Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég lærði að treysta á Guð

Ég lærði að treysta á Guð

Ég lærði að treysta á Guð

ELLA TOOM SEGIR FRÁ

FJÖLSKYLDA mín bjó nálægt smábænum Otepää í suðurhluta Eistlands, um 60 kílómetra frá rússnesku landamærunum. Í október 1944, nokkrum mánuðum eftir að ég kláraði grunnskólann, var síðari heimsstyrjöldinni um það bil að ljúka. Á meðan rússneski herinn hrakti þýska hermenn á flótta gegnum Eistland flúðum við og nágrannar okkar — um 20 manns — út í skóg og földum okkur þar með húsdýrum okkar.

Í tvo mánuði dundu sprengjurnar allt í kringum okkur. Það var eins og við værum á miðjum vígvellinum. Við sátum saman og ég las upphátt úr Biblíunni, sérstaklega úr Harmljóðunum. Ég hafði aldrei áður lesið í Biblíunni. Dag einn klifraði ég upp á hæð, kraup á kné í bæn og sagði: „Þegar stríðið er á enda lofa ég að sækja kirkju á hverjum sunnudegi.“

Stuttu seinna færðust átökin til vesturs og í maí 1945 lauk síðari heimsstyrjöldinni í Evrópu þegar Þýskaland gafst upp. Ég stóð við loforð mitt við Guð og var farin að sækja kirkju í hverri viku. En þar voru aðeins fáeinar eldri konur. Mér fannst hálf vandræðalegt að vera þarna og þegar einhver heimsótti fjölskylduna faldi ég Biblíuna undir borðinu.

Ég fékk fljótlega vinnu við að kenna í skóla bæjarins. Kommúnistar réðu nú ríkjum og flestir aðhylltust trúleysi. En ég vildi ekki ganga í kommúnistaflokkinn. Ég var upptekin við ýmis félagsstörf og sá til dæmis um þjóðdansafélag fyrir börn.

Fyrstu kynni mín af vottunum

Börnin vantaði búninga fyrir dansinn og ég fór því til Emilie Sannamees sem var fær saumakona. Þetta var í apríl 1945. Ég vissi ekki að hún væri vottur Jehóva. Hún spurði mig: „Hvað finnst þér um ástandið í heiminum?“ Um þetta leyti var haldin friðarráðstefna í San Francisco í Bandaríkjunum og þess vegna sagði ég: „Ríkisstjórnin fer fljótlega frá völdum og ég er viss um að friðarráðstefnan er einmitt haldin til að sjá um að svo verði.“

Emilie sagði að friðarráðstefnan myndi ekki koma á neinum varanlegum breytingum og hún bauðst til að sýna mér í Biblíunni hvers vegna svo væri. Ég var ekki tilbúin til að hlusta á þessa hógværu miðaldra konu en áður en ég fór spurði hún mig: „Veistu hvar Guð ætlaði Adam og Evu að búa?“ Ég vissi ekki svarið svo hún sagði: „Spyrðu föður þinn.“

Ég gerði það þegar ég kom heim. Hann gat ekki svarað spurningunni og sagði að við þyrftum ekki að rannsaka Biblíuna heldur bara að trúa. Þegar ég sótti búningana minntist ég á að faðir minn hefði ekki vitað svarið við spurningunni. Þá náðu Emilie og systir hennar í biblíu og lásu fyrir mig leiðbeiningarnar sem Guð gaf Adam og Evu — að hugsa um garðinn sem þau bjuggu í og búa þar hamingjusöm að eilífu. Þær sýndu mér í Biblíunni að það hefði verið vilji Guðs að Adam og Eva eignuðust börn og gerðu alla jörðina að paradís. Ég heillaðist af þessum biblíulegu sannindum. — 1. Mósebók 1:28; 2:8, 9, 15; Sálmur 37:29; Jesaja 45:18; Opinberunarbókin 21:3, 4.

Fyrsta samkoman

Þetta sumar átti ég að sækja þriggja mánaða námskeið fyrir kennara í borginni Tartu. Emilie lét mig því fá heimilisfangið hjá konu sem var vottur Jehóva og bjó í borginni. Hún gaf mér líka bókina Creation og ég var mjög hrifin af því hve grundvallarsannindi Biblíunnar voru sett fram á skýran hátt í henni. Hinn 4. ágúst 1945 leitaði ég því uppi heimilisfangið sem hún gaf mér.

Það kom enginn til dyra í fyrstu svo að ég bankaði aftur svo hátt að nágranninn opnaði hjá sér og vísaði mér á annað heimilisfang — Salmegötu 56. Þar hitti ég konu sem var að flysja kartöflur í vinnuherbergi og spurði: „Eru trúarlegar samkomur haldnar hér?“ Konan sagði mér reiðilega að fara í burtu og að ég væri ekki velkomin. En ég gafst ekki upp og fékk að lokum að fara upp á næstu hæð þar sem biblíunámshópur var saman kominn. Fljótlega var gert matarhlé og ég bjó mig undir að fara en var hvött til að vera áfram.

Þegar ég fór að líta í kringum mig í matarhléinu sá ég tvo unga menn sitja við gluggann. Þeir voru óvenju fölleitir og horaðir. Seinna fékk ég að vita að þeir hefðu verið í felum í meira en ár í stríðinu til að komast hjá handtöku. * Í ræðu, sem Friedrich Altpere flutti síðdegis, notaði hann orðið „Harmagedón“. Ég þekkti ekki þetta orð og spurði hann þess vegna um það eftir á og hann sýndi mér það í Biblíunni. (Opinberunarbókin 16:16) Þegar hann sá hvað ég var hissa virtist hann ekki síður undrandi á að ég þekkti ekki orðið.

Nú áttaði ég mig á því að þessi samkoma hafði aðeins verið ætluð þeim sem menn vissu að væru vottar og þeir gætu treyst. Seinna komst ég að því að þetta var fyrsta samkoman þeirra eftir stríðið. Frá þessari stundu skildi ég betur nauðsyn þess að treysta á Guð. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Ári síðar, í ágúst 1946, lét ég skírast til tákns um að ég hafði vígt mig hinum sanna Guði Jehóva. Þá var ég tvítug.

Andstaða frá fjölskyldunni

Stjórnvöld kröfðust þess að trúleysi væri kennt í skólum. Þetta reyndi á biblíuþjálfaða samvisku mína. Mig langaði til að skipta um starf. Þegar ég minntist á þetta við móður mína réðst hún á mig í æðiskasti og reif í hárið á mér. Ég ákvað að fara að heiman. En faðir minn bað mig um að hætta við áform mín og þrauka áfram og sagðist ætla að hjálpa mér.

Bróðir minn, Ants, stóð með móður minni. En dag einn bað hann mig um biblíurit sem hann las og var mjög hrifinn af. Móðir mín varð fokreið. Ants fór meira að segja að tala um Guð í skólanum. En þegar ofsóknir byrjuðu hætti hann að umgangast vottana. Stuttu seinna fékk hann alvarlegan höfuðáverka við dýfingar. Hann lá lamaður á sjúkrabörum en var samt skýr í kollinum. „Heldurðu að Jehóva fyrirgefi mér?“ spurði hann. „Já“, sagði ég. Nokkrum dögum síðar lést hann aðeins 17 ára að aldri.

Í september 1947 sagði ég upp starfi mínu í skólanum. Móðir mín hélt áfram að vera mér fjandsamleg. Þegar hún henti öllum fötunum mínum út ákvað ég að flytja að heiman og Emilie og systir hennar skutu skjólshúsi yfir mig. Þær minntu mig á að Jehóva yfirgæfi aldrei þjóna sína og það var mér mikil huggun.

Prófraunir í Eistlandi eftir stríð

Emilie og systir hennar leyfðu mér að vinna með sér við saumaskap fyrir fólk á sveitabæjunum. Við fengum oft tækifæri til að vitna fyrir þessu fólki. Þetta var mjög ánægjulegur tími því ég lærði ekki aðeins að sauma heldur öðlaðist ég líka meiri reynslu í boðunarstarfinu. Auk þess að vinna við saumaskap tók ég nemendur í einkatíma í stærðfræði. En árið 1948 byrjuðu yfirvöld að handtaka vottana.

Í október árið eftir var ég að vinna á bóndabæ þegar mér var sagt að lögreglan hefði farið heim til Emilie til að handtaka mig. Ég ætlaði að leita skjóls hjá bróður Hugo Susi en fékk þá að vita að hann hefði verið handtekin stuttu áður. Kona, sem ég hafði saumað fyrir, bauð mér að dvelja hjá sér. Síðan flutti ég frá einum bóndabæ til annars, vann við saumaskap og hélt áfram að boða trúna.

Í byrjun vetrar náði sovéska leyniþjónustan (KGB) mér í Tartu á heimili Lindu Mettig sem var dugleg systir, nokkrum árum eldri en ég. Ég var handtekin og færð til yfirheyrslu. Ungir lögregluþjónar skipuðu mér að afklæðast og góndu svo á mig. Þetta var mjög niðurlægjandi. En eftir að ég hafði farið með bæn til Jehóva fann ég hvernig friður og ró færðist yfir mig.

Síðan var ég sett í pínulítinn fangaklefa, svo lítinn að ég gat ekki einu sinni legið endilöng. Mér var bara hleypt út þegar átti að yfirheyra mig. Lögregluþjónarnir sögðu: „Við erum ekki að biðja þig um að afneita tilvist Guðs. Hættu bara þessu heimskulega prédikunarstarfi! Þú átt framtíðina fyrir þér.“ Svo hótuðu þeir mér: „Viltu halda lífi? Eða viltu deyja með Guði þínum í Síberíu?“

Mér var neitað um svefn í þrjá daga samfleytt á milli þess sem yfirheyrslurnar héldu áfram. Ég hugleiddi meginreglur Biblíunnar og það hjálpaði mér að standast. Að lokum var mér afhent skjal þar sem ég átti að skrifa undir yfirlýsingu um að ég myndi hætta að prédika. „Ég hef hugsað mikið um þetta,“ sagði ég, „og ég vil frekar vera í fangelsi og eiga gott samband við Guð heldur en að vera frjáls og missa velþóknun hans.“ Þá öskraði maðurinn á mig: „Þú ert fífl! Þið verðið öll handtekin og send til Síberíu!“

Óvænt frelsi

Rétt fyrir miðnætti fékk ég óvænt að vita að ég mætti taka dótið mitt og fara. Ég vissi að ég yrði elt þannig að ég fór ekki heim til trúsystkina minna því þá myndi ég koma upp um þau. Og það reyndist rétt því þrír menn eltu mig. Ég bað til Jehóva um leiðsögn og beygði svo inn í dimma götu og hljóp inn í garð. Ég lagðist á jörðina og huldi mig með laufi. Ég heyrði fótatak mannanna og sá ljósgeislana frá vasaljósum þeirra.

Eftir nokkra klukkutíma var ég orðin dofin af kulda. En að lokum stóð ég á fætur og læddist um steinlagðar göturnar með skóna í fanginu. Ég hélt út úr borginni og gekk ofan í skurði meðfram þjóðveginum. Þegar bílar nálguðust lagðist ég niður. Klukkan fimm um morguninn komst ég loksins heim til Jüri og Meetu Toomel sem bjuggu skammt frá Tartu.

Meeta hitaði strax sánabaðið svo ég gæti náð í mig hita. Daginn eftir fór hún til Tartu og náði sambandi við Lindu Mettig. Linda sagði við mig: „Byrjum núna strax að boða fagnaðarerindið og förum yfir allt Eistland.“ Og það gerðum við um leið og ég var búin að breyta útlitinu með nýrri hárgreiðslu, dálítilli förðun og gleraugum. Á næstu mánuðum náðum við yfir stórt svæði á hjólunum okkar. Og við uppörvuðum trúsystkin sem við hittum á leiðinni.

Vottarnir skipulögðu mót hinn 24. júlí 1950 í stórri hlöðu í eigu biblíunemanda nærri borginni Otepää. KGB komst á snoðir um þessi áform en við náðum að vara flesta vottana við sem voru á leiðinni þangað. Við fundum nýjan stað fyrir næsta dag og 115 voru viðstaddir dagskrána. Allir héldu heim á leið ánægðir og enn ákveðnari í að varðveita hollustu sína í ofsóknum. *

Við Linda héldum áfram að boða fagnaðarerindið og hvetja trúsystkin okkar til dáða. Um haustið unnum við við kartöfluuppskeru og töluðum við samstarfsfólk okkar um Guðsríki. Á einum bænum staldraði eigandinn meira að segja við og hlustaði á okkur í um klukkustund og sagði svo: „Maður heyrir ekki svona fréttir á hverjum degi.“

Við Linda snerum aftur til Tartu og fréttum þá að fleiri vottar hefðu verið handteknir, þar á meðal móðir Lindu. Nú höfðu flestir vina okkar verið handteknir, þar með taldar Emilie og systir hennar. Við vissum að KGB var á höttunum eftir okkur svo við héldum boðunarstarfinu áfram fyrir utan Tartu á tveim reiðhjólum. En nótt eina fundu KGB-menn mig heima hjá Ölmu Vardja sem var þá nýskírð. Þegar þeir skoðuðu vegabréfið mitt sagði einn þeirra: „Ella, við erum búnir að leita að þér út um allt!“ Þetta var 27. desember 1950.

Fangelsuð og send til Síberíu

Við Alma tíndum til smá farangur af ró og stillingu og fengum okkur síðan matarbita. KGB-mennirnir sögðu undrandi: „Þið grátið ekki einu sinni. Þið sitjið bara hérna og matist.“ Við svöruðum: „Við erum á leiðinni á nýtt starfssvæði og vitum ekki hvenær við fáum næst að borða.“ Ég tók með mér teppi sem ég notaði seinna í sokka og vettlinga. Í ágúst 1951, þegar ég hafði verið í fangelsi í allnokkra mánuði, var ég send í útlegð ásamt fleiri vottum frá Eistlandi. *

Við vorum send frá Eistlandi með lest til Leníngrad (nú Sankti Pétursborg) í Rússlandi og þaðan til hinna illræmdu þrælkunarbúða í Vorkuta í Komi sem lá fyrir norðan heimskautsbaug. Í mínum hópi voru þrír vottar. Ég lærði rússnesku í skóla og hafði verið að æfa mig í tungumálinu frá því ég var handtekin. Þegar við komum í búðirnar gat ég því talað ágæta rússnesku.

Í Vorkuta hittum við unga úkraínska konu sem hafði gerst vottur í fangabúðum nasista í Póllandi. Árið 1945 var hún sett ásamt 14 vottum um borð í skip sem Þjóðverjar ætluðu að sökkva í Eystrasaltinu. Skipið komst hins vegar heilu og höldnu til Danmerkur. Seinna þegar hún sneri aftur til Rússlands var hún handtekin fyrir að prédika og send til Vorkuta. Hún veitti okkur mikla hvatningu og stuðning.

Við hittum líka tvær konur sem spurðu á úkraínsku: „Eru einhverjir vottar Jehóva hérna?“ Við sáum strax að þetta voru trúsystur okkar. Þær uppörvuðu okkur og önnuðust. Aðrir fangar höfðu á orði að það væri eins og fjölskyldan biði okkar við komuna í búðirnar.

Flutt í búðir í Mordovíju

Í desember 1951 leiddi læknisrannsókn í ljós að ég var með skjaldkirtilssjúkdóm. Ég var því flutt um 1500 kílómetra í suðvestur í hina gríðarstóru fangabúðaþyrpingu í Mordovíju, um 400 kílómetra suðaustur af Moskvu. Næstu árin hitti ég votta frá Þýskalandi, Ungverjalandi, Póllandi og Úkraínu í kvennabúðunum þar sem mér var haldið. Ég hitti líka Maimu sem var pólitískur fangi frá Eistlandi.

Þegar Maimu var í fangelsi í Eistlandi eignaðist hún litla dóttur og vinsamlegur fangavörður lét móður hennar fá barnið. Við kenndum Maimu biblíusannindi í fangabúðunum í Mordovíju og hún tók vel við því sem hún lærði. Hún gat skrifast á við móður sína sem tók líka við sannleika Biblíunnar og kenndi Karin, ungri dóttur Maimu, hann líka. Sex árum síðar var Maimu látin laus og sameinaðist á ný dóttur sinni. Karin giftist síðar trúbróður og þau hafa starfað síðastliðin 11 ár á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Tallinn í Eistlandi.

Í einum búðunum innan fangabúðaþyrpingarinnar var skáli sem var kallaður „búrið“. Þetta var lítill skáli og hans var vel gætt. Ég og sex aðrar systur vorum settar þangað vegna trúar okkar. En jafnvel við þessar aðstæður tókst okkur að handskrifa afrit af greinum úr Varðturninum í smækkaðri mynd og smygla þeim til annarra í nærliggjandi búðum. Ein aðferð sem við notuðum var að gera holu í sápustykki, setja greinina inn í og fylla síðan upp í gatið svo að sápan virtist heil.

Meðan ég var í fangabúðunum í Mordovíju gat ég hjálpað meira en tíu konum að kynnast sannleikanum og taka afstöðu með Guði. En 4. maí 1956 var mér sagt: „Þú ert frjáls ferða þinna og mátt tilbiðja Guð þinn Jehóva.“ Þennan sama mánuð var ég komin heim til Eistlands.

Nærri 50 ár á heimaslóðum

Ég hafði enga vinnu, átti enga peninga og ekkert heimili. En nokkrum dögum eftir heimkomuna hitti ég konu sem hafði áhuga á Biblíunni. Hún leyfði mér að búa hjá sér og manni sínum um tíma í eins herbergis íbúð þeirra. Ég fékk lánaða peninga til að kaupa ull og prjónaði peysur sem ég seldi á markaðinum. Seinna fékk ég vinnu á krabbameinssjúkrahúsinu í Tartu og vann þar við ýmis störf næstu sjö árin. Lembit Toom kom líka heim úr útlegð frá Síberíu og í nóvember 1957 gengum við í hjónaband.

KGB fylgdist vel með okkur og við urðum fyrir stöðugri áreitni því boðunarstarfið var enn þá bannað. En við gerðum það sem við gátum til að vitna fyrir öðrum. Lembit sagði frá þessu tímabili í lífi okkar í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. febrúar 1999. Í lok sjötta áratugarins og á þeim sjöunda og áttunda héldu útlægir vottar áfram að snúa heim. Í lok níunda áratugarins voru meira en 700 vottar í Eistlandi. Árið 1991 var starfsemi okkar heimiluð samkvæmt lögum og síðan þá hefur okkur fjölgað í yfir 4100.

Nú eru um 60 ár liðin síðan ég sótti þessa fyrstu leynilegu samkomu sem vottarnir héldu í Eistlandi eftir síðari heimsstyrjöldina. Frá þeim tíma hef ég verið staðráðin í að fylgja hvatningunni: „Treyst Drottni og gjör gott.“ Það er mín reynsla að með því að gera það „mun [hann] veita þér það sem hjarta þitt girnist.“ — Sálmur 37:3, 4.

[Neðanmáls]

^ Annar þeirra var Lembit Toom en frásaga hans birtist í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. febrúar 1999.

^ Sjá Vaknið! (enskri útgáfu) 22. febrúar 1999, bls. 12-13 þar sem nánar er fjallað um þetta mót.

^ Flestir vottar í Eistlandi höfðu verið sendir í útlegð í byrjun apríl 1951. Sjá Vaknið! (enska útgáfu) 22. apríl 2001, bls. 6-8 og myndbandið Faithful Under Trials — Jehovah’s Witnesses in the Soviet Union.

[Innskot á blaðsíðu 23]

„Byrjum núna strax að boða fagnaðarerindið og förum yfir allt Eistland.“ — Linda Mettig

[Mynd á blaðsíðu 24]

Ég ásamt níu vottum í fangabúðunum í Mordovíju.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Ég og Lembit, eignmaður minn.