Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég orðið meira aðlaðandi?

Hvernig get ég orðið meira aðlaðandi?

Ungt fólk spyr . . .

Hvernig get ég orðið meira aðlaðandi?

„Það var hvorki auðvelt né þægilegt að halda uppi samræðum við stelpur. Ég vissi ekkert hvað þær voru að hugsa, hvernig þeim leið eða hvaða viðhorf þær höfðu.“ — Tyler.

HVAÐA eiginleika kunna stelpur best að meta í fari stráka? „Sjálfsöryggi,“ segir stelpa sem heitir Emilía. Önnur, sem heitir Robyn, setur „fyndinn“ efst á listann. Og hvað kunna strákar helst að meta í fari stelpna? Það kemur kannski ekki á óvart að könnun skuli hafa sýnt að útlitið skiptir þá mestu máli. Svipuð áhugamál og lífsgildi voru í sjötta sæti.

Greinar og kannanir um sambandið milli stráka og stelpna eru algengar í unglingatímaritum. Margir unglingar hugsa greinilega mikið um, og hafa jafnvel áhyggjur af því hvernig hitt kynið lítur á þá. Kannski hefurðu stundum áhyggjur af þessu. Jafnvel þó að þú sért ekki tilbúinn til að gifta þig strax er það nú samt þannig að enginn vill vera óaðlaðandi eða fráhrindandi. Tyler segir: „Þegar maður er unglingur vill maður vera aðlaðandi í augum allra og fá viðurkenningu jafnaldranna, bæði stráka og stelpna.“ Og í framtíðinni langar þig kannski til að eignast góðan maka. Þegar þar að kemur viltu auðvitað geta laðað slíkan einstakling að þér.

Sem kristinn unglingur hefurðu kannski ekki mikla reynslu í samskiptum við hitt kynið. Þar að auki gætirðu fundið fyrir miklum þrýstingi frá jafnöldrunum til að vera líkamlega aðlaðandi. Það er ekki skrýtið að þú finnir til óöryggis eða finnist þú ekki uppfylla settar kröfur þegar tekið er mið af ofurfyrirsætum og vöðvabúntum sem við sjáum sífellt í sjónvarpi og tímaritum. En hvað þarf þá til að vera aðlaðandi í augum annarra á heilbrigðan og jákvæðan hátt — og þá líka í augum fólks af hinu kyninu?

Óraunhæft að vonast eftir „fullkomnum“ vexti

Sálfræðingurinn William S. Pollack segir að vegna áhrifa frá skemmtanaiðnaðinum eyði margt ungt fólk „gríðarlegum tíma í að reyna að grenna sig, lyfta lóðum og gera þolfimiæfingar til þess að breyta stærð og lögun líkamans.“ Til að fá þennan „fullkomna“ vöxt fara sumir jafnvel út í hættulegar öfgar eins og að svelta sig nánast. Social Issues Research Centre rannsakar félagslegt atferli fólks og segir að „innan við 5% allra kvenna geti samsvarað þeirri ímynd sem fjölmiðlar hafa skapað — og þá er bara verið að vísa til þyngdar og stærðar. En vilji maður líka fá ‚fullkomið‘ vaxtarlag, andlit o.s.frv. er hlutfallið sennilega um 1%.“

Heilræði Biblíunnar í Rómverjabréfinu 12:2 eru því skynsamleg: „Láttu umheiminn ekki þröngva þér í sitt mót.“ (Phillips) Þetta þýðir samt ekki að þú eigir að vera kærulaus varðandi útilitið. Það er skynsamlegt að hugsa vel um líkamann, hreyfa sig hæfilega og borða hollan mat. (Rómverjabréfið 12:1; 1. Tímóteusarbréf 4:8) Þér líður líka betur og þú lítur betur út ef þú færð næga hvíld og góðan svefn. Maður þarf líka að passa upp á að vera hreinn og snyrtilegur. Breskur strákur, sem heitir David, segir: „Ég þekki stelpu sem er aðlaðandi en hún lyktar illa og þess vegna forðast fólk hana.“ Farðu því oft í bað. Hreinar hendur, hár og neglur geta bætt útlit þitt.

Þó að Biblían hvetji okkur til að leggja ekki óþarflega mikið upp úr klæðaburði þá ráðleggur hún kristnu fólki ‚að klæða sig smekklegum búningi með háttvísi og heilbrigðu hugarfari.‘ (1. Tímóteusarbréf 2:9, NW) Vertu í fötum sem bæta útlit þitt en eru ekki öfgakennd eða óviðeigandi. * Ef þú hugsar hæfilega mikið um útlitið getur það aukið sjálfsöryggi þitt. Strákur, sem heitir Páll, orðar þetta svona: „Þó að maður sé ekki ‚fullkominn‘ getur maður gert gott úr því sem maður hefur.“

Hinn innri maður

Þó að fallegt andlit og vaxtarlag veki kannski athygli er „fríðleikinn hverfull.“ (Orðskviðirnir 31:30) Fegurð er oft skammvinn og kemur alls ekki í staðinn fyrir aðlaðandi persónuleika. (Orðskviðirnir 11:22) Mundu líka að „mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:7) Í stað þess að beina allri athygli að mittismáli eða upphandleggsvöðvum skaltu vinna að því að bæta ‚hinn hulda mann hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs.‘ (1. Pétursbréf 3:3, 4; Efesusbréfið 4:24) Að vísu ber margt ungt fólk litla virðingu fyrir lofsverðum persónueiginleikum — hvað þá andlegum eiginleikum. * En þeir sem hafa andlegt gildismat kunna að meta slíka eiginleika og þeim finnst þeir aðlaðandi.

Besta leiðin til að vera aðlaðandi í augum andlega sinnaðra kristinna karla og kvenna er að vera sjálfur andlega sinnaður. Notaðu bænina, einkabiblíunám og samkomurnar til að þroska með þér andlegt hugarfar. (Sálmur 1:1-3) En þú getur líka þroskað með þér annars konar færni og eiginleika sem geta hjálpað þér. Og þú þarft ekki að fara á stefnumót eða vera á föstu til að temja þér þessa eiginleika heldur geturðu þjálfað þá í almennum samskiptum við annað fólk.

Ertu til dæmis vandræðalegur eða feiminn innan um hitt kynið? Páll viðurkennir: „Stundum verð ég hálfvandræðalegur af því að þetta eru stelpur og ég skil þær ekki eins vel og ég skil stráka. Og ég vil ekki heldur verða mér til skammar.“ En hvernig geturðu þroskað með þér sjálfsöryggi og framkomu sem lætur öðrum líða vel í návist þinni? Ein leið til þess er að notfæra sér þann fjölbreytta félagsskap sem við höfum í söfnuðinum. Þegar þú ert á samkomum skaltu sýna fólki persónulegan áhuga — ekki bara þeim sem eru af hinu kyninu og á svipuðum aldri og þú heldur líka börnum, fullorðnum og eldra fólki. (Filippíbréfið 2:4) Þegar þú lærir að umgangast svona fjölbreyttan hóp af fólki hjálpar það þér að þroska með þér sjálfsöryggi.

En gættu þín samt sem áður. Jesús sagði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matteus 19:19) Ef maður er öruggur með sjálfan sig eru minni líkur á að maður verði klaufalegur eða vandræðalegur innan um aðra. * En þó að sjálfsvirðing sé nauðsynleg að vissu marki megum við ekki fara út í öfgar. Páll postuli sagði: „Segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber.“ — Rómverjabréfið 12:3.

Skoðaðu mannasiði þína og samskiptahæfni líka mjög vel. Bresk stelpa sem heitir Lydia segir: „Það er strákur í skólanum sem er frekar vinsæll hjá stelpunum. En þegar þær kynnast honum kunna þær ekki við hann af því að hann er ruddalegur og tillitslaus.“ Fólk laðast að þeim sem eru vingjarnlegir og nærgætnir í tali og sýna öðrum tillitssemi. (Efesusbréfið 4:29, 32; 5:3, 4) „Góðir mannasiðir eru eins og vegabréf sem veitir okkur frelsi og gerir okkur kleift að ná til fólks,“ segir dr. T. Berry Brazelton. Mannasiðir „eru nauðsynlegir til að öðlast viðurkenningu annarra.“

Siðir og venjur í heiminum eru mjög mismunandi. Það væri því gott fyrir þig að taka eftir því hvernig þroskaðir kristnir karlar og konur koma fram hvert við annað. Er til dæmis venja í þínu landi að karlmenn haldi dyrunum opnum fyrir konur? Ef svo er og þú lærir að sýna þessa kurteisi færðu orð fyrir að vera kurteis og yfirvegaður í fasi.

Að lokum getur verið gott að tileinka sér viðeigandi skopskyn. Biblían segir að það ‚hafi sinn tíma að hlæja‘ og þeir sem hafa gott skopskyn eiga oft auðvelt með að eignast vini. — Prédikarinn 3:1, 4.

Vingjarnleg en ekki daðurgjörn

Svokölluð handbók um það hvernig ná má árangri á stefnumótum segir að daður sé lykillinn að því að laða aðra að sér. Lesendum er sagt að æfa sig í því að brosa, ná augnsambandi og hefja samræður. Slík ráð eru í algerri þversögn við ráðleggingar Páls til Tímóteusar um að umgangast hitt kynið „í öllum hreinleika.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:2.

Þó að daður geti veitt manni aukið sjálfsálit er það falskt og óheiðarlegt. Þú þarft ekki að daðra eða vera með látalæti til að halda uppi skemmtilegum samræðum. Þú þarft ekki heldur að spyrja vandræðalegra eða óviðeigandi spurninga til að vita hvaða viðhorf hitt kynið hefur eða hvernig það hugsar. Gættu þess að tala um það sem er ‚rétt, hreint og elskuvert,‘ og sýndu þannig að þú sért á góðri leið með að verða andlega hugsandi og þroskaður maður eða kona. (Filippíbréfið 4:8) Hlýðni við meginreglur Biblíunnar gerir þig ekki aðeins aðlaðandi í augum þeirra sem eru af hinu kyninu heldur líka í augum Guðs. * — Orðskviðirnir 1:7-9.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinina „Skiptir máli hvernig við klæðum okkur?“ í Vaknið! apríl-júní 1999.

^ Rannsóknarmaður segir að kannanir bendi til þess að unglingum sé oft strítt fyrir að vera greindir. Þess vegna þykist sumir unglingar vera ógáfaðri en þeir eru.

^ Í 12. kafla bókarinnar Spurningar unga fólksins — svör sem duga er að finna margar góðar leiðbeiningar um það hvernig hægt er að byggja upp sjálfsvirðingu. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

^ Ef þú ert ekki á giftingaraldri er skynsamlegt að eiga félagsskap við hitt kynið í blönduðum hópum. Sjá greinina „Young People Ask . . . What if My Parents Think I’m Too Young to Date?“ (Ungt fólk spyr . . . Hvað ef foreldrum mínum finnst ég of ung/ungur til að vera á föstu?) í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. janúar 2001.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Reyndu að þroska með þér andlega eiginleika í staðinn fyrir að einblína á útlitið.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Lærðu að njóta þín í fjölbreyttum hópi fólks.