Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þér munuð verða vottar mínir“

„Þér munuð verða vottar mínir“

„[Jesús] svaraði: ... ,þér munuð verða vottar mínir ... allt til endimarka jarðarinnar‘.“ – POST. 1:7, 8.

12. (a) Hver er mesti vottur Jehóva? (b) Hvað merkir nafnið Jesús og hvernig stóð sonur Guðs undir nafni?

 „TIL þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni.“ (Lestu Jóhannes 18:33-37.) Jesús sagði þetta þegar rómverski landstjórinn Pontíus Pílatus réttaði yfir honum. Jesús var nýbúinn að segja að hann væri konungur. Mörgum árum síðar minntist Páll postuli á hugrekki Jesú sem „gerði góðu játninguna frammi fyrir Pontíusi Pílatusi“. (1. Tím. 6:13) Stundum þarf mikið hugrekki til að vera ,trúr og sannur vottur‘ í heimi Satans þar sem hatrið ræður ríkjum. – Opinb. 3:14.

2 Jesús var Gyðingur og var því fæddur sem vottur Jehóva. (Jes. 43:10) Hann reyndist vera mesti votturinn sem Guð hefur vakið upp. Jesús lifði í samræmi við merkingu nafnsins sem Guð hafði gefið honum. Þegar engill sagði Jósef, fósturföður Jesú, að barnið, sem María bar undir belti, væri getið af heilögum anda bætti hann við: „Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans.“ (Matt. 1:20, 21) Biblíufræðingar eru almennt á þeirri skoðun að nafnið Jesús sé dregið af hebreska nafninu Jeshúa og feli í sér stytta útgáfu af nafni Guðs. Það merkir „Jehóva er hjálpræði“. Í samræmi við merkingu nafnsins hjálpaði Jesús ,týndum sauðum af Ísraelsætt‘ að iðrast synda sinna og endurheimta velþóknun Jehóva. (Matt. 10:6; 15:24; Lúk. 19:10) Jesús vitnaði af kappi um ríki Guðs. Guðspjallaritarinn Markús segir svo frá: „Jesús [kom] til Galíleu, prédikaði fagnaðarerindi Guðs og sagði: ,Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Takið sinnaskiptum og trúið fagnaðarerindinu.‘“ (Mark. 1:14, 15) Hugrakkur fordæmdi Jesús trúarleiðtoga Gyðinga og það átti sinn þátt í því að þeir fengu hann líflátinn á aftökustaur. – Mark. 11:17, 18; 15:1-15.

„STÓRMERKI GUÐS“

3. Hvað gerðist á þriðja degi eftir að Jesús dó?

3 En þau undur og stórmerki gerðust að Jehóva reisti Jesú upp frá dauðum á þriðja degi, ekki þó sem mann heldur sem ódauðlega andaveru. (1. Pét. 3:18) Því til sönnunar birtist Drottinn Jesús í mannsmynd og sýndi þar með fram á að hann væri lifandi. Daginn sem hann reis upp birtist hann ýmsum lærisveinum sínum að minnsta kosti fimm sinnum. – Matt. 28:8-10; Lúk. 24:13-16, 30-36; Jóh. 20:11-18.

4. Hvað gerði Jesús í fimmta skiptið sem hann birtist lærisveinunum og hvað sýndi hann þeim fram á?

4 Þegar Jesús birtist í fimmta skiptið þennan dag voru postularnir og fleiri viðstaddir. Hann notaði þetta eftirminnilega tækifæri til að kenna þeim og „lauk ... upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar“. Hann benti þeim á að því hefði verið spáð í orði Guðs að hann ætti að deyja fyrir hendi óvina Guðs og síðan rísa upp frá dauðum. Að síðustu sýndi hann þeim fram á hvaða ábyrgð hvíldi á þeim. Hann sagði þeim að þeir ættu að „prédika ... í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem“. Síðan bætti hann við: „Þið eruð vottar þessa.“ – Lúk. 24:44-48.

5, 6. (a) Hvers vegna sagði Jesús: „Þér munuð verða vottar mínir“? (b) Hvaða nýja þátt í fyrirætlun Jehóva þurftu lærisveinar Jesú að boða núna?

5 Postular hans hljóta því að hafa skilið hvað hann átti við þegar hann birtist þeim í síðasta sinn fjörutíu dögum síðar. Það sem hann sagði þeim var einfalt en kröftugt: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Post. 1:8) Hvers vegna sagði Jesús: „Þér munuð verða vottar mínir,“ en ekki Jehóva? Hann hefði getað sagt hið síðarnefnda. Þeir sem hann ávarpaði voru hins vegar Ísraelsmenn og voru þá þegar vottar Jehóva.

Við höldum áfram að segja fólki frá fyrirætlun Jehóva, rétt eins og lærisveinar Jesú á fyrstu öld. (Sjá 5. og 6. grein.)

6 Nú þurftu lærisveinar Jesú að segja fólki frá nýjum þætti í fyrirætlun Jehóva – og sá þáttur var stórbrotnari en frelsun Ísraels úr þrælkun í Egyptalandi eða úr útlegð í Babýlon. Dauði og upprisa Jesú Krists lagði grunninn að frelsi úr verstu ánauð sem hægt var að hugsa sér, það er að segja ánauð syndar og dauða. Lærisveinar Jesú voru andasmurðir á hvítasunnu árið 33 og tóku að kunngera fólki „stórmerki Guðs“. Margir sem heyrðu þennan boðskap tóku við honum. Af himnum ofan sá Jesús hvernig nafn hans öðlaðist dýpri merkingu þegar þúsundir manna iðruðust, tóku trú á hann og játuðu að Jehóva veitti hjálpræði fyrir atbeina hans. – Post. 2:5, 11, 37-41.

„TIL LAUSNARGJALDS FYRIR ALLA“

7. Hvað sönnuðu atburðir hvítasunnudags árið 33?

7 Atburðir hvítasunnudags árið 33 sönnuðu að Jehóva hafði tekið við fullkominni fórn Jesú og viðurkennt að hún friðþægði fyrir syndir manna. (Hebr. 9:11, 12, 24) Eins og Jesús sagði kom hann „ekki ... til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. (Matt. 20:28) Það voru ekki aðeins iðrandi Gyðingar sem áttu að njóta góðs af lausnarfórn Jesú heldur er það vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir“ því að lausnargjaldið tekur burt „synd heimsins“. – 1. Tím. 2:4-6; Jóh. 1:29.

8. Í hvaða mæli vitnuðu lærisveinar Jesú og hvernig gátu þeir það?

8 Höfðu þessir lærisveinar Jesú á fyrstu öld hugrekki til að vitna um hann? Já, en þeir gerðu það ekki í eigin krafti. Máttugur andi Jehóva gaf þeim bæði hvöt og kraft til að halda áfram að vitna. (Lestu Postulasöguna 5:30-32.) Um 27 árum eftir atburði hvítasunnudags var hægt að segja með sanni að ,orð sannleikans, fagnaðarerindið,‘ hefði verið „boðað ... öllu sem skapað er í heiminum“. – Kól. 1:5, 23.

9. Hvað varð um hinn hreina kristna söfnuð sem var á fyrstu öld?

9 Því miður spilltist hinn upprunalegi kristni söfnuður smám saman. (Post. 20:29, 30; 2. Pét. 2:2, 3; Júd. 3, 4) Eins og fram kom í máli Jesú átti þetta fráhvarf að magnast til muna fyrir áhrif Satans, „hins vonda“, og skyggja á sanna kristni fram að „endi veraldar“. (Matt. 13:37-43) Þá myndi Jehóva krýna Jesú konung yfir mannheimi. Það gerðist í október árið 1914 og þá hófust ,síðustu dagar‘ í heimi Satans. – 2. Tím. 3:1.

10. (a) Á hvað bentu andasmurðir kristnir menn í meira en 30 ár? (b) Hvað gerðist í október 1914 og hvernig vitum við það?

10 Í meira en 30 ár bentu andasmurðir kristnir menn á að í október árið 1914 myndu verða straumhvörf í sögunni. Þeir byggðu það á spádómi Daníels um stórt og mikið tré sem var höggvið en átti að vaxa upp aftur eftir að „sjö tíðir“ væru liðnar. (Dan. 4:16) Í spádómi um nærveru sína og síðustu daga þessa heims kallaði Jesús þetta sama tímabil ,tíma heiðingjanna‘. Hann lýsti ákveðnu tákni sem myndi sýna að hann væri orðinn nýr konungur jarðar, og þetta tákn hefur blasað við allt frá 1914. (Matt. 24:3, 7, 14; Lúk. 21:24) „Stórmerki Guðs“, sem við boðum núna, eru meðal annars þau að hann hafi krýnt Jesú konung yfir jörðinni árið 1914.

11, 12. (a) Hvað gerði nýr konungur jarðar árið 1919? (b) Hvað var ljóst árið 1935? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

11 Skömmu eftir að Jesús Kristur tók völd sem konungur jaðrar tók hann að frelsa andasmurða fylgjendur sína úr ánauð ,Babýlonar hinnar miklu‘. (Opinb. 18:2, 4) Árið 1919, skömmu eftir lok fyrri heimsstyrjaldar, gafst hinum andasmurðu tækifæri til að byrja að boða hjálpræði Guðs og fagnaðarerindið um hið stofnsetta ríki um heim allan. Hinir andasmurðu biðu ekki boðanna og það varð til þess að þúsundir til viðbótar tóku trú og voru smurðir til að ríkja með Kristi á himnum.

12 Árið 1935 var ljóst orðið að Kristur var byrjaður að safna saman ,öðrum sauðum‘. Þeir teljast nú í milljónum og mynda ,mikinn múg‘ af öllum þjóðum. Undir forystu hinna andasmurðu líkja þeir eftir hugrekki Jesú og boða almenningi að þeir eigi hjálpræði sitt Guði og Kristi að þakka. Þeir vita að ef þeir halda þolgóðir áfram að boða fagnaðarerindið og trúa á lausnarfórn Jesú komast þeir lifandi gegnum þrenginguna miklu sem bindur enda á heim Satans. – Jóh. 10:16; Opinb. 7:9, 10, 14.

,DJÖRFUNG TIL AÐ FLYTJA FAGNAÐARERINDIБ

13. Hvað erum við staðráðin í að gera og hvers vegna getum við treyst að okkur takist það?

13 Það er mikill heiður að mega vera vottur þeirra ,stórmerkja‘ sem Jehóva Guð hefur látið verða og lofar að verði í framtíðinni. Að vísu er það ekki alltaf auðvelt. Mörg trúsystkini okkar starfa á svæðum þar sem fólk er almennt áhugalaust, gerir gys að þjónum Guðs eða hreinlega ofsækir þá. Við getum þá líkt eftir Páli postula og starfsfélögum hans. Hann sagði: „Guð minn gaf mér djörfung til að tala til ykkar fagnaðarerindi Guðs þótt baráttan væri mikil.“ (1. Þess. 2:2) Við skulum aldrei gefast upp heldur vera ákveðin í að lifa eftir vígsluheiti okkar meðan heimur Satans eyðist. (Jes. 6:11) Við getum ekki gert það í eigin krafti. Líkjum eftir frumkristnum mönnum og biðjum Jehóva að gefa okkur anda sinn og ,kraftinn mikla‘ sem fylgir honum. – Lestu 2. Korintubréf 4:1, 7; Lúk. 11:13.

14, 15. (a) Hvernig var litið á kristna menn á fyrstu öld og hvað sagði Pétur postuli um þá? (b) Hvað ættum við að minna okkur á ef við verðum fyrir andstöðu vegna þess að við erum vottar Jehóva?

14 Milljónir manna kalla sig kristnar en „afneita [Guði] með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.“ (Tít. 1:16) Það er gott að hafa í huga að kristnir menn á fyrstu öld voru hataðir af mörgum eða jafnvel flestum samtíðarmönnum sínum. Þess vegna skrifaði Pétur postuli: „Sæl eruð þið þegar menn smána ykkur vegna nafns Krists ... andi Guðs ... hvílir þá yfir ykkur.“ – 1. Pét. 4:14.

15 Er hægt að heimfæra þessi innblásnu orð á votta Jehóva nú á tímum? Já, því að við vitnum bæði um konungdóm Jehóva og boðum að Jesús sé konungur ríkis hans. Jesús var líka ofsóttur fyrir að vitna um Jehóva. Hann sagði andstæðingum sínum: „Ég er kominn í nafni föður míns og þér takið ekki við mér.“ (Jóh. 5:43) Hertu því upp hugann næst þegar þú verður fyrir andstöðu í boðunarstarfinu. Hún er sönnun þess að Guð hafi velþóknun á þér og að ,andi hans hvíli yfir þér‘.

16, 17. (a) Hver er reynsla votta Jehóva víða um heim? (b) Hvað ætlar þú að gera?

16 En hafðu líka hugfast að víða um heim er góð aukning. Jafnvel á svæðum, þar sem mikið er starfað, finnum við enn fólk sem hlustar og vill heyra boðskap Guðs um hjálpræði. Verum dugleg að heimsækja aftur þá sem sýna áhuga, kenna þeim ef þeir þiggja biblíunámskeið og hjálpa þeim að vígjast Jehóva og skírast. Þér er líklega innanbrjósts eins og Sarie í Suður-Afríku en hún hefur boðað fagnaðarerindið í meira en 60 ár. Hún segir: „Ég er innilega þakklát fyrir að geta átt gott samband við Jehóva, Drottin alheims, vegna lausnarfórnar Jesú, og ég hef mikla ánægju af því að segja fólki frá dýrlegu nafni hans.“ Hún og Martinus, eiginmaður hennar, hafa hjálpað mörgum að verða þjónar Jehóva. Börnin þeirra þrjú eru í þeim hópi. „Ekkert annað starf er jafn ánægjulegt,“ bætir Sarie við, „og með heilögum anda sínum gefur Jehóva okkur öllum kraftinn sem við þurfum til að halda áfram þessu björgunarstarfi.“

17 Hvort sem við erum skírðir vottar eða stefnum að því marki höfum við fulla ástæðu til að vera þakklát fyrir að mega tilheyra alþjóðlegum söfnuði votta Jehóva. Haltu áfram að vitna af kappi og leggðu þig fram við að halda þér hreinum í illum heimi Satans. Þá heiðrar þú föðurinn á himnum sem leyfir okkur að bera dýrlegt nafn sitt.