Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

◼ „Um 160.000 sýningargripa er saknað úr rússneskum söfnum.“ — RIA NOVOSTI, RÚSSLANDI.

◼ „Könnunargeimfarið Phoenix Mars Lander frá Geimferðastofnun Bandaríkjanna hefur orðið vart við snjó sem fellur úr skýjum á Mars.“ — „NASA MISSION NEWS,“ BANDARÍKJUNUM.

◼ „Sextíu og fimm prósent ökumanna og farþega sem deyja í umferðinni á Grikklandi nota hvorki öryggisbelti né hjálma.“ — EIKONES, GRIKKLANDI.

Týndur farangur

Það er alls ekki óalgengt að farangur týnist þegar ferðast er með flugvél. Tímaritið International Herald Tribune greinir frá því að árið 2007 hafi „42 milljónir ferðataskna týnst, en það er 25 prósent meira en árið 2006“. Flestum töskunum var skilað til eigenda sinna innan 48 klukkustunda en 3 prósent þeirra, „ein taska á hverja 2000 flugfarþega, fannst aldrei“. Týndur farangur kostaði flugfélög 3,8 milljarða dollara árið 2007. Ástæðurnar fyrir því að farangur týnist eru meðal annars „þrengsli vegna fjölgunar flugfarþega, stuttur tími sem flugvélar dvelja í höfn,“ slæm meðferð á farangri og merkingarmistök.

Kaþólikkar í óvígðri sambúð

Frönsk könnun bendir til þess að „hnignun trúar“ sé ein ástæðan fyrir breytingum á lífi og gildismati fólks, óháð því hvaða trúarbrögðum það tilheyrir. Þetta kemur fram í tímaritinu Population & Sociétés. Til dæmis segjast um 88 prósent ungra Frakka á aldrinum 18 til 24 vera kaþólikkar en 80 prósent þeirra fara aldrei í kirkju nema til að sækja brúðkaup, skírnir eða jarðarfarir. Hnignun hefðbundinna gilda birtist einnig í fjölskyldulífinu. Fyrir 40 árum var 1 par af hverjum 10 í sambúð áður en það gifti sig. Núna eru það 9 pör af hverjum 10. Og samkvæmt könnuninni „eru 75 prósent kirkjurækinna kaþólikka í sambúð áður en þeir gifta sig“.

Aukin sjálfsvíg meðal indverskra bænda

Dagblaðið The Hindu greinir frá því að frá árinu 2002 hafi meira en 17.000 indverskir bændur svipt sig lífi á ári hverju, oft með því að taka inn meindýraeitur. Meðal vandamálanna, sem bændur standa frammi fyrir, eru þurrkar, fallandi afurðaverð, hækkandi ræktunarkostnaður og erfiðleikar við að fá bankalán. Margir snúa sér því til okurlánara og verða á endanum skuldum vafnir. Til að borga skuldirnar hafa sumir bændur jafnvel gripið til þess ráðs að selja líffæri úr sér. En þegar það bregst og engin önnur lausn virðist í sjónmáli, grípa þúsundir til eina úrræðisins sem þeir þekkja — sjálfsvígs.

Samskipti Nílarkrókódíla áður en þeir klekjast út

„Krókódílaungar tala sama á meðan þeir eru enn í egginu,“ til að samræma hvenær þeir klekjast út, segir í Lundúnablaðinu The Times. Köll Nílarkrókódíla fyrir klak voru tekin upp. Köllin voru síðan spiluð hjá öðrum eggjum. Ungarnir í þeim eggjum svöruðu köllunum og létu eggin hreyfast meira en þeir ungar sem heyrðu ekki köllin. „Þeir sem heyrðu hljóð annarra ófæddra krókódíla samræmdu sig og klöktust allir út á innan við 10 mínútum,“ segir í fréttinni. Egg, sem var haldið í algerri þögn eða heyrðu bara hljóð annað slagið, náðu ekki að klekjast út á sama tíma og hin.