Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Uppskriftin að sannri hamingju

Uppskriftin að sannri hamingju

Uppskriftin að sannri hamingju

ÞAÐ þarf bæði góða uppskrift og góðan kokk til að búa til ljúffenga máltíð. Að vissu leyti er eins farið með hamingjuna. Til að fólk geti orðið hamingjusamt þarf margt að koma til. Þar má nefna leik og störf, tíma með vinum og fjölskyldu og trúariðkun. En það eru einnig aðrir þættir sem hafa áhrif en eru ekki eins áberandi eins og viðhorf fólks, langanir og markmið þess í lífinu.

Sem betur fer þurfum við ekki að finna uppskriftina að hamingjunni upp á eigin spýtur. Skaparinn hefur gefið okkur Biblíuna sem er frábær leiðarvísir. Hún er nú fáanleg á mun fleiri tungumálum en nokkurt annað rit í heiminum og hefur verið gefin út í heild eða að hluta á 2377 tungumálum og mállýskum.

Þessi mikla dreifing á Biblíunni sýnir hvað Guði er umhugað um hamingju og andlega velferð allra. (Postulasagan 10:34, 35; 17:26, 27) „Ég . . . er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt,“ segir hann. Ef við fylgjum boðum hans lofar hann að veita okkur frið sem streymir fram „sem fljót“. — Jesaja 48:17, 18.

Þetta loforð minnir okkur á orð Jesú sem vitnað var til í greininni á undan: „Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ (Lúkas 11:28) Þessi orð lýsa ekki yfirborðskenndri guðrækni heldur andlegu hugarfari sem hefur áhrif á allt líf okkar. Þau lýsa því að við erum fús til að hlusta á Guð og láta hann kenna okkur því að við gerum okkur grein fyrir að hann þekkir okkur betur en við sjálf. „Það sem sannfærir mig helst um að Biblían sé frá Guði er að það ber árangur að fylgja leiðbeiningum hennar,“ segir Errol sem hefur verið iðinn biblíunemandi í 50 ár. Tökum sem dæmi afbragðsleiðbeiningar Biblíunnar um ásókn í skemmtanir og efnisleg gæði.

Viturlegar leiðbeiningar um peninga

„Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé,“ sagði Jesús. (Lúkas 12:15) Já, við erum ekki metin eftir bankainnistæðu okkar og það síst af Guði. Ásókn í auð getur jafnvel ýtt undir áhyggjur en þær ræna okkur gleði og taka tíma frá því sem meira máli skiptir. — Markús 10:25; 1. Tímóteusarbréf 6:10.

Richard Ryan, sálfræðiprófessor í Bandaríkjunum, segir að því ákafar sem menn leiti hamingjunnar í efnislegum hlutum þeim mun minni líkur séu á að þeir finni hana þar. Biblíuritarinn Salómon orðaði það svona: „Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum, og sá sem elskar auðinn, hefir ekki gagn af honum.“ (Prédikarinn 5:9) Það mætti líkja þessu við kláðann af skordýrabiti — því meira sem þú klórar þér þeim mun meira klæjar þig þar til bitið verður að opnu sári.

Biblían hvetur okkur til að vera iðjusöm og njóta ávaxtar erfiðis okkar. (Prédikarinn 3:12, 13) Ef við gerum það fáum við aukna sjálfsvirðingu sem er nauðsynleg til að öðlast hamingju. Lífið hefur upp á ýmislegt gott að bjóða og við getum notið þess að einhverju marki. En það er samt munur á að njóta einhvers af því sem hægt er að kaupa fyrir peninga og þess að gera ásókn í auðlegð að aðalmarkmiði lífsins.

Skemmtanir skipa sinn sess í lífinu

Við eigum auðveldara með að njóta afþreyingar, skemmtana og annarra gæða ef við erum andlega sinnuð. Jesús átti ánægjulegar stundir með öðrum þar sem hann naut matar og drykkjar. (Lúkas 5:29; Jóhannes 2:1-10) En þessar stundir voru alls ekki eini gleðigjafinn í lífi hans. Hann fann mesta gleði í því að sinna andlegum störfum, þar á meðal að segja öðrum frá Guði og fyrirætlun hans með mannkynið. — Jóhannes 4:34.

Salómon konungur prófaði margar lystisemdir lífsins til að athuga hvort þær myndu veita honum hamingju. Hann sagði við sjálfan sig: „Reyndu gleðina og njóttu gæða lífsins!“ Þessi auðugi konungur fór ekki hægt í sakirnar heldur sökkti hann sér í nautnir lífsins. En hvernig leið honum eftir á? Hann skrifaði: „Einnig það er hégómi.“ — Prédikarinn 2:1.

Innantómir og óánægðir — þannig líður oftast þeim sem leggja megináherslu á skemmtun og afþreyingu. Þegar rannsókn var gerð á því hvaða áhrif ásókn í skemmtanir hafði á almenna hamingju fólks kom í ljós að hún hafði í raun mjög lítið að segja í samanburði við gefandi vinnu, trúariðkun og samskipti við fjölskylduna.

Vertu örlátur og þakklátur

Yfirleitt er hamingjusamt fólk ekki eigingjarnt heldur örlátt og áhugasamt um aðra. „Sælla er að gefa en þiggja,“ sagði Jesús. (Postulasagan 20:35) Auk þess að gefa af efnislegum eigum getum við gefið af tíma okkar og kröftum en það er oft enn meira metið, sérstaklega innan fjölskyldunnar. Hjón verða að verja tíma saman til að tryggja að hjónabandið sé sterkt og farsælt. Foreldrar verða einnig að gefa börnum sínum nægan tíma, þau þurfa að tala við þau, sýna þeim umhyggju og kenna þeim. Þegar fjölskyldan gefur af sér á þennan hátt blómstrar hún og heimilið verður friðsælt athvarf.

En hefur þú vanið þig á að sýna þakklæti þegar aðrir gefa þér — hvort sem þeir gefa af sjálfum sér eða með öðrum hætti? (Kólossubréfið 3:15) Það getur haft mjög góð áhrif á samskipti okkar við aðra og veitt okkur sjálfum mikla gleði og ánægju. Hlýnar þér ekki um hjartarætur þegar einhver tjáir þér innilegt þakklæti?

Ef við sýnum þakklæti verðum við líka meðvitaðri um allt það góða í lífi okkar. Í rannsókn sem unnin var við Kaliforníuháskóla í Riverside í Bandaríkjunum voru þátttakendur beðnir um að skrá niður í dagbók allt sem þeir voru þakklátir fyrir. Það kom ekki á óvart að eftir sex vikna tímabil voru þeir orðnir mun ánægðari með lífið.

Hvað getum við lært af þessu? Lærðu að vera þakklátur fyrir það sem þú hefur, sama hverjar aðstæður þínar eru. Biblían hvetur þig meira að segja til þess og segir: „Verið ætíð glaðir. . . . Þakkið alla hluti.“ (1. Þessaloníkubréf 5:16, 18) Að sjálfsögðu verðum við þá að leggja okkur meðvitað fram um að minnast þess góða sem við upplifum. Væri ekki tilvalið að gera það að markmiði sínu?

Kærleikur og von — undirstaða hamingjunnar

Réttilega hefur verið sagt að mennirnir þurfi á ást og kærleika að halda frá vöggu til grafar, annars veslist þeir upp. En hvað er kærleikur? Biblían lýsir því á mjög fagran hátt og segir: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.“ — 1. Korintubréf 13:4-8.

Já, kærleikurinn er sannarlega óeigingjarn. Þar sem hann „leitar ekki síns eigin“ hefur hann velferð annarra í fyrirrúmi. Því miður sýna sífellt færri slíkan kærleika núorðið. Jesús sagði meira að segja í spádómi sínum um endalok núverandi heimskerfis að „kærleikur flestra [myndi] kólna“. — Matteus 24:3, 12; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

En ástandið verður ekki alltaf svona því að það er lítilsvirðing við skaparann — persónugerving kærleikans. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Guð mun bráðum losa jörðina við alla þá sem eru fullir haturs eða láta stjórnast af græðgi. Þeir einir fá að lifa sem reyna eindregið að þroska með sér þann kærleika sem lýst var hér að ofan. Árangurinn verður sá að friður og hamingja munu ríkja um alla jörðina. Hægt er að treysta því að loforð Biblíunnar nái fram að ganga: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir. En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:10, 11.

Ímyndaðu þér að hver dagur færi þér ríkulega gleði! Það er ekki að furða að í Biblíunni segi: „Verið glaðir í voninni.“ (Rómverjabréfið 12:12) Viltu vita meira um þá stórkostlegu von sem Guð gefur hlýðnu mannkyni? Lestu þá næstu grein.

[Innskot á blaðsíðu 7]

„Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 5]

Frægðarsögur hve sannar?

Við og við heyrum við frægðarsögur af fólki sem ólst upp við erfiðar heimilisaðstæður en sýndi þrautseigju og varð að lokum mjög efnað þrátt fyrir mótlæti. „Stundum er vitnað í slíkar sögur til að sýna fram á að þetta fólk hafi gert það besta úr slæmum aðstæðum. Það varð farsælt og hamingjuríkt þrátt fyrir eða vegna slæmrar æsku,“ segir í grein um hamingju í dagblaðinu San Francisco Chronicle. „En vandinn við þessa túlkun er sá að samkvæmt rannsóknum er alls ekki víst að fólkið hafi orðið svo hamingjuríkt. Það varð bara ríkt.“

[Rammi/mynd á blaðsíðu 6]

Hamingja stuðlar að góðri heilsu

Jákvætt viðhorf er gott læknislyf. Í frétt í tímaritinu Time segir: „Hamingja og aðrar svipaðar tilfinningar eins og bjartsýni, jákvæðni og gleði virðast minnka líkurnar á því að fólk fái hjarta- og æðasjúkdóma, lungnasjúkdóma, sykursýki, háan blóðþrýsting, kvef og öndunarfærasýkingar. Slík jákvæðni getur einnig orðið til þess að sjúkdómseinkennin verða ekki eins alvarleg.“ Hollensk rannsókn á öldruðum sjúklingum leiddi einnig í ljós að á níu ára tímabili dró glaðlegt og jákvætt viðmót úr dánarlíkum um allt að 50 prósent.

Enn er óljóst hvernig hugarfar hefur áhrif á líkamann. Rannsóknir hafa samt sýnt fram á að jákvætt og bjartsýnt fólk hefur lægra hlutfall af streituhormóninu hýdrókortísón en þetta hormón getur haft slæm áhrif á ónæmiskerfið.

[Mynd á blaðsíðu 4, 5]

Matur verður ljúffengur þegar við fylgjum góðri uppskrift og á sama hátt verðum við hamingjusöm þegar við fylgjum leiðbeiningum Guðs.