Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

A5

Nafn Guðs í Grísku ritningunum

Biblíufræðingar viðurkenna að eiginnafn Guðs, fjórstafanafnið (יהוה), standi næstum 7.000 sinnum í frumtexta Hebresku ritninganna. Margir telja hins vegar að það hafi ekki staðið í frumtexta Grísku ritninganna. Það er því sjaldgæft að finna nafnið Jehóva í þýðingum hins svonefnda Nýja testamentis. Flestir þýðendur rita meira að segja „Drottinn“ í staðinn fyrir nafn Guðs í versum sem vitna í Hebresku ritningarnar þar sem fjórstafanafnið stendur.

Þessari venju er ekki fylgt í Nýheimsþýðingu Biblíunnar. Þar stendur nafnið Jehóva alls 237 sinnum í Grísku ritningunum. Tvær mikilvægar staðreyndir búa að baki þeirri ákvörðun þýðendanna: (1) Grísku handritin sem við höfum undir höndum núna eru ekki frumrit. Af þeim þúsundum handrita sem nú eru til eru flest að minnsta kosti tveim öldum yngri en frumritin. (2) Þeir sem afrituðu handritin á þeim tíma settu annaðhvort Kyrios (grískt orð sem merkir ‚Drottinn‘) í stað fjórstafanafnsins eða afrituðu handrit þar sem búið var að gera það.

Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar telur vera óyggjandi sannanir fyrir því að fjórstafanafnið hafi staðið í frumhandritum gríska textans. Sú niðurstaða er byggð á eftirfarandi:

  • Í handritum Hebresku ritninganna, sem voru í notkun á dögum Jesú og postula hans, stóð fjórstafanafnið þar sem það hafði staðið í frumritunum. Fáir véfengdu það á árum áður. Það sannaðist síðan svo ekki varð um villst eftir að handrit af Hebresku ritningunum frá fyrstu öld fundust við Kúmran.

  • Fjórstafanafnið stóð einnig í grískum þýðingum Hebresku ritninganna á dögum Jesú og postula hans. Öldum saman héldu fræðimenn að fjórstafanafnið hefði ekki staðið í Sjötíumannaþýðingunni sem er grísk þýðing Hebresku ritninganna. Um miðbik 20. aldar tóku fræðimenn að skoða ævafornar slitur úr grísku Sjötíumannaþýðingunni frá tímum Jesú. Í þessum handritabrotum er nafn Guðs að finna, ritað með hebreskum bókstöfum. Á dögum Jesú voru því til grískar þýðingar Hebresku ritninganna sem innihéldu nafn Guðs. En svo var ekki lengur á fjórðu öld. Í mikilvægum handritum grísku Sjötíumannaþýðingarinnar frá þeim tíma, svo sem Codex Vaticanus og Codex Sinaiticus, er nafn Guðs horfið úr 1. Mósebók til Malakí (þar sem það hafði staðið í eldri handritum). Það kemur því ekki á óvart að nafn Guð skuli ekki vera að finna í handritum hins svonefnda Nýja testamentis, það er grískum hluta Biblíunnar, sem hafa varðveist frá því tímabili.

    Jesús sagði: „Ég er kominn í nafni föður míns.“ Hann lagði einnig áherslu á að hann ynni verk sín ‚í nafni föður síns‘.

  • Í Grísku ritningunum sjálfum kemur fram að Jesús hafi oft talað um nafn Guðs og kunngert það öðrum. (Jóhannes 17:6, 11, 12, 26) Hann sagði: „Ég er kominn í nafni föður míns.“ Hann lagði einnig áherslu á að hann ynni verk sín í ‚nafni föður síns‘. – Jóhannes 5:43; 10:25.

  • Grísku ritningarnar eru innblásin viðbót við hinar hebresku. Það virðist því ekki rökrétt að nafnið Jehóva hverfi skyndilega úr textanum. Lærisveinninn Jakob sagði öldungunum í Jerúsalem um miðbik fyrstu aldar: „Símeon hefur greint ítarlega frá hvernig Guð sneri sér að þjóðunum í fyrsta sinn og valdi úr hópi þeirra fólk til að bera nafn sitt.“ (Postulasagan 15:14) Það hefði ekki verið rökrétt af Jakobi að taka svo til orða ef enginn þekkti nafn Guðs á fyrstu öld eða tók sér það í munn.

  • Nafn Guðs er að finna í styttri útgáfu í Grísku ritningunum. Það er hluti orðsins „Hallelúja“ sem sjá má í Opinberunarbókinni 19:1, 3, 4, 6. Orðið er komið úr hebresku og merkir ‚lofið Jah‘ en „Jah“ er stytting nafnsins Jehóva. Mörg nöfn í Grísku ritningunum eru dregin af nafni Guðs. Í heimildarritum segir til dæmis að nafnið Jesús merki ‚Jehóva er hjálpræði‘.

  • Í fornum ritum Gyðinga kemur fram að nafn Guðs hafi staðið í ritum kristinna manna af gyðinglegum uppruna. Ritið Tosefta, frá því um 300 e.Kr., er safn af lögum Gyðinga sem varðveist höfðu í munnlegri geymd. Þar segir um kristin rit sem brennd voru á hvíldardegi: „Þeir hlífa ekki bókum guðspjallamannanna né bókum minim [sennilega átt við kristna Gyðinga] við eldinum. Þær fá að brenna á staðnum, þær og vísanir í nafn Guðs sem eru í þeim.“ Í sömu heimild er vitnað í Jose rabbína frá Galíleu en hann var uppi í byrjun annarrar aldar. Haft er eftir honum að á virkum dögum séu „skornir út úr þeim [trúlega átt við rit kristinna manna] bútar þar sem minnst er á nafn Guðs og þeir geymdir en hitt látið brenna“.

  • Sumir biblíufræðingar viðurkenna að nafn Guðs hafi líklega staðið í tilvitnunum Grísku ritninganna í Hebresku ritningarnar. The Anchor Bible Dictionary segir undir fyrirsögninni „Fjórstafanafnið í Nýja testamentinu“: „Ýmislegt bendir til þess að fjórstafanafnið, nafn Guðs Jahve, hafi staðið í sumum eða öllum tilvitnunum Nt [Nýja testamentisins] í Gt [Gamla testamentið] þegar handrit Nt voru skrifuð í upphafi.“ Biblíufræðingurinn George Howard segir: „Þar sem fjórstafanafnið stóð enn í handritum grísku biblíunnar [Sjötíumannaþýðingunni], sem var biblía frumkirkjunnar, er rökrétt að ætla að ritarar Nt hafi haldið nafninu í biblíutextanum þegar þeir vitnuðu í þessar ritningar.“

  • Virtir biblíuþýðendur hafa notað nafn Guðs í Grísku ritningunum. Sumir þeirra gerðu það löngu áður en Nýheimsþýðingin leit dagsins ljós. Af þessum þýðingum má nefna A Literal Translation of the New Testament … From the Text of the Vatican Manuscript, Herman Heinfetter (1863); The Emphatic Diaglott, Benjamin Wilson (1864); The Epistles of Paul in Modern English, George Barker Stevens (1898); St. Paul’s Epistle to the Romans, W. G. Rutherford (1900) og The New Testament Letters, J. W. C. Wand, biskup í London, (1946). Pablo Besson notaði „Jehová“ í Lúkasi 2:15 og Júdasarbréfinu 14 í spænskri þýðingu sinni snemma á 20. öld. Auk þess eru í þýðingu hans meira en 100 neðanmálsgreinar þar sem bent er á nafn Guðs sem sennilega þýðingu. Allt frá 16. öld hefur fjórstafanafnið staðið víða í hebreskum þýðingum Grísku ritninganna. Í að minnsta kosti 11 þýskum þýðingum stendur „Jehóva“ (eða umritun nafnsins úr hebresku, „Jahveh“) í Grísku ritningunum, og fjórir þýðendur sýna nafnið innan sviga á eftir „Drottinn“. Í meira en 70 þýskum þýðingum er nafnið að finna í neðanmálsgreinum eða skýringum.

    Nafn Guðs í Postulasögunni 2:34 í The Emphatic Diaglott (Benjamin Wilson, 1864).

  • Nafn Guðs er að finna í þýðingum Grísku ritninganna á meira en hundrað tungumálum. Nafn Guðs er notað ríkulega í mörgum þýðingum á tungumál Afríku, Asíu, Evrópu og Kyrrahafseyja, auk þýðinga á indíánamál Ameríku. (Sjá lista á  bls. 1678 og 1679.) Þýðendur þeirra ákváðu að nota nafnið af svipuðum ástæðum og greint er frá hér á undan. Sumar af þessum þýðingum Grísku ritninganna eru tiltölulega nýlegar, svo sem þýðing á rotuma (1999) þar sem nafnið „Jihova“ stendur 51 sinni í 48 versum, og batak (toba) í Indónesíu (1989) en í henni stendur nafnið „Jahowa“ 110 sinnum.

    Nafn Guðs í Markúsi 12:29, 30 í havaískri þýðingu.

Það eru greinilega skýr rök fyrir því að láta nafn Guðs, Jehóva, standa í Grísku ritningunum. Það er einmitt það sem þýðendur Nýheimsþýðingarinnar hafa gert. Þeir bera djúpa virðingu fyrir nafni Guðs og stendur heilnæmur ótti af því að taka nokkuð burt sem stendur í frumtextanum. – Opinberunarbókin 22:18, 19.