Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þunglyndi — hvernig er það meðhöndlað?

Þunglyndi — hvernig er það meðhöndlað?

Þunglyndi — hvernig er það meðhöndlað?

„RUT hefur þjáðst af þunglyndi í mörg ár. Hún segir: „Við hjónin höfum skoðað ýmsar meðferðir, gert breytingar á lífsstíl okkar og lagt hart að okkur til að finna dagskrá sem ég get búið við. Við höfum fundið rétta lyfjameðferð og mér líður betur. En á tímabili þegar ekkert virtist hjálpa var það stöðug ást og umhyggja eiginmanns míns og vina sem hjálpaði mér að þrauka.“

Eins og reynsla Rutar sýnir þurfa sjúklingar með alvarlegt þunglyndi á öllum þeim stuðningi að halda sem þeir geta fengið, þar á meðal skynsamlega læknismeðferð. Þunglyndi getur verið lífshættulegt ef það er ekki meðhöndlað. Fyrir um það bil tvö þúsund árum talaði Jesús Kristur um að þeir sem hefðu reynslu af læknastörfum gætu verið hjálplegir. Hann sagði: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru.“ (Markús 2:17) Staðreyndin er sú að læknar geta gert mikið til að lina þjáningar margra þunglyndissjúklinga. *

Nokkrar gagnlegar ábendingar

Til er margs konar meðferð við þunglyndi. Hún er breytileg eftir því hversu alvarlegur sjúkdómurinn er og einkennin sem fylgja honum. (Sjá rammagrein á bls. 5, „Hvers konar þunglyndi?“) Margir fá hjálp hjá heimilislækni sínum en aðrir þurfa á sérhæfðari meðferð að halda. Læknir gæti gefið þunglyndislyf eða mælt með annars konar aðstoð. Sumum hefur reynst vel að nota náttúrulyf, breyta mataræði eða stunda reglulega líkamsrækt.

Algeng vandamál

1. Vinir sem vilja vel en hafa litla sem enga heilbrigðismenntun gætu reynt að segja þér hvaða meðferð þú eigir að velja eða hafna. Vera má að þeir hafi einnig sterka skoðun á því hvort þú eigir að taka náttúrulyf, hefðbundin lyf eða alls engin lyf.

Til umhugsunar: Vertu viss um að þær leiðbeiningar sem þú færð komi frá áreiðanlegum aðilum. Þegar upp er staðið ert það þú sem þarft að taka ákvörðun.

2. Örvænting getur orðið til þess að sjúklingar hætti meðferð sem þeir hafa valið, vegna þess að þeir finna engan bata eða vegna óþægilegra aukaverkana.

Til umhugsunar: „Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin en ef margir leggja á ráðin rætast þau.“ (Orðskviðirnir 15:22) Læknismeðferð er líklegri til að bera árangur ef góð tjáskipti eru á milli læknis og sjúklings. Segðu lækni þínum heiðarlega frá áhyggjum þínum og lýstu einkennunum. Spyrðu svo hvort þú þurfir að breyta meðferðinni eða einfaldlega halda út þangað til hún fer að virka.

3. Oftraust getur orðið til þess að sjúklingar hætta skyndilega lyfjameðferð eftir nokkrar vikur af því að þeim líður betur. Þeim hættir til að gleyma því hve lamandi einkenni þeir höfðu áður en þeir hófu lyfjameðferðina.

Til umhugsunar: Ef lyfjameðferð er skyndilega hætt án þess að hafa samráð við lækni getur það haft alvarlegar og jafnvel lífshættulegar afleiðingar.

Þó að Biblían sé ekki kennslubók í læknisfræði er höfundur hennar, Jehóva Guð, skapari okkar. Í næstu grein verður skoðað hvernig leiðbeiningar og huggun Biblíunnar getur verið til gagns bæði fyrir þá sem eru þunglyndir og fyrir aðstandendur þeirra.

[Neðanmáls]

^ Vaknið! er ekki talsmaður einnar læknismeðferðar umfram aðra. Hver og einn verður að meta valkosti sína áður en hann tekur ákvörðun.

[Rammi á bls. 5]

HVERS KONAR ÞUNGLYNDI?

Hversu áhrifarík tiltekin meðferð er veltur á því hvers konar þunglyndi sjúklingurinn er haldinn.

Alvarlegu þunglyndi fylgja slæm einkenni sem standa í hálft ár eða lengur ef þau eru ekki meðhöndluð og hafa áhrif á flestum sviðum lífsins.

Geðhvörf eru einnig þekkt sem geðhvarfasýki. Þeir sem þjást af þessum sjúkdómi upplifa miklar tilfinningasveiflur. Það skiptast á alllöng tímabil þar sem sjúklingarnir eru ákaflega ofvirkir og hátt uppi (örlyndi) en svo detta þeir mjög langt niður á milli (þunglyndi).

Óyndi hefur ekki eins lamandi áhrif og alvarlegt þunglyndi en því fylgja þó þunglyndiseinkenni sem gera sjúklingum erfitt fyrir að lifa eðlilegu lífi. Sumir geta upplifað tímabil inn á milli þar sem þeir verða alvarlega þunglyndir.

Fæðingarþunglyndi hefur lamandi tilfinningaleg áhrif á margar mæður eftir að þær hafa eignast barn. — Sjá greinina „Þunglyndi eftir fæðingu“, í Vaknið! október-desember 2003.

Skammdegisþunglyndi er rakið til minna sólarljóss á haustin og veturna. Venjulega lagast það þegar vorar og sumarið gengur í garð.