Hoppa beint í efnið

BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?

Móðurmjólkin

Móðurmjólkin

 „Ungbarnablanda er aldrei alveg eins og móðurmjólkin,“ segir í uppsláttarriti fyrir ljósmæður. Ein ástæða þess að móðurmjólkin er fullkomin fyrir barnið er sú að líkami móðurinnar breytir mjólkinni eftir þörfum barnsins.

 Hugleiddu þetta: Móðurmjólkin breytist á meðan á hverri gjöf stendur. Í byrjun gjafar er hún ríkari af prótínum, vítamínum, steinefnum og vatni en seinna inniheldur hún meiri fitu, sem lætur barnið finna fyrir seddu. Mjólkin breytist jafnvel eftir aldri barnsins og árstíð.

 Sum hormón í móðurmjólkinni, eins og melatónín, eru í hámarki á nóttinni en önnur yfir daginn. Þessi breytileiki á hormónum yfir sólarhringinn gerir barnið ýmist syfjað eða betur vakandi, sem hjálpar því að koma reglu á svefn og vöku.

 Fyrstu dagana eftir fæðingu framleiðir móðirin gulleita mjólk sem kallast broddmjólk. Hún er auðmelt og sérstaklega næringarrík. Það þarf því ekki mikið af henni í lítinn maga barnsins til að fá heilmikla næringu. Broddmjólkin er stútfull af mikilvægum mótefnum sem verja viðkvæmt ungbarnið gegn sýkingum. Auk þess er hún hægðalosandi og hjálpar þannig við að hreinsa meltingarkerfi barnsins.

 Móðir þarf ekki að hafa áhyggjur af því að hafa ekki næga mjólk, jafnvel þó að hún sé með tvíbura, vegna þess að hún framleiðir sjálfkrafa meira ef þörf er á.

 Hvað heldur þú? Þróaðist móðurmjólkin, eins einstök og hún er? Eða býr hönnun að baki?