergusons frá 1928.

Herinn tók völd og kom á einræði í Portúgal. Þá jókst andstaða gegn starfi okkar. En bróðir Virgílio hélt ótrauður áfram og gerði ráðstafanir til að vernda fámennan söfnuð Biblíunemendanna og efla starfsemi þeirra. Hann sótti um leyfi til að halda reglulegar samkomur á heimili sínu og leyfið var veitt í október 1927.

Á fyrsta ári einræðisstjórnarinnar voru um 450 áskrifendur að Varðturninum í Portúgal. Auk þess áttu bæklingar og smárit þátt í því að orð sannleikans breiddist út til ystu endimarka portúgalska stórveldisins – Angóla, Asoreyja, Grænhöfðaeyja, Austur-Tímor, Góa, Madeira og Mósambíks.

Manuel da Silva Jordão, auðmjúkur garðyrkjumaður frá Portúgal, kom til Lissabon seint á þriðja áratugnum. Hann bjó í Brasilíu þegar hann heyrði opinberan fyrirlestur bróður Georges. Manuel skynjaði fljótt að hann hafði fundið sannleikann og var ákafur í að aðstoða bróður Virgílio við að dreifa boðskapnum. Hann gerðist því farandbóksali, eins og brautryðjendur voru kallaðir í þá daga. Prentun og dreifing biblíutengdra rita var nú vel skipulögð og ungi söfnuðurinn í Lissabon dafnaði.

Árið 1934 þurftu Virgílio og Lizzie að snúa aftur til Brasilíu. En fræjum sannleikans hafði verið sáð. Söfnuðurinn í Portúgal hvikaði ekki frá trúfesti sinni við Jehóva mitt í umrótinu í Evrópu – spænsku borgarastyrjöldinni og síðari heimsstyrjöldinni. Um tíma var söfnuðurinn eins og lítil eldglóð en það má segja að árið 1947 hafi eldurinn verið glæddur að nýju þegar John Cooke kom til landsins, en hann var fyrsti trúboðinn þar sem hafði farið í Gíleaðskólann. Eftir það gat ekkert haldið aftur af vextinum og boðberum Guðsríkis fjölgaði ört. Þeim hélt meira að segja áfram að fjölga eftir að yfirvöld lögðu bann við starfsemi Votta Jehóva árið 1962. Og boðberar í landinu voru orðnir fleiri en 13.000 þegar Vottar Jehóva hlutu lagalega viðurkenningu í desember 1974.

Nú boða meira en 50.000 boðberar fagnaðarerindið í Portúgal og á eyjum þar sem töluð er portúgalska, þar á meðal Asoreyjum og Madeira. Meðal boðbera landsins eru sumir af þriðja ættlið þeirra sem sóttu sögulegan fyrirlestur bróður Rutherfords árið 1925.

Við þökkum Jehóva og þessum trúföstu bræðrum og systrum sem tóku hugrökk forystuna í að „gegna heilagri þjónustu við Krist Jesú“ og sá fyrstu fræjum Guðsríkis. – Rómv. 15:15, 16. – Úr sögusafninu í Portúgal.

^ gr. 3 Sjá greinina „Mikil uppskeruvinna er eftir“ í Varðturninum 15. maí 2014, bls. 31-32.