Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur bætt minnisgáfuna

Þú getur bætt minnisgáfuna

Þú getur bætt minnisgáfuna

„Minnið gefur lífinu gildi. Án þess væri veröld okkar samhengislaus og á hverjum morgni blasti við okkur ókunnugt andlit í speglinum. Hver einasti dagur og atburður ævinnar liði án samhengis við nokkuð annað og við gætum hvorki lært af því sem liðið er né litið fram til hins ókomna.“ — „MYSTERIES OF THE MIND.“

HVERNIG stendur á því að sumir fuglar geta munað eftir því í marga mánuði hvar þeir geymdu fræ til vetrarins og íkornar geta munað hvar þeir grófu niður hnetur, en við eigum það til að gleyma hvar við lögðum frá okkur lyklana fyrir klukkutíma? Já, mörg okkar kvarta undan gloppum í minninu. Þó býr mannsheilinn yfir undraverðum hæfileika til að læra og muna þrátt fyrir að hann sé ófullkominn. Galdurinn er bara að nýta sem best það sem við höfum.

Ótrúlegur hæfileiki

Mannsheilinn er tæplega eitt og hálft kíló að þyngd og ekki mikið stærri en greipaldin. Samt hefur hann á að skipa um 100 milljörðum taugafrumna eða taugunga sem hver um sig myndar afar flókið net. Einn einasti taugungur getur tengst 100.000 öðrum. Þetta net gerir heilanum kleift að vinna úr og geyma gríðarlegt magn upplýsinga. Þrautin er bara að muna þær þegar maður þarf á þeim að halda. Sumir eru sérstaklega færir í þessu, þar á meðal er fólk með litla eða enga skólagöngu að baki.

Sem dæmi má nefna sagnamennina í Vestur-Afríku. Þótt þeir kunni hvorki að lesa né skrifa geta þeir geymt í minni sér nöfn heimamanna margar kynslóðir aftur í tímann. Það var slíkum sagnamönnum að þakka að rithöfundurinn Alex Haley, sem fékk Pulitzerverðlaunin fyrir bókina Roots (Rætur), gat kannað ættarsögu sína í Gambíu sex ættliði aftur í tímann. Hann sagði: „Ég stend í mikilli þakkarskuld við sagnamenn í Afríku, en sagt er með réttu að þegar einn sagnamaður deyr sé eins og heilt bókasafn brenni til grunna.“

Einnig má nefna Arturo Toscanini, þekktan ítalskan hljómsveitarstjórnanda, sem var „uppgötvaður“ 19 ára gamall þegar hann var beðinn um að leysa af annan stjórnanda. Hann gat stjórnað óperunni Aidu eins og hún lagði sig þrátt fyrir slæma sjón því að hann mundi hana utanbókar.

Við undrumst slík afrek. Þó geta flestir lagt mun meira á minnið en þeir ímynda sér. Langar þig til að auka minnisgetuna?

Bættu minnisgáfuna

Það má skipta minnisgáfunni í þrjú stig: að umrita, geyma og sækja. Heilinn umritar og skráir upplýsingar um leið og hann fær þær. Þá getur hann geymt þær og sótt seinna. Við gleymum þegar eitt af þessum þrem stigum minnisins bregst.

Sjálft minnið hefur verið flokkað meðal annars í skynminni, skammtímaminni og langtímaminni. Skynminnið nemur upplýsingar gegnum skynfærin, svo sem lyktarskyn, sjón og snertiskyn. Skammtímaminnið eða vinnsluminnið geymir takmarkað magn upplýsinga í stutta stund. Þess vegna getum við til dæmis munað símanúmer nógu lengi til að geta hringt í það og fyrri hluta setningar á meðan við lesum eða hlustum á seinni hlutann. En eins og við vitum eru skammtímaminninu takmörk sett.

Ef við viljum geyma upplýsingar til frambúðar þurfum við að koma þeim í langtímaminnið. Hvernig förum við að því? Eftirfarandi atriði geta komið að gagni.

Áhugi Vektu hjá þér áhuga á efninu og minntu þig á hvers vegna þú vilt kunna það. Þú þekkir líklega af reynslunni að maður man betur það sem hreyfir við tilfinningunum. Þetta getur hjálpað biblíunemendum mikið. Þegar þeir lesa Biblíuna með tvö markmið í huga — að nálægja sig Guði og að hjálpa öðrum að kynnast honum — eiga þeir mun auðveldara með að muna það sem þeir lesa. — Orðskviðirnir 7:3; 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Athygli „Oftast má rekja það til athyglisskorts þegar við gleymum einhverju,“ segir í bókinni Mysteries of the Mind. Hvað getur hjálpað okkur að halda athyglinni? Áhugi og að skrifa hjá okkur minnispunkta þar sem því verður við komið. Að skrifa minnispunkta hjálpar okkur að halda huganum við efnið. Og það gerir okkur einnig kleift að rifja upp síðar það sem við heyrðum.

Skilningur Það er erfitt að muna hugtak eða kenningu sem maður skilur ekki. Skilningur varpar ljósi á tengsl hluta og bindur þá saman í rökrétta heild. Til dæmis á nemandi í vélfræði auðveldara með að muna einstök atriði um ákveðna vél þegar hann skilur hvernig hún virkar.

Skipulag Flokkaðu saman hugmyndir og hugtök sem tengjast innbyrðis. Það er til að mynda auðveldara að muna innkaupalista ef við flokkum hlutina — kjötvörur, ávexti og svo framvegis. Það er líka gott að skipta upplýsingunum niður í viðráðanlegar einingar með hámark fimm til sjö hluti í hverri einingu. Símanúmerum er venjulega skipt í tvennt svo auðveldara sé að muna þau. Og að lokum getur verið ágætt að raða listanum í ákveðna röð, til dæmis stafrófsröð.

Endurtekning Það styrkir tengingarnar milli taugunga að endurtaka upphátt það sem maður vill muna (til dæmis orð eða orðasambönd á erlendri tungu). Hvernig þá? Í fyrsta lagi neyðist maður til að hafa athyglina vakandi fyrir því sem maður segir upphátt. Í öðru lagi er líklegt að sá sem er að kenna manni láti vita strax hvort framburðurinn sé réttur. Og í þriðja lagi virkjar það fleiri heilastöðvar að hlusta —  jafnvel á sjálfan sig.

Ímyndunarafl Búðu til mynd í huganum af því sem þú vilt muna. Þú gætir jafnvel teiknað það á blað. Að sjá hlutina fyrir sér virkjar fleiri heilastöðvar, rétt eins og endurtekningin. Því fleiri skilningarvit sem þú notar þeim mun betur festast upplýsingarnar í minni.

Tengsl Þegar þú lærir eitthvað nýtt skaltu tengja það við eitthvað sem þú kannt fyrir. Það er auðveldara bæði að umrita og sækja það sem hægt er að tengja við aðra minningu. Tengslin verða eins og stikkorð. Prófaðu til dæmis að leggja nafn einhvers á minnið með því að tengja það við eitthvað sérstakt í útliti hans eða eitthvað annað sem getur hjálpað þér að kalla fram nafnið. Því skondnari eða fáránlegri sem tengslin eru þeim mun auðveldara verður að muna það. Í stuttu máli sagt þurfum við að hugsa um það fólk og þá hluti sem okkur langar að muna eftir.

Í bókinni Searching for Memory segir: „Ef við erum oftast með lífið á sjálfstýringu og hugsum lítið um daglegt líf okkar og umhverfi gæti það orðið til þess að við munum aðeins óljóst eftir því hvar við höfum alið manninn og hvað við höfum haft fyrir stafni.“

Að festa sér í minni Gefðu þér tíma til að vinna úr upplýsingunum og leyfa þeim að síast inn í hugann. Ein besta leiðin til þess er að rifja upp það sem þú hefur lært, meðal annars með því að endurtaka það fyrir einhvern. Ef til dæmis eitthvað áhugavert hefur gerst eða þú hefur lesið eitthvað uppörvandi úr Biblíunni eða biblíutengdum ritum skaltu segja einhverjum frá því. Þá hafa báðir gagn af — þú festir það betur í minni og vinur þinn fær uppörvun. Endurtekning er vel þekkt aðferð við að leggja eitthvað á minnið.

Minnistækni — gott hjálpartæki

Mælskumenn í Grikklandi til forna gátu flutt langar ræður án þess að nota minnispunkta. Hvernig fóru þeir að því? Þeir notuðu minnistækni. Minnistækni er ákveðin aðferð eða tækni sem hjálpar manni að festa upplýsingar í langtímaminninu og kalla þær fram þegar á þarf að halda.

Grísku mælskumennirnir notuðu minnistækni sem fólst í því að raða niður hlutum eða staðsetja þá. Gríska ljóðskáldið Símonídes frá Keos var fyrstur manna til að lýsa þessari tækni árið 477 f.Kr. Minnistæknin notar allt í senn skipulagningu, ímyndunaraflið og að tengja við eitthvað kunnuglegt, svo sem kennileiti við veg eða hluti heima hjá manni. Þeir sem nota þessa tækni fara í ímyndaðan göngutúr og tengja hvert atriði, sem þeir ætla að muna, við ákveðin kennileiti eða hluti á leiðinni. Þegar þeir vilja ná aftur í þessi minnisatriði fara þeir einfaldlega aftur í sama göngutúr í huganum. — Sjá rammann „Farðu í ímyndaðan göngutúr.“

Könnun var gerð á fólki sem skaraði fram úr í World Memory Championship (árlegri heimsmeistarakeppni í minnisgáfu). Hún leiddi í ljós að framúrskarandi minni þeirra var ekki vegna þess að þeir væru einstaklega gáfaðir. Þátttakendur voru þar að auki flestir á fimmtugsaldri. Hver var galdurinn á bak við minnisgáfu þeirra? Margir eignuðu hana því að nýta sér vel minnistæknina.

Þarftu að leggja orðalista á minnið? Áhrifarík tækni til þess er að nota upphafsstafaheiti eða að búa til nýtt orð úr fyrsta eða fyrstu stöfum orðanna á listanum. Margir íbúar Norður-Ameríku muna nöfn fimm stórra vatna — Huron, Ontario, Michigan, Erie og Superior — með þessari tækni og mynda úr þeim orðið „HOMES“ (heimili). Griplur eru svipuð minnishjálp. Þær voru mikið notaðar af Hebreum til forna. Í mörgum sálmanna var til dæmis fyrsta orð í hverju versi eða hverjum hluta sálmsins látið byrja á stöfum hebreska stafrófsins í hlaupandi röð. Þessi ágæta minnistækni hjálpaði söngvurum að muna öll 176 versin í Sálmi 119 svo dæmi sé tekið.

Já, þú getur þjálfað og bætt minnisgáfuna. Rannsóknir hafa sýnt að minnisgáfan er eins og vöðvi. Því meira sem við notum hana því sterkari verður hún, jafnvel fram á gamals aldur.

[Rammi á blaðsíðu 27]

NOKKUR HEILRÆÐI

◼ Örvaðu minnið með því að læra eitthvað nýtt svo sem nýtt tungumál eða að leika á hljóðfæri.

◼ Beindu athyglinni að því sem skiptir mestu máli.

◼ Lærðu minnistækni.

◼ Drekktu nægilega mikið vatn. Vökvaskortur getur komið óreiðu á hugann.

◼ Sofðu nægilega mikið. Heilinn raðar minningunum í geymslu meðan þú sefur.

◼ Vertu afslappaður við lestur og nám. Streita eykur framleiðslu hýdrókortisóns, en það getur truflað tengingar taugafrumna.

◼ Reyktu hvorki né notaðu áfengi í óhófi. Áfengi truflar skammtímaminnið og alkóhólismi getur leitt til þíamínskorts, en það er B-vítamín sem er nauðsynlegt til að minnið virki til fulls. Reykingar minnka súrefnisflæði til heilans. *

[Neðanmáls]

^ Byggt á upplýsingum sem komu fram í veftímaritinu Brain & Mind.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 28, 29]

FARÐU Í ÍMYNDAÐAN GÖNGUTÚR

Hvernig geturðu munað innkaupalista með nokkrum hlutum, svo sem brauði, eggjum, mjólk og smjöri? Ef þú notar þá aðferð að staðsetja hluti gætirðu „séð“ þá um leið og þú ímyndar þér að þú gangir um stofuna heima hjá þér.

Sjáðu fyrir þér að stóllinn í stofunni sé með sessu úr brauði

að egg séu að klekjast út undir lampanum

að gullfiskurinn syndi í fiskabúri fullu af mjólk

að búið sé að smyrja smjöri á sjónvarpsskjáinn

Því skondnari eða skrýtnari sem uppröðunin er því betri er hún. Þegar þú kemur í búðina skaltu fara aftur í ímyndaða göngutúrinn um stofuna þína.

[Rammagrein á blaðsíðu 29]

VIÐ MEGUM ÞAKKA FYRIR AÐ GETA GLEYMT

Hugsaðu þér hvernig lífið væri ef þú gleymdir engu — sama hversu ómerkilegt það væri. Heldurðu ekki að hugurinn yrði fullur af alls konar rusli? Kona nokkur, sem mundi nánast allt sem á daga hennar hafði drifið, „lýsti stöðugum endurminningum sínum sem ‚endalausum og óviðráðanlegum‘ og kallaði þær ‚byrði sem drægi úr henni allan kraft‘“. Þetta kemur fram í tímaritinu New Scientist. Sem betur fer eiga fæst okkar við þennan vanda að glíma því að rannsóknarmenn telja að hugurinn búi yfir þeim hæfileika að losa sig við upplýsingar sem skipta ekki máli eða eru orðnar úreltar. Í New Scientist segir: „Skilvirk gleymska er mikilvægur þáttur í því að minnið virki sem skyldi. Þegar við gleymum einhverju sem máli skiptir . . . er það bara sönnun þess að hreinsunin virkar aðeins of vel.“