Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hætta sem varðar alla foreldra

Hætta sem varðar alla foreldra

GUÐRÚN og Gunnar eru hress og hamingjusöm hjón og eiga skýran og heilbrigðan þriggja ára son. * Þau hugsa vel um drenginn. En það er hægara sagt en gert í heimi nútímans, og því fylgja alls konar áhyggjur og skyldur. Það þarf að kenna börnunum svo margt. Eitt er þó sérstaklega mikilvægt í huga þeirra Guðrúnar og Gunnars. Þau vilja vernda drenginn fyrir kynferðislegri misnotkun. Af hverju er þetta þeim svona ofarlega í huga?

„Pabbi var kuldalegur og reiður drykkjumaður,“ segir Guðrún. „Hann barði mig hrottalega og misnotaði okkur systurnar kynferðislega.“ * Flestir eru á einu máli um að slíkt ofbeldi geti haft gríðarleg áhrif á tilfinningalíf barna. Það er engin furða að Guðrún skuli vera staðráðin í að vernda son sinn. Og Gunnar er sama sinnis.

Margir foreldrar hafa áhyggjur af kynferðislegri misnotkun á börnum. Ef til vill ert þú í þeirra hópi. Þú hefur kannski ekki kynnst slíku af eigin raun og þekkir ekki afleiðingar þess, líkt og þau Gunnar og Guðrún, en vafalítið hefurðu heyrt uggvænlegar fréttir af því hve útbreitt þetta óhugnanlega ofbeldi er. Umhyggjusamir foreldrar út um allan heim eru slegnir yfir því sem börn mega þola á heimaslóðum þeirra.

Sérfræðingur, sem hefur rannsakað kynferðislega misnotkun, kallar misnotkun á börnum „einhverja dapurlegustu uppgötvun okkar tíma“. Það er auðvitað sorglegt að annað eins skuli eiga sér stað en ætti það að koma á óvart? Þeir sem hafa kynnt sér Biblíuna vita að hún segir að við séum uppi á erfiðu tímabili sem kallað er ‚síðustu dagar‘ og þetta tímabil einkennist meðal annars af því að fólk er ‚grimmt, sérgott og kærleikslaust‘. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

Kynferðislegt ofbeldi og misnotkun er háalvarlegt mál. Það er ekki nema eðlilegt að foreldrum fallist hendur þegar þeim verður hugsað til mannvonsku þeirra sem leita uppi börn til að níðast á með þessum hætti. En er vandinn slíkur að hann sé foreldrum ofviða? Eða geta foreldrar gert raunhæfar ráðstafanir til að vernda börnin sín? Við lítum nánar á málið í næstu greinum.

^ Nöfnum hefur verið breytt í þessari greinasyrpu.

^ Það telst kynferðisleg misnotkun á barni ef fullorðin manneskja notar það með einhverjum hætti til að fullnægja kynferðislegum löngunum sínum. Það getur oft falist í því að þukla á kynfærum eða þá í munnmökum, endaþarmsmökum eða öðru samræði. Kynferðisleg misnotkun getur einnig birst í því að þukla á brjóstum, koma með siðlausar uppástungur og sýna barni klámfengið efni, eða þá í gægjuhneigð og strípihneigð.