Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sykrur lífríkis

Sykrur lífríkis

Sykrur lífríkis

SENNILEGA notarðu sykur til að sæta kökur, kaffi og hvað eina. En vissirðu að sykur gæti átt eftir að valda byltingu í líffræði, ekki síðri en átti sér stað við uppgötvun kjarnsýrunnar DNA?

Vísindamenn hafa á síðustu árum verið að rannsaka hvernig frumur nota einsykrur, svo sem þrúgusykur, til að smíða risasameindir „sem eru á stærð við DNA og prótín og ekki síður flóknar“. Þetta kemur fram í tímaritinu New Scientist. Þar segir að „sykrur komi við sögu í nánast öllum lífrænum ferlum, allt frá því að bera kennsl á sjúkdómsvalda upp í blóðstorknun og það að gera sáðfrumu kleift að þrengja sér inn í eggfrumu“. Margs konar sjúkdómar, svo sem vöðvavisnun og liðagigt, hafa verið raktir til ófullkomins fjölsykrubúskapar. „Líffræðingar eru rétt að byrja að átta sig á verkun þessara sykra og standa nú frammi fyrir því að þurfa að endurskoða gamalgrónar hugmyndir um það hvernig lífið virkar,“ segir í blaðinu.

Kalla mætti allar sykrur, sem fruma eða lífvera framleiðir, „sykrumengi“ hennar, ekki ósvipað og öll gen ákveðinnar lífveru eru nefnd „genamengi“. Sykrumengi einnar frumu er þó „sennilega mörg þúsund sinnum flóknara en genamengi hennar“. Þetta segir Ajit Varki en hann er forstöðumaður stofnunar við Kaliforníuháskóla í San Diego sem fæst við rannsóknir á sykrulíffræði. Hvers vegna er sykrumengið svona flókið?

Einsykrur í lifandi frumum tengjast saman í fjölsykrur en þær mynda síðan risasameindir sem geta verið samsettar úr meira en 200 einsykrusameindum. Einsykrur mynda þrívíddarform sem er mikilvægur þáttur í verkun þeirra. Þess vegna getur „sykra, sem er samsett úr aðeins sex einsykrum, myndað hvorki meira né minna en 12 milljarða forma“, að sögn New Scientist.

Ajit Varki talar um að krefjandi viðfangsefni bíði vísindamanna á þessu nýja rannsóknarsviði og segir: „Það er eins og við séum nýbúin að finna meginland Norður-Ameríku. Nú þurfum við að senda út sveitir til að kanna hve stórt það er.“

Hið flókna gangverk lifandi frumu vitnar ótvírætt um feikilega vitsmuni höfundarins. Margir fyllast lotningu frammi fyrir undri sem þessu. Er þér þannig innanbrjósts? — Opinberunarbókin 4:11.