Hoppa beint í efnið

Ég tileinkaði mér viðhorf Guðs til blóðs

Ég tileinkaði mér viðhorf Guðs til blóðs

Ég tileinkaði mér viðhorf Guðs til blóðs

Læknir segir sögu sína

ÉG VAR í fyrirlestrasal sjúkrahússins að segja hópi lækna frá niðurstöðu krufningar. Sjúklingurinn sem dó var með illkynja æxli og ég sagði: „Við getum dregið þá ályktun að dauði þessa sjúkling hafi fyrst og fremst orsakast af rauðkornarofi [eyðileggingu rauðra blóðkorna] og bráðri nýrnabilun vegna stórrar blóðgjafar.“

Einn prófessor stóð upp og öskraði í reiði: „Ertu að segja að við höfum gefið ranga blóðtegund?“ „Það er ekki það sem ég átti við,“ svaraði ég. Ég sýndi nokkrar glærur af örsmáum hlutum af nýra sjúklingsins og bætti við: „Við sjáum rof [eyðingu] á mörgum rauðum blóðkornum í nýranu og getum því ályktað að það hafi valdið bráðri nýrnabilun.“ * Það myndaðist spenna í andrúmsloftinu og ég varð þurr í munninum. Mér fannst ég ekki getað bakkað með þetta þó að ég væri ungur læknir og hann prófessor.

Ég var ekki vottur Jehóva þegar þetta átti sér stað. Ég fæddist árið 1943 í Sendai, borg í norðurhluta Japans. Ég ákvað að læra læknisfræði þar sem faðir minn hafði verið sjúkdómafræðingur og geðlæknir. Ég var á öðru ári í læknaskóla þegar ég kvæntist ungri konu að nafni Masuko árið 1970.

Ég fór að læra sjúkdómafræði

Masuko vann til að sjá fyrir okkur á meðan ég kláraði námið. Læknisfræðin heillaði mig. Ég fylltist lotningu fyrir því hve frábærlega mannslíkaminn er hannaður. En ég hugsaði samt aldrei um tilvist skapara. Ég hélt að rannsóknir í læknisfræði myndu gefa lífi mínu tilgang. Eftir að ég varð læknir ákvað ég því að halda náminu í læknisfræði áfram og fór að læra sjúkdómafræði – rannsóknir á einkennum, orsökum og áhrifum sjúkdóma.

Þegar ég krufði sjúklinga sem höfðu látist af völdum krabbameins fór ég að efast um gagnsemi blóðgjafa. Sjúklingar með krabbamein á háu stigi geta orðið blóðlitlir vegna blæðinga. Lyfjameðferðir auka á blóðleysi og þess vegna ráðleggja læknar oft blóðgjafir. Mig grunaði hins vegar að blóðgjafir gætu valdið því að krabbameinið dreifðist. Nú er það þekkt að blóðgjafir valda ónæmisbælingu, en hún getur aukið líkurnar á endurkomu æxlis og dregið úr lífslíkum krabbameinssjúklinga. *

Atvikið sem ég nefndi í byrjun átti sér stað árið 1975. Prófessorinn hafði haft umsjón með málinu og var sérfræðingur í blóðfræði. Það er því ekki að furða að hann hafi orðið reiður þegar hann heyrði mig segja að blóðgjöf hafi valdið dauða sjúklingsins. En ég hélt kynningu minni áfram og hann róaðist smám saman.

Engir sjúkdómar eða dauði

Það var um svipað leyti sem konan mín fékk heimsókn frá eldri konu sem var vottur Jehóva. Hún notaði orðið „Jehóva“ í kynningu sinni og konan mín spurði hvað það þýddi. Votturinn svaraði: „Jehóva er nafn hins sanna Guðs.“ Masuko hafði lesið í Biblíunni síðan hún var ung stelpa en biblían sem hún notaði hafði skipt nafni Guðs út fyrir „DROTTINN“. Núna vissi hún að Guð væri persóna með eiginnafn.

Masuko byrjaði strax að kynna sér Biblíuna með eldri konunni. Þegar ég kom heim af sjúkrahúsinu um kl. 1 um nótt sagði konan mín spennt við mig: „Það segir í Biblíunni að sjúkdómum og dauða verði útrýmt!“ Ég svaraði: „Það væri alveg frábært.“ Hún hélt áfram: „Þar sem nýi heimurinn er alveg að koma vil ég ekki að þú sóir tíma þínum.“ Ég reiddist vegna þess að ég hélt að hún vildi að ég hætti að starfa sem læknir og það kom upp spenna í sambandi okkar.

En konan mín gafst ekki upp á mér. Hún bað Guð að hjálpa sér að finna viðeigandi biblíuvers til að sýna mér. Prédikarinn 2:22, 23 hreyfði við mér: „Hvað ávinnur maður með öllu erfiði sínu og metnaði sem knýr hann til að vinna hörðum höndum undir sólinni? … Jafnvel um nætur fær hann ekki hvíld. Þetta er líka tilgangslaust.“ Þetta átti við það sem ég var að gera – helga mig læknavísindum daginn út og inn án þess að finna sanna lífsfyllingu.

Einn sunnudagsmorgun í júlí 1975 þegar konan mín fór í ríkissal Votta Jehóva ákvað ég skyndilega að fara líka. Konan mín var undrandi á að sjá mig þar og ég fékk hlýlegar móttökur frá vottunum. Eftir þetta sótti ég allar sunnudagssamkomur. Um mánuði síðar byrjaði vottur að aðstoða mig við biblíunám. Konan mín skírðist þrem mánuðum eftir að hún fékk heimsókn frá vottum Jehóva í fyrsta sinn.

Að tileinka mér viðhorf Guðs til blóðs

Ég lærði fljótt að Biblían segir kristnum mönnum að ,halda sig frá blóði‘. (Postulasagan 15:28, 29; 1. Mósebók 9:4) Þar sem ég hafði nú þegar efasemdir um gagnsemi blóðgjafa átti ég ekki erfitt með að tileinka mér viðhorf Guðs til blóðs. * Ég hugsaði með mér: „Ef það er til skapari og þetta er það sem hann segir þá hlýtur það að vera rétt.“

Ég lærði líka að við veikjumst og deyjum vegna syndarinnar sem við fengum í arf frá Adam. (Rómverjabréfið 5:12) Á þessum tíma var ég að rannsaka æðakölkun. Eftir því sem við eldumst harðna slagæðar okkar og þrengjast og það veldur veikindum eins og hjartasjúkdómum, heilasjúkdómum og nýrnasjúkdómum. Það var rökrétt að orsökin væri ófullkomleikinn sem við fengum í arf. Eftir að ég lærði þetta dvínaði áhuginn fyrir læknisfræðinni. Enginn nema Jehóva Guð getur áfmáð sjúkdóma og dauða.

Í mars 1976, sjö mánuðum eftir að ég byrjaði að kynna mér Biblíuna, hætti ég rannsóknum mínum við háskólasjúkrahúsið. Ég óttaðist að ég myndi ekki getað starfað sem læknir framar. En ég fann vinnu á öðru sjúkrahúsi. Ég skírðist í maí 1976. Ég sannfærðist um að besta leiðin til að verja lífi mínu væri að þjóna sem boðberi í fullu starfi, eða brautryðjandi. Ég hóf brautryðjandastarfið í júlí 1977.

Að verja viðhorf Guðs til blóðs

Í nóvember 1979 fluttum við Masuko til safnaðar í Chiba-héraði, en þar var mikil þörf á boðberum. Ég fékk hlutastarf á sjúkrahúsi. Á fyrsta vinnudeginum hópuðust skurðlæknar í kringum mig og spurðu í yfirheyrslutón: „Hvað ætlar þú að gera ef það kemur inn sjúklingur sem þarf að fá blóðgjöf?“

Ég sagði þeim vinsamlega að ég myndi fylgja því sem Guð segir um blóð. Ég útskýrði að það væru aðrir valkostir en blóðgjöf og að ég myndi gera mitt besta til að hjálpa sjúklingunum mínum. Eftir um klukkutíma umræður sagði yfirskurðlæknirinn: „Ég skil. En ef það kemur inn sjúklingur sem hefur misst mikið blóð sjáum við um hann.“ Yfirskurðlæknirinn var þekktur fyrir að vera erfiður í viðmóti en eftir þessar umræður urðum við góðir félagar og hann virti alltaf trúarskoðanir mínar.

Virðing fyrir blóðinu reynd

Þegar við þjónuðum í Chiba var verið að byggja nýjar aðalstöðvar Votta Jehóva í Japan í Ebina. Við Masuko keyrðum þangað einu sinni í viku til að huga að heilsu vottanna sem voru í sjálfboðavinnu við að byggja Betelheimilið. Eftir nokkra mánuði fengum við boð um að þjóna í fullu starfi á Betel í Ebina. Í mars 1981 fluttum við þangað sem meira en 500 sjálfboðaliðar bjuggu tímabundið á meðan á byggingunni stóð. Á morgnanna hjálpaði ég til við þrif á baðherbergjunum á byggingarsvæðinu og eftir hádegi sá ég um læknisskoðanir.

Einn sjúklinga minna var Ilma Iszlaub, en hún kom frá Ástralíu til Japan sem trúboði árið 1949. Hún var með hvítblæði og læknarnir hennar sögðu henni að hún ætti aðeins fáeina mánuði eftir ólifaða. Ilma hafnaði blóðgjöf til að lengja lífið og kaus að búa á Betel þar til hún dæi. Á þessum tíma voru lyf sem örva framleiðslu rauðkorna, eins og rauðkornavaki, ekki tiltæk. Blóðrauði hennar var því stundum 3 eða 4 grömm á desilítra. (Eðlilegt er 12 til 15 grömm.) En ég gerði það sem ég gat til að annast hana. Ilma hélt áfram að sýna að hún hafði óhagganlega trú á orð Guðs þar til hún lést í janúar 1988 – um sjö árum seinna!

Í gegnum árin hafa þó nokkrir sjálfboðaliðar á deildarskrifstofunni í Japan þurft að fara í aðgerð. Læknarnir á sjúkrahúsunum á svæðinu eiga hrós skilið fyrir að hafa verið samvinnufúsir og gert aðgerðirnar án blóðgjafa. Mér hefur oft verið boðið að vera viðstaddur á skurðstofunni og fylgjast með aðgerðunum og stundum hef ég jafnvel aðstoðað við aðgerðina. Ég er þakklátur þessum læknum sem sýna ákvörðun votta Jehóva varðandi blóð virðingu. Að vinna með þeim hefur gefið mér mörg tækifæri til að segja frá trú minni. Einn læknanna skírðist nýlega sem vottur Jehóva.

Það sem læknar hafa lagt á sig til að annast votta Jehóva án blóðgjafar hefur nýst vel í læknisfræðinni. Aðgerðir án blóðgjafa hafa sýnt hve gagnlegt það er að forðast blóðgjafir. Rannsóknir sýna að sjúklingarnir nái sér fljótar og glími við færri fylgikvilla eftir aðgerðir.

Ég held áfram að læra af besta lækninum

Ég reyni að fylgjast með nýjustu framförunum í læknisfræði. En ég held líka áfram að læra af Jehóva, besta lækninum. Hann sér ekki aðeins það sem er á yfirborðinu heldur sér hann okkur í heild. (1. Samúelsbók 16:7) Sem læknir reyni ég að koma fram við alla sjúklinga mína sem einstaklinga frekar en að einblína bara á veikindi þeirra. Það gerir mér kleift að veita þeim betri heilbrigðisþjónustu.

Ég þjóna enn á Betel og það að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva – þar á meðal viðhorfi hans til blóðs – er enn þá eitt af því skemmtilegasta sem ég geri. Ég bið þess að besti læknirinn, Jehóva Guð, bindi brátt enda á öll veikindi og dauða. – Yasushi Aizawa segir frá.

[Neðanmáls]

^ Í Journal of Clinical Oncology ágúst 1988 segir: „Batahorfur sjúklinga sem fá blóðgjöf þegar þeir fara í aðgerð eru töluvert verri en þeirra sem fara í krabbameinsaðgerð án blóðgjafar.“

^ Samkvæmt kennslubókinni Modern Blood Banking and Transfusion Practices eftir dr. Denise M. Harmening geta „síðkomin rauðaleysandi viðbrögð“ komið fram „hjá sjúklingi sem er viðkvæmur vegna blóðgjafar, þungunar eða líffæraígræðslu.“ Í slíkum tilfellum er „ekki hægt að greina með hefðbundnum aðferðum fyrir blóðgjöfina“ mótefnin sem gera það að verkum að sjúklingurinn bregst illa við henni. Samkvæmt Dailey’s Notes on Blood getur rauðkornarofi „verið hrint af stað þegar aðeins lítið magn af ósamrýmanlegu … blóði er gefið. Þegar sjúklingur er með lokastigsnýrnabilun er smám saman eitrað fyrir honum því að nýrun geta ekki losað óhreinindin úr blóðinu.“

^ Nánari upplýsingar um það sem Biblían kennir varðandi blóð er að finna í bæklingnum How Can Blood Save Your Life? Gefinn út af Vottum Jehóva.

[Innskot]

„Ég útskýrði að það væru aðrir valkostir en blóðgjöf og að ég myndi gera mitt besta til að hjálpa sjúklingunum mínum.“

[Innskot]

„Aðgerðir án blóðgjafa hafa sýnt hve gagnlegt það er að forðast blóðgjafir.“

[Myndir]

Uppi: Að flytja biblíufyrirlestur.

Til hægri: Með Masuko konunni minni.