Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dó Jesús á krossi?

Dó Jesús á krossi?

Sjónarmið Biblíunnar

Dó Jesús á krossi?

KROSSINN er meðal þeirra trúartákna sem menn þekkja hvað best. Milljónir manna bera lotningu fyrir krossinum. Þeir álíta hann heilagan enda telja þeir að Jesús hafi dáið á krossi. Rómversk-kaþólskur rithöfundur og fornleifafræðingur að nafni Adolphe-Napoleon Didron sagði: „Krossinn hefur verið tilbeðinn með svipuðum hætti og Kristur, ef ekki eins. Menn dá og dýrka þetta helga tré næstum eins og Guð sjálfur ætti í hlut.“

Sumir segja krossinn hjálpa sér að finna fyrir nálægð Guðs þegar þeir biðja. Aðrir telja að krossinn veiti þeim vernd gegn því illa og nota hann sem verndargrip. En ættu kristnir menn að bera lotningu fyrir krossinum? Dó Jesús á krossi í raun og veru? Hvað kennir Biblían um það?

Hvað táknar krossinn?

Löngu fyrir daga kristninnar notuðu Forn-Babýloníumenn krossa sem tákn við tilbeiðsluna á frjósemisguðinum Tammúsi. Notkun krossins við tilbeiðslu barst síðan til Egyptalands, Indlands, Sýrlands og Kína. Og öldum síðar spilltu Ísraelsmenn tilbeiðslunni á Jehóva með því að falla fram fyrir falsguðinum Tammúsi. Í Biblíunni er sagt að tilbeiðsla af þessu tagi sé ‚svívirðing‘. — Esekíel 8:13, 14.

Guðspjallaritararnir Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes nota gríska orðið staurosʹ um aftökutólið sem Jesús dó á. * (Matteus 27:40; Markús 15:30; Lúkas 23:26) Orðið staurosʹ er notað um uppréttan staur eða stólpa. Í bókinni The Non-Christian Cross eftir J. D. Parsons segir: „Í hinum mörgu ritum, sem mynda Nýja Testamentið, er ekki að finna eina einustu setningu í frumgríska textanum sem gefur svo mikið sem óbeina vísbendingu um að staurosʹ, sem Jesús dó á, hafi verið nokkuð annað en venjulegur staurosʹ og þaðan af síður að hann hafi verið tvö tré, en ekki eitt, negld saman svo að þau mynduðu kross.“

Í Postulasögunni 5:30 notar Pétur postuli gríska orðið xylon sem samheiti staurosʹ. Orðið merkir ‚tré‘ og gefur til kynna uppréttan bjálka eða tré án þverbjálka. Það var ekki fyrr en um 300 árum eftir dauða Jesú að sumir sem sögðust kristnir komu þeirri hugmynd á framfæri að Jesús hefði verið líflátinn á krossi. En þessa hugmynd má rekja til arfsagna og mistúlkunar orðsins staurosʹ. Það er eftirtektarvert að sjá má stakan tréstólpa á sumum fornum teikningum sem sýna rómverskar aftökur.

„Gætið yðar fyrir skurðgoðunum“

Fyrir sannkristna skiptir meira máli hvort viðeigandi sé að bera lotningu fyrir aftökutólinu sem notað var til að lífláta Jesú. Gildir þá einu hvort það var lóðréttur kvalastaur úr einum trjábút, kross, spjót, hnífur eða örvar. Væri viðeigandi að nota þess konar tól við tilbeiðslu?

Setjum sem svo að ástvinur þinn hafi verið myrtur á hrottalegan hátt og morðvopnið lagt fram sem sönnunargagn fyrir dómara. Myndirðu reyna að eignast morðvopnið, ljósmynda það og fjölfalda til dreifingar? Myndirðu búa til eftirlíkingar af því í mörgum stærðum? Myndirðu síðan hanna skartgripi úr eftirlíkingunum? Eða myndirðu láta framleiða slíkar eftirmyndir í stórum stíl og selja vinum og ættingjum til þess að þeir geti dáð þær og dýrkað? Sennilega myndi þig hrylla við tilhugsuninni. En þetta er nákvæmlega það sem fólk hefur gert við krossinn.

Þar að auki er enginn greinarmunur á því að nota kross eða líkneski við tilbeiðslu. Biblían fordæmir það. (2. Mósebók 20:2-5; 5. Mósebók 4:25, 26) Orð Jóhannesar postula til trúbræðra sinna endurspegla nákvæmlega kenningar sannrar kristni. Hann sagði í viðvörunartón: „Gætið yðar fyrir skurðgoðunum.“ (1. Jóhannesarbréf 5:21) Þeir gerðu það jafnvel þótt það kostaði þá lífið í hringleikahúsum Rómverja.

Kristnir menn á fyrstu öldinni mátu samt fórnardauða Krists mjög mikils. Og þó að sannkristnir menn nú á dögum tilbiðji ekki tólið sem var notað til að pynda og lífláta Jesú minnast þeir samt dauða hans því að það er með dauða hans sem Guð veitir ófullkomnum mönnum hjálpræði. (Matteus 20:28) Þessi mesta kærleiksgjöf Guðs mun veita þeim sem unna sannleikanum endalausa blessun, meðal annars von um eilíft líf. — Jóhannes 17:3; Opinberunarbókin 21:3, 4

[Neðanmáls]

^ Íslenska orðið staur er skylt gríska orðinu staurosʹ. — Sjá Íslenska orðsifjabók.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Á fornum teikningum, sem sýna rómverskar aftökur, má sjá stakan tréstólpa.

[Credit line]

Rare Books Division, The New York Public Library, Astor, Lenox and Tilden Foundations