Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fóstureyðing — ekki einföld lausn

Fóstureyðing — ekki einföld lausn

Fóstureyðing — ekki einföld lausn

BILL hafði verið alinn upp í þeirri trú að fóstureyðing væri alvarleg synd og jafngilti morði. En árið 1975 þurfti hann sjálfur að taka ákvörðun um fóstureyðingu og þá snerist honum hugur. Victoria, vinkona hans, varð ófrísk og hann var ekki tilbúinn til að axla þá ábyrgð að kvænast og verða faðir. „Ég var fljótur að velja þægilegu lausnina,“ viðurkennir hann, „og ég sagði Victoriu að hún yrði að láta eyða fóstrinu.“

Það er býsna algengt að fólk velji þægilegu lausnina, eins og Bill kallaði það, þegar um óæskilega þungun er að ræða. Í rannsókn, sem gerð var árið 2003, var áætlað að gerðar væru 42 milljónir fóstureyðinga í heiminum á ári hverju. Konur, sem láta eyða fóstri, eru af öllum kynþáttum og þjóðernum, af alls konar trúaruppruna, öllum tekjuhópum, öllum menntastigum og á öllum aldri frá gelgjuskeiði fram að tíðahvörfum. Hvernig myndir þú bregðast við ef þú yrðir barnshafandi en hefðir ekki ætlað þér að eignast barn? Af hverju velja svo margar konur þann kost að láta eyða fóstri?

„Ég sá enga aðra leið“

„Ég var nýbúin að ganga í gegnum skelfilega þungun og erfiða fæðingu, það var mikil spenna í fjölskyldunni og við áttum í hrikalegum fjárhagserfiðleikum,“ segir 35 ára kona. „Svo varð ég ófrísk aftur sex vikum eftir að ég eignaðist barnið. Við ákváðum að láta eyða fóstri. Mér fannst innst inni að það væri rangt en ég sá enga aðra leið.“

Konur láta eyða fóstri af ýmsum ástæðum. Þær geta verið allt frá fjárhagserfiðleikum til þess að slitnað hefur upp úr sambandi, kannski vegna ofbeldis sem veldur því að konan vill slíta öll tengsl við manninn. Kannski er ástæðan bara sú að barneignir henta ekki áformum konunnar eða hjónanna.

Stundum er fóstureyðing valin til að varðveita mannorð fjölskyldunnar. Sú var ástæðan í einu tilfelli sem læknirinn Susan Wicklund segir frá í bók sinni, This Common Secret — My Journey as an Abortion Doctor. Einn af sjúklingum hennar, sem vildi láta eyða fóstri, viðurkenndi: „Foreldrar mínir eru strangtrúaðir . . . Ef ég eignaðist barn utan hjónabands myndi það spilla mannorði þeirra. Allir vinir þeirra vissu þá að dóttir þeirra hefði syndgað.“

Þá spurði Wicklund: „Gott og vel, þú hefur þá syndgað í þeirra augum en hvernig líta þau á fóstureyðingu?“ Stúlkan svaraði: „Æ já, fóstureyðing. Hún er algerlega ófyrirgefanleg. En hún er illskárri kosturinn vegna þess að hún væri leyndarmál. Vinir [foreldra minna] í kirkjunni vita aldrei af því þó að ég láti eyða fóstri.“

En hvernig sem staðan er er fóstureyðing sjaldan auðveld ákvörðun. Oft er ákaflega sársaukafullt að ákveða að binda enda á þungun. En er fóstureyðing einföld lausn?

Hverjar eru afleiðingarnar?

Árið 2004 var gerð rannsókn á líðan bandarískra og rússneskra kvenna sem höfðu látið eyða fóstri. Í ljós kom að helmingi kvenna af báðum þjóðernum leið illa eftir fóstureyðinguna, en 217 bandarískar konur og 331 rússnesk tóku þátt í rannsókninni. Næstum helmingur rússnesku kvennanna og nálega 80 prósent þeirra bandarísku fundu til „sektarkenndar“ yfir að hafa farið í fóstureyðingu. Rúmlega 60 prósent bandarísku kvennanna ‚gátu ekki fyrirgefið sjálfum sér‘. Af hverju fara þá margar ungar konur í fóstureyðingu fyrst sektarkennd er svona almenn, jafnvel meðal kvenna sem telja sig ekki trúaðar?

Margar láta eyða fóstri vegna þess að þær eru beittar miklum þrýstingi. Foreldrar, maki eða velviljaðir vinir hvetja kannski til fóstureyðingar á þeim forsendum að hún sé skárri kosturinn af tveim illum. Þetta getur leitt konur til þess að taka ákvörðun í fljótræði og að illa yfirveguðu máli. Dr. Priscilla Coleman er sérfræðingur í geðheilsu kvenna eftir fóstureyðingu. Hún segir: „Eftir að spennan og álagið samfara ákvörðuninni og aðgerðinni er liðin hjá fara konurnar að hugsa eðlilega á nýjan leik. Þá sækir oft á þær áköf sektarkennd, hryggð og eftirsjá.“

Eftirsjáin snýst oft um spurninguna: Var bundinn endi á líf sem var kviknað? Í skýrslu starfshóps um rannsóknir á fóstureyðingum í Suður-Dakota í Bandaríkjunum kom fram að margar barnshafandi konur, sem voru að íhuga fóstureyðingu, „létu telja sér trú um að það væri einungis verið að fjarlægja ‚vef‘. Þær sögðu að þær hefðu ekki látið eyða fóstri ef þeim hefði verið sagður sannleikurinn“.

Eftir að hafa fjallað um „sláandi og ákaflega dapurlegan vitnisburð“ 1.940 kvenna sem höfðu látið eyða fóstri segir í niðurstöðum rannsóknarinnar: „Margar þessara kvenna eru reiðar vegna þess að þær syrgja barn sem þeim var sagt að hefði aldrei verið til.“ Þar segir enn fremur að „sálræna áfallið, sem fylgir þeirri vitneskju að maður hafi orðið barninu sínu að bana, hefur skelfileg áhrif á marga“.

Hver er eiginlega sannleikurinn í málinu? Er fóstureyðing ekki annað en að fjarlægja smá vef úr líkama barnshafandi konu? Er ófædda barnið lifandi persóna meðan það er í móðurkviði?

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 4]

FÆÐING EÐA FÓSTUREYÐING

Í rannsókn, sem gerð var árið 2006, var skoðuð saga fjölda kvenna sem urðu barnshafandi á unglingsaldri. Helmingur þeirra ól barnið en hinn helmingurinn lét eyða fóstri. Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að „minni líkur voru á því að þær sem ólu barnið leituðu eftir sálfræðilegri ráðgjöf. Þær áttu sjaldnar í erfiðleikum með svefn og minni líkur voru á að þær reyktu maríúana en konur sem létu eyða fóstri“. — Journal of Youth and Adolescence.

Í annarri skýrslu eru birtar „niðurstöður úr fjórum viðamestu rannsóknum í heimi“ á afleiðingum fóstureyðinga. Hvað leiddu þær í ljós? „Konur, sem vitað er að hafa látið eyða fóstri, eiga oftar við ýmis geðræn vandamál að stríða en konur sem ekki hafa látið eyða fóstri svo vitað sé til.“ — Report of the South Dakota Task Force to Study Abortion — 2005.