Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ættir þú að hafa áhyggjur af geislun sólar?

Ættir þú að hafa áhyggjur af geislun sólar?

Ættir þú að hafa áhyggjur af geislun sólar?

„Hættan á heilsufarsvandamálum, sem tengjast of mikilli útfjólublárri geislun, er sífellt að aukast. Þetta gerist samfara því að ósonlagið er að þynnast og fólk sækir meira í að njóta sólarinnar í tómstundum sínum. Þessi þróun er uggvænleg.“ — DR. LEE JONG-WOOK, FYRRVERANDI AÐALFRAMKVÆMDASTJÓRI ALÞJÓÐAHEILBRIGÐISMÁLASTOFNUNARINNAR.

MARTIN er ljós á hörund og kemur frá Norður-Evrópu. Hann var á strönd á Ítalíu þegar hann sofnaði í skugga sólarhlífar. Þegar hann vaknaði hafði skugginn færst til og fætur hans voru ekki lengur hvítir heldur eldrauðir. „Ég varð að fara á neyðarmóttökuna,“ segir Martin. „Fæturnir voru stífir og bólgnir eins og bjúgu. Næstu tvo til þrjá daga upplifði ég hræðilegan sársauka. Ég gat hvorki staðið né beygt fæturna. Húðin var svo strekkt að ég var hræddur um að hún myndi rifna.“

Margir halda að aðeins fólk með ljósa húð eins og Martin þurfi að gæta sín á sólinni. Þó að hörundsdökkt fólk sé betur varið fyrir sólbruna getur það samt sem áður fengið húðkrabbamein. Og þegar það fær krabbamein uppgötvast það oft ekki fyrr en það er komið á hættulegt stig. Of mikil geislun frá sólinni getur einnig skaðað augun og ónæmiskerfið. Þessi skaði kemur oft ekki í ljós fyrr en mörgum árum eftir að hann á sér stað.

Útfjólublá geislun eykst auðvitað eftir því sem nær dregur miðbaugi. Íbúar á eða nærri hitabeltissvæðinu og þeir sem ferðast þangað verða því sérstaklega að gæta sín. Ein ástæðan er sú að ósonlagið í gufuhvolfinu, sem dregur úr hættulegri geislun, er talið hafa þynnst á síðastliðnum árum. Könnum nokkrar af hættunum sem tengjast því að vera of mikið í sólinni.

Augnskaði

Um 15 milljónir manna um allan heim eru blindar vegna þess að þær hafa ský á auga. Þetta er algengasta orsök blindu í heiminum. Ský á auga myndast þegar prótein í augasteininum afmyndast, flækjast og safna í sig litarefnum. Þannig myndast ský á augasteininum og þetta er eitt af langtímaáhrifum útfjólublárrar geislunar. Af þeim sem hafa ský á auga er talið að um tuttugu prósent hafi fengið sjúkdóminn, eða hann versnað, vegna langtímageislunar frá sól.

Í löndunum nærri miðbaug er sérlega algengt að fólk fái ský á augun. Því miður eru flest þessi lönd þróunarlönd og meirihluti fólksins fátækur. Í Afríku, Asíu, Mið- og Suður Ameríku eru milljónir af fátæku fólki blindar vegna þess að fæstir hafa efni á því að gangast undir aðgerð.

Húðskemmdir

Um þriðjungur allra krabbameina, sem greinast í heiminum, eru húðkrabbamein. Á hverju ári er greint frá um 130.000 nýjum tilfellum af sortuæxli, hættulegustu tegund húðkrabbameins. Einnig eru greindar um tvær til þrjár milljónir af nýjum tilfellum af annars konar húðkrabbameini eins og grunnfrumu- og flöguþekjukrabbameini. Talið er að um 66.000 manns deyi ár hvert vegna húðkrabbameins. *

Hvernig skemmir sólarljós húðina? Sólbruni og hörundsroði eru fyrstu, algengustu og best þekktu afleiðingarnar af því að vera of lengi í sólinni. Þessi fyrstu áhrif geta varað í nokkra daga og einnig geta myndast blöðrur og húðin flagnað.

Við sólbruna drepur útfjólublá geislun flestar frumur í ytra lagi húðarinnar og skemmir dýpri lögin. Allar litabreytingar í húð vegna sólarljóss er merki um skemmdir. Hætta er á krabbameini þegar skemmdir verða á kjarnsýrum í genum sem stýra vexti og frumuskiptingu í húð. Sólarljós breytir líka áferð húðarinnar og dregur úr teygjanleika hennar. Afleiðingin er ótímabær hrukkumyndun og húðin hefur tilhneigingu til að síga og merjast auðveldlega.

Áhrif á ónæmiskerfið

Rannsóknir hafa sýnt að þegar húðin verður fyrir of mikilli útfjólublárri geislun hefur það slæm áhrif á ákveðna þætti ónæmiskerfisins. Þetta getur skert hæfni líkamans til að verjast ákveðnum sjúkdómum. Jafnvel hófleg geislun frá sólinni getur aukið hættuna á sýkingu af völdum baktería, sveppa, sníkjudýra og vírusa. Margir taka eftir því að frunsur eða áblástur hafa tilhneigingu til að koma aftur, jafnvel ítrekað, eftir að maður hefur verið í sólinni. Í skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er útskýrt að ein tegund útfjólublás ljóss, þekkt sem UVB, „virðist draga úr hæfni ónæmiskerfisins. Það virðist ekki ráða lengur við herpesveiruna sem veldur því síðan að sýkingin blossar upp á ný.“

Sólarljós getur því verið skaðlegt á tvo vegu hvað varðar krabbamein. Í fyrsta lagi með því að valda skemmdum á erfðaefninu og í öðru lagi með því að minnka náttúrulega hæfni ónæmiskerfisins til að takast á við slíkar skemmdir.

Við þurfum því að vera skynsöm og gæta þess að vera ekki of mikið í sólinni. Heilsan og raunar líf okkar getur verið í veði.

[Neðanmáls]

^ Nánari umfjöllun um húðkrabbamein er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. júni 2005, bls. 3-10.

[Rammi á blaðsíðu 11]

HVERNIG GETURÐU VARIÐ ÞIG?

◼ Ekki vera mikið í sólinni um miðbik dags milli 10:00 og 16:00 þegar útfjólublá geislun er í hámarki.

◼ Reyndu að halda þig í skugga.

◼ Hyldu handleggi og fótleggi með víðum fötum úr þétt ofnu efni.

◼ Hafðu barðastórann hatt til að vernda augun, eyrun, andlitið og hálsinn.

◼ Notaðu vönduð sólgleraugu sem leggjast þétt að andlitinu og vernda gegn hliðarljósi. Slík sólgleraugu ættu að veita um 99 til 100 prósent vernd gegn UVA og UVB útfjólublárri geislun og minnka verulega hættuna á augnskaða.

◼ Notaðu breiðvirkan sólaráburð með varnarstuðli 15 eða hærri. Berðu ríkulega á þig á tveggja stunda fresti.

◼ Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með því að forðast sólarlampa, sólarbekki og sólbaðsstofur vegna þess að þar er notast við útfjólublátt ljós sem getur verið skaðlegt fyrir húðina.

◼ Gættu þess að hlífa ungbörnum og krökkum við sólinni vegna þess að húð þeirra er sérstaklega viðkvæm.

◼ Sofðu aldrei í sólinni.

◼ Farðu til læknis ef þú finnur fæðingarbletti, freknur eða aðra bletti á húðinni sem þú hefur áhyggjur af.