Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Náttúruhamfarir – bera þær vott um að Guð sé grimmur?

Náttúruhamfarir – bera þær vott um að Guð sé grimmur?

SUMIR SEGJA: „Þar sem Guð stjórnar öllu eru náttúruhamfarir honum að kenna. Hann hlýtur því að vera grimmur.“

BIBLÍAN SEGIR: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Hver er ,hinn vondi‘? Biblían segir að það sé Satan. (Matteus 13:19; Markús 4:15) Finnst þér það óhugsandi? Hugsaðu um eftirfarandi: Satan er sjálfselskur, gráðugur og skammsýnn. Ef hann fer með öll völd í heiminum ýtir hann þá ekki undir sams konar hugarfar hjá fólki? Og myndi það ekki útskýra hvers vegna mennirnir fara svona illa með jörðina? Sérfræðingar vara við því að óstjórn manna geti komið af stað náttúruhamförum, gert afleiðingar þeirra enn verri eða gert fólk berskjaldaðra fyrir þeim.

Af hverju leyfir Guð þá Satan að sitja við stjórnvölinn? Til að finna svarið við því þurfum við að leita allt aftur til upphafs mannkynssögunnar, þegar Adam og Eva gerðu uppreisn gegn yfirráðum Guðs. Meirihluti mannkyns hefur fetað í fótspor þeirra allar götur síðan og þar með hafnað stjórn Guðs og skipað sér í lið með óvini hans, Satan. Þess vegna sagði Jesús að Satan væri „höfðingi heimsins“. (Jóhannes 14:30) Á Satan eftir að stjórna að eilífu? Nei.

Jehóva * stendur ekki á sama um þær þjáningar sem Satan veldur. Þjáningar manna hafa í raun mikil áhrif á hann. „Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða.“ (Jesaja 63:9, Biblían 1981) Þessi orð lýsa vel umhyggju Guðs þegar Ísraelsþjóðin gekk í gegnum erfiða tíma. Guð ætlar af miskunnsemi sinni að binda enda á grimmilega stjórn Satans – og það innan skamms. Hann hefur skipað son sinn, Jesú Krist, til að ríkja sem réttlátur konungur að eilífu.

HVERNIG ÞAÐ SNERTIR ÞIG: Þótt Satan hafi mistekist að vernda fólk frá náttúruhamförum þá mun stjórn Jesú takast það. Eitt sinn verndaði Jesús lærisveina sína þegar óveður skall á. Í frásögu Biblíunnar segir: „Hann ... hastaði á vindinn og sagði við vatnið: ,Þegi þú, haf hljótt um þig!‘ Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.“ En lærisveinarnir sögðu hver við annan: „Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum.“ (Markús 4:37-41) Af þessum atburði er greinilegt að Jesús mun vernda hlýðið mannkyn í Guðsríki. – Daníel 7:13, 14.

^ gr. 5 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.