Hvenær hefst lífið í móðurkviði?
Hvenær hefst lífið í móðurkviði?
„KYNMÓÐIR mín var sautján ára og komin sjö og hálfan mánuð á leið þegar hún ákvað að láta eyða fóstri með saltlausn,“ sagði Gianna. * „Ég er manneskjan sem hún ætlaði að eyða. En ég lifði í stað þess að deyja.“
Gianna var 19 ára þegar hún sagði það sem stendur hér að ofan. Það var árið 1996 og hún var frammi fyrir bandarískri þingnefnd sem fjallaði um fóstureyðingar. Þegar Gianna hafði þroskast í móðurkviði í sjö og hálfan mánuð voru allir líkamshlutar hennar búnir að taka á sig skýra mynd. Flestir fallast sennilega á að hún hafi verið orðin raunveruleg mannvera því að hún lifði áfram sem slík utan móðurkviðar.
En hvað var þá Gianna þegar hún var fimm vikna gamalt fóstur, aðeins um sentímetri á lengd? Líkamshlutarnir voru vissulega ekki fullmótaðir en grunnurinn að taugakerfinu og heilanum var kominn. Hún var með hjarta sem sló 80 slög á mínútu og dældi blóði um æðar. Fyrst Gianna var orðin mannvera í móðurkviði sjö og hálfs mánaðar gömul, er þá ekki rökrétt að hún hafi verið orðin það fimm vikna — þó að hún hafi ekki verið eins þroskuð á þeim tíma?
Getnaður er kraftaverk
Allir líkamshlutar fósturvísis byrja að myndast við getnað um leið og sáðfruma karlmannsins frjóvgar eggfrumu konunnar. Tækniframfarir hafa gert vísindamönnum kleift að fylgjast með þeim undraverðu breytingum sem eiga sér stað í kjarna þessa frjóvgaða eggs sem er ekki nema ein fruma. Sameindirnar, sem mynda kjarnsýru (erfðaefni) foreldranna, sameinast til að mynda mannslíf sem hefur aldrei verið til áður.
Þessi eina fruma hefst síðan handa við það undursamlega ferli að mynda fullburða manneskju. Genin, sem eru bútar á kjarnsýrukeðjunni, stjórna því hvernig þessi „smíði“ gengur fyrir sig. Þau ráða nánast að öllu leyti hvernig við verðum. Þau stjórna hæð, andlitsfalli, lit augna og hárs og þúsundum annarra einkenna.
Þegar fyrsta fruman tekur að skipta sér er búið til afrit af „vinnuteikningunum“ sem fylgja hverri einustu frumu sem verður til. Og hver einasta fruma er þannig forrituð, svo undravert sem það er, að hún getur myndað
allar þær frumugerðir sem líkaminn þarf. Þetta eru meðal annars hjarta-, heila-, bein- og húðfrumur, og meira að segja gagnsær vefur augans. „Forritunin“, sem á sér stað í fyrstu frumunni og myndar nýjan einstakling, hefur af skiljanlegum ástæðum verið kölluð hreint kraftaverk.„Mannveran er forrituð að fullu á einfrumustiginu til að vaxa og þroskast alla ævi.“ Þetta segir dr. David Fu-Chi Mark en hann er virtur sameindalíffræðingur. Hann heldur áfram: „Það leikur enginn vafi á því lengur að hver einasti maður er algerlega einstakur allt frá því að líf hans hefst við frjóvgun.“
Mannvera í móðurkviði?
Barnið er ekki bara smá viðbót við líkamsvefi í kviði móðurinnar heldur er það allt frá getnaði aðskilin persóna. Líkami móðurinnar skynjar það sem framandi vef og myndi hafna því sem skjótast ef ekki væri fyrir að þakka „vernduðu umhverfi“ sem því er skapað í móðurkviði. Nýja lífið er mannvera með sérstætt erfðaefni ólíkt öllum öðrum, og það er hjúpað himnubelg sem verndar það í móðurkviði.
Sumir benda á að líkami konu hafni ósjálfrátt fjölda frjóvgaðra eggja sem séu afbrigðileg. Hví ætti þá ekki læknir að mega binda enda á þungun? Það er hins vegar reginmunur á sjálfkrafa dauða og vísvitandi manndrápi. Í einu landi í Suður-Ameríku deyr 71 barn af hverjum 1.000 á fyrsta aldursári. En er í lagi að drepa barn undir eins árs aldri fyrst svona mörg deyja á fyrsta ári? Að sjálfsögðu ekki.
Það segir líka sína sögu að í Biblíunni er talað um lifandi mannveru í móðurkviði. Sálmaskáldið Davíð orti um Guð: „Augu þín sáu mig sem fóstur og í bók þinni voru allir hlutar þess skráðir.“ (Sálmur 139:16, New World Translation) Við tökum eftir að Davíð segir „augu þín sáu MIG sem fóstur“ en það lýsir því vel og nákvæmlega að líf hans hófst við getnað, löngu áður en hann fæddist. Davíð var einnig innblásið að upplýsa að við getnað hafi verið tilbúin áætlun, það er að segja ítarleg ‚skráð‘ fyrirmæli, um það hvernig líkamshlutar hans ættu eftir að myndast, og gera hann að því sem hann var.
Við tökum líka eftir að í Biblíunni er ekki sagt að við getnað myndist einhver smá vefur heldur segir þar: „Sveinbarn er getið.“ (Jobsbók 3:3) Það gefur líka til kynna að frá sjónarhóli Biblíunnar sé barn til sem persóna frá því að það er getið. Það er þá sem lífið hefst.
[Neðanmáls]
^ Fóstureyðing með saltlausn fer þannig fram að dælt er sterkri saltlausn inn í leg móðurinnar, barnið kyngir lausninni og deyr yfirleitt innan tveggja klukkustunda. Móðirin fær hríðir um sólarhring seinna og fæðir andvana barn — eða í sjaldgæfum tilvikum deyjandi barn.
[Mynd á blaðsíðu 6, 7]
Fimm vikna fóstur er ekki bara smá vefur heldur er búið að leggja grunninn að öllum líffærum fullvaxinnar manneskju.
(raunstærð)