Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver er höfundur Biblíunnar?

Hver er höfundur Biblíunnar?

Sjónarmið Biblíunnar

Hver er höfundur Biblíunnar?

Í BIBLÍUNNI kemur greinilega fram hverjir skrifuðu hana. Sumar biblíubækur byrja á setningum eins og „frásögn Nehemía,“ „vitrun Jesaja“ og „orð Drottins, sem kom til Jóels“. (Nehemía 1:1; Jesaja 1:1; Jóel 1:1) Gað, Natan og Samúel eru sagðir hafa skráð tilteknar frásagnir. (1. Kroníkubók 29:29) Í yfirskrift nokkurra sálma er getið um hver hafi samið þá. — Sálmur 79, 88, 89, 90, 103 og 127.

Þar sem menn voru notaðir til að skrifa Biblíuna segja efasemdarmenn að hún sé einfaldlega byggð á mannlegri visku eins og hver önnur bók. En er sú skoðun reist á traustum grunni?

Fjörutíu ritarar, einn höfundur

Flestir biblíuritarar viðurkenndu að þeir skrifuðu í nafni Jehóva, hins eina sanna Guðs, og að þeir hafi fengið leiðbeiningar frá honum eða englum sem vitruðust þeim fyrir hans hönd. (Sakaría 1:7, 9) Spámenn, sem rituðu Hebresku ritningarnar, lýstu yfir oftar en 300 sinnum: „Svo segir Drottinn.“ (Amos 1:3; Míka 2:3; Nahúm 1:12) Margir þeirra hefja frásagnir sínar eitthvað á þessa leið: „Orð Drottins, sem kom til Hósea.“ (Hósea 1:1; Jónas 1:1) Og Pétur postuli sagði: „Töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda,“ og átti þá við spámenn Guðs. — 2. Pétursbréf 1:21.

Biblían er því samsett bók en engu að síður samhljóða. Hún var rituð af mörgum mönnum sem viðurkenndu að Guð stæði á bak við skrif þeirra. Með öðrum orðum notaði Guð menn sem ritara til að skrifa niður það sem honum hugnaðist. Hvernig fór hann að því?

„Innblásin af Guði“

„Sérhver ritning er innblásin af Guði,“ sagði Páll postuli. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Gríska orðið, sem er þýtt „innblásin af Guði“, merkir bókstaflega „andaður af Guði“. Guð notaði ósýnilegan kraft til að stýra hugsun ritaranna og koma boðum sínum á framfæri. Hins vegar ritaði Jehóva sjálfur boðorðin tíu á steintöflur. (2. Mósebók 31:18) Stundum talaði Guð milliliðalaust til jarðneskra þjóna sinna það sem þeir áttu að skrifa. Í 2. Mósebók 34:27 segir: „Drottinn sagði við Móse: ‚Skrifa þú upp þessi orð.‘“

Við önnur tækifæri lét Guð menn sjá sýnir sem hann vildi að þeir færðu í letur. Esekíel sagði til dæmis: „Ég sá guðlegar sýnir.“ (Esekíel 1:1) Sömuleiðis „dreymdi Daníel draum, og sýnir bar fyrir hann í rekkju hans. Síðan skrásetti hann drauminn.“ (Daníel 7:1) Á svipaðan hátt fékk Jóhannes postuli boð um að rita Opinberunarbókina, síðustu bók Biblíunnar. Hann skrifaði: „Ég var hrifinn í anda á Drottins degi og heyrði að baki mér raust mikla, sem lúður gylli, er sagði: ‚Rita þú í bók það sem þú sérð.‘“ — Opinberunarbókin 1:10, 11.

Mannlegi þátturinn

Innblásturinn frá Guði hindraði ekki að einstaklingseðli ritaranna kæmi fram. Menn þurftu að leggja talsvert á sig til að skrásetja boðskap Guðs. Til dæmis sagði ritari Prédikarans að hann hefði ‚leitast við að finna fögur orð, og það sem hann hafi skrifað í einlægni væru sannleiksorð‘. (Prédikarinn 12:10) Þegar Esra tók saman sögulegt yfirlit sitt leitaði hann að minnsta kosti fanga í 14 söguheimildum, eins og „í árbókum Davíðs konungs“ og „í bókum Júda- og Ísraelskonunga“. (1. Kroníkubók 27:24; 2. Kroníkubók 16:11) Guðspjallamaðurinn Lúkas athugaði „kostgæfilega allt . . . frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu“. — Lúkas 1:3.

Sumar biblíubækurnar varpa ljósi á persónueinkenni ritaranna. Til dæmis voru tölur ofarlega í huga Matteusar Leví en hann var tollheimtumaður áður en hann gerðist lærisveinn Jesú. Hann er sá eini af riturum guðspjallanna sem greinir frá því að Jesús hafi verið svikinn fyrir ‚þrjátíu silfurpeninga‘. (Matteus 27:3; Markús 2:14) Lúkas, sem var læknir, skráði af nákvæmni læknisfræðileg atriði. Þegar hann lýsti til dæmis ástandi nokkurra þeirra sem Jesús læknaði notaði hann lýsingar eins og „altekin sótthita“ og „altekinn líkþrá“. (Lúkas 4:38; 5:12; Kólossubréfið 4:14) Jehóva leyfði biblíuriturunum oft að tjá sig með eigin orðum og stíl en stýrði um leið huga þeirra svo að textinn yrði nákvæmur og flytti boðskap hans. — Orðskviðirnir 16:9

Árangurinn

Gegnir það ekki furðu að á meira en 1600 ára tímabili skuli 40 menn í ýmsum löndum hafa skrifað algerlega samhljóða bók sem hefur að geyma yndislegt heildarstef? (Sjá „Um hvað fjallar Biblían?“ bls. 19.) Það væri ógerlegt nema einn höfundur stýrði öllum riturunum.

Þurfti Jehóva að nota menn til að skrifa orð sitt? Nei, en það vitnar um visku hans. Ein af ástæðunum fyrir alþjóðlegri hylli Biblíunnar er sú að ritarar hennar lýsa á sannfærandi hátt öllum sviðum mannlegra tilfinninga — jafnvel sekt iðrandi syndara sem grátbað Guð um miskunn eins og Davíð konungur. — Sálmur 51:4-6, 15, 19, yfirskrift.

Þótt Jehóva hafi notað menn sem ritara getum við borið sama traust til verka þeirra og frumkristnir menn gerðu. Þeir tóku við Heilagri ritningu „ekki . . . sem manna orði, heldur sem Guðs orði, — eins og það í sannleika er“. — 1. Þessaloníkubréf 2:13.

HEFURÐU HUGLEITT?

◼ Hver er höfundur ‚sérhverrar ritningar‘? — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

◼ Hvernig hefur Jehóva Guð komið boðum sínum til manna? — 2. Mósebók 31:18; 34:27; Esekíel 1:1; Daníel 7:1.

◼ Hvernig kemur persónuleiki og áhugasvið hinna innblásnu ritara fram í skrifum þeirra? — Matteus 27:3; Lúkas 4:38.