Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar siðferði hrakaði snögglega

Þegar siðferði hrakaði snögglega

Þegar siðferði hrakaði snögglega

HVENÆR myndirðu segja að siðferði hafi tekið að hnigna stórlega? Eftir að þú fæddist eða á æviskeiði eldri ættingja eða vina? Sumir segja að fyrri heimsstyrjöldin, sem hófst árið 1914, hafi verið upphaf siðferðilegrar hnignunar sem á sér enga hliðstæðu í sögunni. Robert Wohl, prófessor í sagnfræði, skrifaði í bók sinni The Generation of 1914: „Þeir sem lifðu stríðið losnuðu aldrei við þá tilfinningu að einn heimur hefði endað og annar gengið í garð í ágúst 1914.“

„Almennar reglur um félagslegt atferli, sem voru þegar á undanhaldi alls staðar, voru nú hafðar að engu,“ segir sagnfræðingurinn Norman Cantor. „Stjórnmálamenn og hershöfðingjar höfðu komið fram við þær milljónir, sem þeir réðu yfir, eins og dýr leidd til slátrunar. Gátu þá nokkrar trúar- eða siðareglur komið í veg fyrir að menn sýndu hver öðrum dagsdaglega sams konar grimmd og villidýr frumskógarins? . . . Blóðbað fyrri heimsstyrjaldarinnar [1914-18] gerði mannslífið einskis virði.“

Enski sagnfræðingurinn H. G. Wells sagði í viðamiklu verki sínu, The Outline of History, að „veruleg siðspilling hafi fylgt“ í kjölfar þess að þróunarkenningin öðlaðist almenna viðurkenningu. Hvers vegna? Sumir töldu að maðurinn væri aðeins háþróað dýr. Wells, sem var þróunarsinni, skrifaði árið 1920: „Þeir ákváðu að maðurinn væri félagslynt dýr eins og indverski villihundurinn . . . , og því fannst þeim rétt að stóru hundarnir í mannahópnum mættu kúga og sigra.“

Fyrri heimsstyrjöldin hafði augljóslega hrikaleg áhrif á siðferðisvitund fólks, eins og Cantor benti á. Hann sagði: „Allt sem eldri kynslóðin stóð fyrir var dregið í efa — stjórnmál hennar, klæðaburður og siðferðisafstaða.“ Kirkjurnar áttu stóran þátt í hnignuninni. Þær afskræmdu kenningar kristninnar með því að styðja þróunarkenninguna og hvetja andstæðar fylkingar til dáða. Breski undirforinginn Frank Crozier skrifaði: „Kristnu kirkjurnar eru harðduglegar við að æsa upp blóðþorsta manna og við notuðum þær óspart.“

Siðferðisreglum kastað fyrir róða

Mikill uppgangur var á áratugnum eftir fyrri heimsstyrjöldina. Gömul gildi og siðferðishömlur voru þá látin lönd og leið en í staðinn kom sá hugsunarháttur að allt væri leyfilegt. Sagnfræðingurinn Frederick Lewis Allen sagði: „Það er vel við hæfi að kalla áratuginn eftir stríðið áratug ósiðanna. . . . Með gömlu skipaninni voru horfin ákveðin gildi sem höfðu auðgað lífið og gefið því tilgang, og ný gildi voru ekki auðfundin.“

Heimskreppan mikla á fjórða áratugnum og fátæktin, sem fylgdi henni, hafði í för með sér nokkra vitundarvakningu. En í lok þess áratugar var skollið á annað stríð — seinni heimsstyrjöldin — sem olli enn meiri tortímingu og eyðileggingu en sú fyrri. Þjóðirnar fóru að búa til hin ógurlegustu eyðingarvopn og það batt skjótan endi á heimskreppuna en steypti heimsbyggðinni í staðinn út í ólýsanlegar þjáningar og hrylling. Við lok stríðsins voru hundruð borga rústir einar, þar af tvær í Japan sem báðum var eytt með atómsprengju. Milljónir létu lífið í skelfilegum fangabúðum. Um fimmtíu milljónir karla, kvenna og barna lágu í valnum.

Við þær óhugnanlegu aðstæður, sem fylgdu seinni heimsstyrjöldinni, tók fólk að setja sér sínar eigin hegðunarreglur í stað þess að fylgja gamalgrónum siðgæðisreglum. Í bókinni Love, Sex and War — Changing Values, 1939-45 segir: „Svo virtist sem kynferðishömlur hefðu verið felldar úr gildi meðan á stríðinu stóð þegar taumleysið, sem þótti sjálfsagt á vígvellinum, tók völdin á heimavígstöðvunum. . . . Ákafi og spenna stríðsins losaði um siðferðishömlur og lífið heima fyrir virtist jafn stutt og lítils virði og það var á vígvellinum.“

Lífshættan, sem vofði stöðugt yfir, jók þrá fólks eftir ást og hlýju, jafnvel þótt skammvinn væri. Bresk húsmóðir sagði til að réttlæta kynferðislegt lauslæti þessara átakanlegu ára: „Við vorum eiginlega ekki siðlaus, þetta voru bara stríðstímar.“ Bandarískur hermaður viðurkenndi: „‚Að mati flestra vorum við siðlaus en við vorum ung og gátum dáið á morgun.‘“

Margir sem lifðu stríðið af báru merki þess hryllings sem þeir urðu vitni að. Sumir þeirra, margir hverjir á barnsaldri á stríðsárunum, verða fyrir því enn þann dag í dag að þeim finnst þeir vera að endurlifa ósköpin. Margir misstu trúna og um leið töpuðu þeir áttum í siðferðismálum. Þegar ekkert æðra vald var eftir til að ákveða hvað væri rétt og rangt fór fólk að líta á allt sem afstætt.

Ný viðmið

Eftir seinni heimsstyrjöldina voru birtar ýmsar skýrslur um kynhegðun fólks. Ein þeirra var Kinsey-skýrslan sem var meira en 800 blaðsíður og kom út í Bandaríkjunum á fimmta áratugnum. Í kjölfarið fóru margir að tala opinskár um kynferðismál en áður hafði þekkst. Síðar kom reyndar í ljós að tölfræðilegar upplýsingar um samkynhneigð og aðra afbrigðilega kynhegðun höfðu verið ýktar. Engu að síður sýndi skýrslan fram á að siðferði hafði hrakað verulega eftir stríðið.

Reynt var um tíma að halda uppi almennu velsæmi á yfirborðinu. Til dæmis var haft eftirlit með því að ekki væri ósiðlegt efni í útvarpi, kvikmyndum og sjónvarpi. En það entist ekki lengi. William Bennett, fyrrverandi menntamálaráðherra Bandaríkjanna, segir: „Á sjöunda áratugnum hófst hins vegar hröð og samfelld afsiðun í Bandaríkjunum.“ Sömu sögu er að segja annars staðar í heiminum. Hvers vegna færðist siðferðishnignunin í aukana á sjöunda áratugnum?

Á þessum áratug fór kvenfrelsishreyfingin af stað og næstum samtímis hófst kynlífsbyltingin með hinu svokallaða nýja siðgæði. Auk þess komu á markað áhrifaríkar getnaðarvarnarpillur. Þegar hægt var að stunda kynlíf án þess að þurfa að óttast getnað urðu „frjálsar ástir“ eða „kynlíf án skuldbindinga“ daglegt brauð.

Á sama tíma var losað um siðferðishömlur í prentmiðlum, kvikmyndum og sjónvarpi. Zbigniew Brzezinski, fyrrverandi yfirmaður Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, segir um þau gildi sem hampað var í sjónvarpinu á þessum tíma: „Þau gengu greinilega út á það að fólk fullnægði löngunum sínum, að gróft ofbeldi og hrottaskapur væri eðlilegur hlutur, [og] þau hvöttu til lauslætis í kynferðismálum.“

Á áttunda áratugnum náðu myndbandstæki miklum vinsældum. Nú gat fólk setið heima í stofu og horft á siðlaust og djarft efni sem það hefði aldrei vogað sér að horfa á í kvikmyndahúsi svo aðrir sæju til. Og nú er svo komið að hver sem hefur aðgang að tölvu getur nálgast klám af verstu gerð í gegnum Netið.

Afleiðingarnar eru að mörgu leyti ógnvekjandi. Fangavörður í bandarísku fangelsi sagði nýverið: „Þegar ungt fólk kom hingað inn af götunni fyrir tíu árum gat ég talað við það um hvað væri rétt og rangt. En unga fólkið sem kemur núna skilur ekki hvað ég er að tala um.“

Hvar er leiðsögn að fá?

Við getum tæplega fengið siðferðilega leiðsögn hjá kirkjum heimsins. Í stað þess að halda uppi réttlátum meginreglum, líkt og Jesús og fylgjendur hans gerðu á fyrstu öld, eru kirkjurnar orðnar hluti af þessum heimi og spillingu hans. Rithöfundur einn spurði: „Hvaða stríð hefur verið háð þar sem Guð var ekki talinn styðja andstæðar fylkingar?“ Prestur í New York minntist fyrir mörgum árum á þær siðferðiskröfur sem kirkjan gerir og sagði: „Kirkjan er eina stofnunin í heiminum þar sem gerðar eru minni kröfur til nýrra meðlima en gerðar eru til þeirra sem ganga inn í strætisvagn.“

Ljóst er að siðferðishrunið í heiminum er svo alvarlegt að grípa þarf til skjótra aðgerða. En hvað er til ráða? Hvaða breytinga er þörf? Hver getur komið þeim til leiðar og hvernig verður það gert?

[Innskot á blaðsíðu 5]

„Blóðbað fyrri heimsstyrjaldarinnar [1914-18] gerði mannslífið einskis virði.“

[Rammi á blaðsíðu 6]

DYGGÐIR EÐA GILDISMAT?

Einu sinni fór ekki á milli mála hvað taldist vera dyggð. Annaðhvort var maður heiðarlegur, trúr, siðsamur og sómakær eða ekki. Núna hefur persónubundið gildismat komið í staðinn fyrir dyggðir. En þessum breytingum fylgir viss vandi. Sagnfræðingurinn Gertrude Himmelfarb bendir á það í bók sinni The De-Moralization of Society: „Það er ekki hægt að segja það sama um dyggðir og hægt er að segja um gildismat, . . . að hver og einn geti ákveðið fyrir sig hvað sé dyggð.“

Gertrude segir að gildismat „geti verið skoðanir, trú, viðhorf, tilfinningar, vani, siðvenjur, smekkur, fordómar og jafnvel sérviska — hvaðeina sem þjóðfélagið, hópur fólks eða einstaklingurinn telur verðmætt á hverjum tíma af einhverri ástæðu.“ Í frjálslyndu þjóðfélagi nútímans finnst fólki jafn eðlilegt að velja sér sín eigin gildi eins og að velja sér matvörur í stórmarkaðinum. En þegar ástandið er svona hvað verður þá um sannar dyggðir og gott siðferði?

[Mynd á blaðsíðu 6, 7]

Það verður sífellt auðveldara að nálgast siðspillandi afþreyingarefni.