Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leggur Guð blessun sína yfir stríð?

Leggur Guð blessun sína yfir stríð?

Sjónarmið Biblíunnar

Leggur Guð blessun sína yfir stríð?

HVE oft hafa ekki stjórnendur, hershöfðingjar og meira að segja klerkastéttin lýst yfir stríði eða stutt stríð í nafni Guðs. Árið 1095 var fyrsta krossferðin farin með samþykki og stuðningi Úrbans páfa annars til þess að ná aftur „borginni helgu,“ Jerúsalem, á vald kristna heimisins. En áður en þetta takmark náðist tortímdu Tyrkir einum krossfarahópi en trúarákafi þeirra fyrir Allah var álíka mikill og trú krossfaranna á þrenninguna.

Í ágústmánuði 1914 skrifaði ungur Þjóðverji frá herbúðum sínum í fyrri heimsstyrjöldinni: „Ef til er réttlæti og ef Guð stýrir atburðum mannkynssögunnar — og ég er hárviss um það — þá hljótum við að sigra.“ Í sama mánuði sendi Nikulás keisari annar rússneska herinn af stað gegn Þýskalandi og tilkynnti: „Ég sendi innilegustu kveðju til hinna hugrökku hermanna minna og göfugu bandamanna. Guð er með okkur!“

Með slík hvatningarorð í eyrum hafa milljónir hermanna farið á vígstöðvarnar, fullvissar um að Guð stæði með sér. Margir álíta að Guð leyfi slík stríð til að gjalda fyrir frelsið og benda á stríðin í Hebresku ritningunum (venjulega kallað Gamla testamentið) því til stuðnings. Túlka þeir orð Guðs rétt?

Stríð í Forn-Ísrael

Jehóva gaf fyrirmæli um að Ísraelsmenn ættu að fara í stríð til að losa fyrirheitna landið við hina siðspilltu Kanverja. (3. Mósebók 18:1, 24-28; 5. Mósebók 20:16-18) Guð hafði hegnt illvirkjum með flóði á dögum Nóa og eytt Sódómu og Gómorru með eldi og á sama hátt beitti hann Ísraelsþjóðinni sem aftökusverði sínu. (1. Mósebók 6:12, 17; 19:13, 24, 25).

Samkvæmt Biblíunni háðu Ísraelsmenn önnur stríð undir stjórn Guðs, venjulega til að bæla niður tilefnislausar stríðshótanir óvinaþjóða. Þegar þjóðin hlýddi Jehóva enduðu stríðin, sem hún háði, þeim í hag. (2. Mósebók 34:24; 2. Samúelsbók 5:17-25) En þegar Ísraelsmenn dirfðust að fara í stríð gegn ráðum Guðs endaði það venjulega með ósköpum. Tökum eftir hvernig fór fyrir Jeróbóam konungi. Hann virti að vettugi skýlausa spádómlega viðvörun og sendi gríðarmikið herlið í borgarastríð gegn Júdaríki. Þegar limlestingunum linnti lágu 500.000 hermenn Jeróbóams í valnum. (2. Kroníkubók 13:12-18) Einu sinni tók jafnvel hinn trúfasti konungur Jósía þátt í bardaga sem honum var óviðkomandi. Þessi hvatvísa ákvörðun kostaði hann lífið. — 2. Kroníkubók 35:20-24.

Hvað sýna þessir atburðir? Að í Ísrael til forna var það háð ákvörðun Guðs hvort heyja skyldi stríð. (5. Mósebók 32:35, 43) Hann lét þjóð sína berjast í sérstökum tilgangi. Og þessum tilgangi var náð fyrir löngu. Jehóva sagði þar að auki fyrir um að þeir sem þjóna honum „á hinum síðustu dögum“ myndu „smíða plógjárn úr sverðum sínum“ og ekki „temja sér hernað framar.“ (Jesaja 2:2-4) Stríð á biblíutímanum réttlæta greinilega ekki hernaðarátök sem eiga sér stað á okkar tímum þar sem hvorki er barist undir stjórn Guðs né samkvæmt fyrirskipun hans.

Áhrifin af kennslu Jesú Krists

Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann hvernig ætti að láta óeigingjarnan kærleika koma í stað haturs með því að boða: „Elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.“ (Jóhannes 15:12) Hann sagði líka: „Sælir eru friðflytjendur.“ (Matteus 5:9) Gríska orðið yfir „friðflytjendur“ merkir hér meira en að njóta friðsældar. Það þýðir raunverulega að temja sér frið, vera virkur í að sýna öðrum góðvild.

Þegar Jesús var handtekinn reyndi Pétur postuli að verja hann með banvænu vopni. En sonur Guðs ávítaði hann og sagði: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matteus 26:52) Hvernig heimfærðu kristnir menn á fyrstu öldinni þessi orð? Eftirfarandi tilvitnanir eru athyglisverðar:

„Nákvæm athugun á öllum fáanlegum upplýsingum [sýnir] að fram að tímum Markúsar Árelíusar [121-180] gerðist enginn kristinn maður hermaður og enginn hermaður hélt áfram að gegna herþjónustu eftir að hafa gerst kristinn.“ — The Rise of Christianity.

„Hegðun [frum]kristinna manna var mjög frábrugðin hegðun Rómverja. . . . Þar sem Jesús Kristur hafði boðað frið neituðu þeir að gerast hermenn.“ — Our World Through the Ages.

Af því að lærisveinar Jesú neituðu að þjóna í hersveitum keisarans létu Rómverjar taka marga þeirra af lífi. Hvers vegna héldu kristnir menn svona fast í þessa illa þokkuðu afstöðu sína? Vegna þess að Jesús kenndi þeim að vera friðflytjendur.

Nútímahernaður

Ímyndum okkur hvað það yrði hræðilegt ef fylgjendur Jesú Krists myndu berjast í andstæðum herfylkingum og reyna að drepa hver annan. Slíkt atferli bryti í bága við kristnar meginreglur. Þeir sem hlýða Guði Biblíunnar gera engum mein — ekki einu sinni óvinum sínum. * — Matteus 26:52.

Guð leggur greinilega ekki blessun sína yfir bókstafleg stríð milli manna nú á tímum. Með því að vera friðsamir eru sannkristnir menn talsmenn þess friðar sem verður komið á fót um heim allan undir stjórn Guðsríkis.

[Neðanmáls]

^ Í Biblíunni er getið um „Harmagedón“ sem kallast líka ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ Það vísar ekki til venjulegs hernaðar heldur til þess að Guð muni einungis eyða illvirkjum. Þess vegna er ekki hægt að nota Harmagedónstríðið til að réttlæta hernaðarátök manna nú á tímum eða gera ráð fyrir að Guð blessi þau. — Opinberunarbókin 16:14, 16; 21:8.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Grískur rétttrúnaðarprestur blessar hermenn áður en þeir fara til Kosovo 11. júní 1999.

[Credit line]

AP Photo/Giorgos Nissiotis

[Mynd á blaðsíðu 29]

Francisco Franco hershöfðingi á Spáni stillir sér upp með nokkrum kaþólskum klerkum.

[Credit line]

U.S. National Archives.