Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna þörfnumst við vonar?

Hvers vegna þörfnumst við vonar?

Hvers vegna þörfnumst við vonar?

HVAÐ ef Daniel, drengurinn sem var með krabbamein og var minnst á í byrjun greinarinnar á undan, hefði viðhaldið sterkri von? Hefði hann sigrast á krabbameininu? Væri hann enn þá lifandi? Þeir sem trúa hvað mest á mátt vonarinnar myndu tæplega halda slíku fram. Þetta er mjög mikilvægt. Við megum ekki ofmeta vonina. Hún felur ekki í sér neina töfralausn.

Í viðtali á bandarískri útvarpsstöð varaði dr. Nathan Cherney við þeirri hættu að gera of mikið úr mætti vonarinnar þegar verið er að hjálpa mjög veikum sjúklingum. „Við höfum orðið vitni að því að eiginmenn ávítuðu eiginkonur sínar fyrir að hafa ekki iðkað hugleiðslu nógu mikið eða verið nógu jákvæðar.“ Dr. Cherney bætti við: „Þessi hugmynd hefur skapað þá tálvon að maður geti haft stjórn á krabbameininu en þegar það gengur ekki eftir er eins og verið sé að segja að sjúklingnum hafi ekki tekist það. Þetta er ekki sanngjarnt.“

Baráttan við banvænan sjúkdóm er mjög krefjandi og tekur sinn toll. Að bæta sektarkennd ofan á þá þungu byrði er sannarlega það síðasta sem ástvinir myndu vilja gera. Er von þá einskis virði?

Alls ekki. Sami læknir sérhæfir sig til dæmis í því að draga úr verkjum og einkennum sjúkdóma. Þetta er meðferð sem beinir ekki athyglinni að því að berjast gegn sjúkdómnum sjálfum eða jafnvel að lengja lífið heldur að gera líf sjúklingsins þægilegra eins lengi og hann er á lífi. Læknar eins og hann hafa mikla trú á meðferðum sem miða að því að hjálpa fólki að vera jákvæðara, jafnvel fólki sem er mjög veikt. Það eru mjög sterkar vísbendingar um að vonin geti gert þetta – og miklu meira.

Gildi vonar

„Von er kröftug meðhöndlun,” skrifar dr. W. Gifford-Jones, blaðamaður sem skrifar um læknisfræði. Hann skrifaði gagnrýni um mismunandi rannsóknir sem voru gerðar til að meta gildi þess að veita dauðvona sjúklingum tilfinningalegan stuðning. Talið er að slíkur stuðningur hjálpi fólki að vera jákvætt og bjartsýnt. Ein slík rannsókn sem var gerð 1989 leiddi í ljós að sjúklingar sem fengu slíkan stuðning lifðu lengur. En nýlegar rannsóknir gefa ekki jafn skýrar niðurstöður. Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að sjúklingar sem fá tilfinningalegan stuðning finna síður til þunglyndis og hafa minni verki heldur en þeir sem fá hann ekki.

Skoðum aðra rannsókn sem beindi athyglinni að áhrifum bjartsýni og svartsýni á kransæðasjúkdóma. Talað var við hóp rúmlega 1300 manna og vandlega metið hvort þeir væru bjartsýnir eða svartsýnir á lífið. Tíu árum síðar kom í ljós að meira en 12 prósent þessara manna höfðu fengið kransæðastíflu. Af þeim voru helmingi fleiri sem höfðu verið svartsýnir heldur en þeir sem höfðu verið bjartsýnir. Laura Kubzansky, aðstoðarprófessor í heilsu og félagslegu atferli við Harvard School of Public Health, segir: „Flestar af þeim sönnunum sem styðja þá skoðun að það sé gott fyrir heilsuna að hugsa jákvætt hafa verið byggðar á frásögum – þessi rannsókn á sviði hjartasjúkdóma kemur með fyrstu afgerandi læknisfræðilegu sönnunina um að jákvæð hugsun sé góð fyrir heilsuna.“

Sumar rannsóknir hafa sýnt að þeim farnast verr eftir uppskurð sem álíta heilsu sína slæma heldur en þeim sem eru jákvæðir gagnvart heilsu sinni. Menn hafa jafnvel komist að því að það eru tengsl milli jákvæðni og langlífi. Í einni rannsókn var skoðað hvernig jákvætt og neikvætt viðhorf hefði áhrif á öldrun hjá eldra fólki. Þegar eldra fólk í rannsókninni fékk að sjá skilaboð í örstutta stund um að öldrun tengist aukinni visku og reynslu hafði það þau áhrif að fólkið varð styrkara til gangs. Framfarirnar voru á við árangur tólf vikna æfingadagskrár.

Hvers vegna bætir von, bjartsýni og jákvæðni heilsuna að því er virðist? Ef til vill er þekking vísindamanna og lækna á mannshuganum og líkamanum ekki nógu mikil til að svara því. En sérfræðingar sem rannsaka þetta geta samt dregið vissar ályktanir af þeirri reynslu og þekkingu sem þeir hafa. Prófessor í taugafræði segir til dæmis: „Manni liður vel þegar maður er glaður og vongóður. Þá er streita í lágmarki og líkaminn dafnar. Þetta er eitt af því sem fólk getur gert til að bæta heilsuna.“

Þetta gæti hljómað nýstárlega í eyrum sumra lækna, sálfræðinga og vísindamanna en tæplega í eyrum þeirra sem rannsaka Biblíuna. Fyrir næstum 3000 árum var hinum vitra konungi Salómon innblásið að skrifa: „Glatt hjarta veitir góða heilsubót en dapurt geð tærir beinin.“ (Orðskviðirnir 17:22) Taktu eftir jafnvæginu í þessum orðum. Hér segir ekki að glatt hjarta lækni öll mein heldur einfaldlega að það sé ,góð heilsubót‘.

Í raun væri eðlilegt að spyrja: Ef von væri lyf hvaða læknir myndi ekki ávísa því? Og það sem meira er, von hefur áhrif á margt fleira en heilsuna.

Bjartsýni, svartsýni og líf þitt

Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru bjartsýnir hafa gagn af því á ýmsa vegu. Þeim gengur gjarnan betur í skóla, vinnu og jafnvel íþróttum. Gerð var rannsókn á kvennaliði í boðhlaupi. Þjálfararnir gerðu nákvæma úttekt á líkamlegu atgervi kvennanna. Einnig var rætt við konurnar og athugað hversu vonglaðar þær væru. Niðurstaðan var sú að það síðarnefnda sýndi miklu meira um frammistöðu þeirra heldur en upplýsingarnar sem þjálfararnir höfðu aflað. Hvers vegna hefur von svona mikið að segja?

Margt hefur komið í ljós við rannsóknir á svartsýni. Á sjöunda áratug síðustu aldar leiddu tilraunir í ljós óvæntar niðurstöður varðandi hegðun dýra sem varð til þess að orðasambandið ,áunnið úrræðaleysi‘ varð til. Þeir sem stjórnuðu tilrauninni komust að því að það sama getur hrjáð menn. Í einni tilraun fengu einstaklingar að heyra óþægileg hljóð og þeim var sagt að þeir gætu lært að slökkva á hljóðinu með því að ýta á vissa talnaröð á takkaborði. Þeim tókst að stöðva hljóðið.

Öðrum hópi einstaklinga var sagt að gera það sama en þá hafði það enga þýðingu að ýta á takkana. Skiljanlega upplifðu margir í síðari hópnum sig úrræðalausa. Seinna sama dag í annarri tilraun voru þeir hikandi við að gera yfir höfuð nokkuð. Þeir voru vissir um að það skipti engu hvað þeir myndu gera. En jafnvel í síðari hópnum neituðu þeir sem voru bjartsýnir að hleypa slíkri hugsun að.

Dr Martin Seligman sem aðstoðaði við að hanna sumar af þessum tilraunum fann sig knúinn til að sérhæfa sig í því að rannsaka áhrif bjartsýni og svartsýni. Hann skoðaði gaumgæfilega hvernig fólk hugsar sem hefur tilhneigingu til að horfa á sjálft sig sem hjálparlaust. Hann ályktaði að slík neikvæðni hindri fólk á mörgum sviðum lífsins og hafi jafnvel lamandi áhrif á það. Niðurstaða Seligmans varðandi neikvæða hugsun og áhrif hennar var þessi: „Tuttugu og fimm ára rannsóknarvinna hefur sannfært mig um að ef við höfum fyrir venju að trúa, eins og svartsýnismenn gera, að ógæfa okkar sé okkur að kenna, að hún taki engan enda og hafi neikvæð áhrif á allt sem við gerum, upplifum við meiri ógæfu heldur en ef við trúum hinu gagnstæða.“

Eins og áður segir gæti sumum virst þetta nýlunda en ekki þeim sem rannsaka Biblíuna. Eftirfarandi orðskviður er eftirtektarverður: „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill.“ (Orðskviðirnir 24:10) Biblían sýnir greinilega að kjarkleysi og neikvæðar hugsanir ræna mann krafti til að framkvæma. En hvað getur maður gert til að berjast á móti svartsýni og öðlast meiri bjartsýni og von í lífinu?

[Mynd]

Von getur haft mikil áhrif.