Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur sigrast á svartsýni

Þú getur sigrast á svartsýni

Þú getur sigrast á svartsýni

HVERT er viðhorf þitt til þeirra erfiðleika sem þú gengur í gegnum? Margir sérfræðingar álíta að svarið við spurningunni segi heilmikið um það hvort þú sért bjartsýnismaður eða bölsýnismaður. Allir ganga í gegnum einhverjar raunir á lífsleiðinni, sumir fleiri en aðrir. En hvers vegna virðast sumir ná sér fljótlega og eru aftur klárir í slaginn eftir að hafa gengið í gegnum raunir en aðrir gefast upp andspænis jafnvel minni háttar erfiðleikum?

Hugsum okkur að þú sért að leita þér að vinnu. Þú ferð í atvinnuviðtal en færð ekki vinnuna. Hvernig líður þér? Þú gætir tekið það mjög persónulega og hugsað að staða þín breytist aldrei. „Enginn mun ráða mann eins og mig. Ég fæ aldrei vinnu,“ gætirðu hugsað. Eða það sem verra er, þú gætir látið þetta eina áfall haft áhrif á viðhorf þitt til lífsins og farið að hugsa: „Mér er ekki viðbjargandi. Ég er einskis nýtur.“ Slík hugsun er svartsýni í hnotskurn.

Að sigrast á svartsýni

Hvernig geturðu barist gegn neikvæðum hugsunum? Fyrst þarftu að bera kennsl á þær. Síðan þarftu að berjast gegn þeim. Reyndu að finna aðrar hugsanlegar skýringar á því hvers vegna þú fékkst ekki vinnuna. Er það í raun vegna þess að enginn myndi vilja fá þig í vinnu? Eða gæti verið að vinnuveitandinn hafi einfaldlega verið að leita að manni með aðra menntun og hæfni?

Þegar þú einbeitir þér þannig að staðreyndum áttu auðveldara með að sjá að þessar neikvæðu hugsanir eru ekki í samræmi við raunveruleikann. Þýðir til dæmis eitt atvik þar sem þér var hafnað að þér sé ekki viðbjargandi? Eða geturðu komið auga á önnur svið lífsins þar sem þér gengur nokkuð vel, til dæmis í tengslum við trúna, fjölskyldulífið eða vináttu? Lærðu að hafna neikvæðum spádómum í huga þínum um dapurlega framtíð. Þegar allt kemur til alls, er nokkur leið að vita að þú munir aldrei finna vinnu? En það er fleira sem þú getur gert til að sigrast á neikvæðum hugsunum.

Jákvæð hugsun og markmið

Á undanförnum árum hafa rannsóknarmenn mótað skilgreiningu á von sem er að vísu dálítið þröng en samt áhugaverð. Þeir segja að von feli í sér þá trú að maður geti náð markmiðum sínum. Í næstu grein sjáum við að von felur í sér miklu meira. Þessi skilgreining er samt gagnleg á ýmsan hátt. Þegar við gefum gaum að þessum þætti vonar getur það hjálpað okkur að hugsa jákvætt og einbeita okkur að því að setja okkur markmið og ná þeim.

Til að trúa því að við getum náð framtíðarmarkmiðum okkar þurfum við að öðlast reynslu í að setja okkur markmið og ná þeim. Ef þér finnst þú ekki hafa slíka reynslu getur verið gagnlegt að hugsa alvarlega um þau markmið sem þú setur þér. Hefurðu yfirhöfuð einhver markmið? Það er hægðarleikur að láta daglegt amstur hindra okkur í að taka okkur tíma til að hugleiða hvað við viljum fá út úr lífinu og hvað það er sem skiptir okkur mestu máli. Biblían sagði endur fyrir löngu um það að hafa skýra forgangsröð: „Metið hvað er mikilvægt.“ – Filippíbréfið 1:10.

Þegar við höfum tekið ákvörðun um hvernig við viljum forgangsraða verður auðveldara að velja nokkur meginmarkmið, til dæmis varðandi samband okkar við Jehóva, fjölskyldulífið eða önnur svið lífsins. En það er mikilvægt að setja sér ekki of mörg markmið í byrjun og að velja markmið sem maður getur auðveldlega náð. Ef markmið er of erfitt til að ná því getur það dregið úr okkur kjark og fengið okkur til að gefast upp. Oft er betra að skipta stórum langtímamarkmiðum í minni markmið sem við getum náð á skemmri tíma.

„Hugurinn ber mann hálfa leið,“ segir máltækið. Það virðist vera nokkuð til í því. Þegar við höfum ákveðið hver meginmarkmið okkar eru þurfum við að hafa viljastyrk – sterka löngun og staðfestu – til að ná þeim. Við getum styrkt ásetning okkar með því að hugleiða gildi markmiða okkar og launin sem bíða okkar þegar við höfum náð þeim. Auðvitað verða einhver ljón á veginum en við ættum að líta á þau sem áskoranir frekar en hindranir.

En við þurfum líka að hugleiða hvernig við förum að því að ná markmiðum okkar. Rithöfundurinn C. R. Snyder hefur rannsakað ítarlega gildi vonar. Hann gefur það ráð að upphugsa fleiri leiðir til að ná ákveðnu markmiði. Ef ein leið lokast förum við aðra leið. Ef það gengur ekki förum við þá þriðju, og svo framvegis.

Rithöfundurinn mælir líka með því að læra að skipta um markmið. Ef það er ekki hægt að ná ákveðnu markmiði veldur það okkur bara áhyggjum að hugsa um það. En ef við setjum okkur annað og raunhæfara markmið í staðinn fáum við eitthvað nýtt til að binda vonir okkar við.

Í Biblíunni er að finna lýsandi dæmi um þetta. Davíð konungur hafði yndi af því markmiði að byggja musteri fyrir Jehóva Guð sinn. En Guð sagði honum að Salómon sonur hans myndi fá það verkefni. Í stað þess að fara í fýlu eða reyna að ríghalda í markmiðið setti hann sér nýtt markmið. Hann beindi kröftum sínum að því að safna fé og byggingarefni sem sonur hans myndi þurfa til að ljúka verkinu. – 1. Konungabók 8:17–19; 1. Kroníkubók 29:3–7.

Þótt við styrkjum vonir okkar með því að berjast gegn svartsýni, læra að hugsa jákvætt og vinna að markmiðum má vera að okkur vanti samt von. Hvers vegna? Vegna þess að vonleysið í þessum heimi stafar af miklu leyti af þáttum sem við ráðum engu um. Mannkynið stendur frammi fyrir stórum vandamálum eins og fátækt, stríði, óréttlæti og því sem vofir yfir okkur öllum – sjúkdómum og dauða. Hvernig getum við horft vongóð til framtíðarinnar þrátt fyrir allt þetta?

[Mynd]

Gerirðu ráð fyrir að fá aldrei vinnu ef tilraun til að fá vinnu hefur mistekist einu sinni?

[Mynd]

Davíð konungur var sveigjanlegur þegar markmið voru annars vegar.