Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálp frá ,Guði allrar huggunar‘

Hjálp frá ,Guði allrar huggunar‘

DAVÍÐ konungur þurfti oft að takast á við mikla angist og sálarkvöl. En hann efaðist aldrei um að skaparinn skilji okkur mennina fullkomlega. Hann skrifaði: „Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig, hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar. Eigi er það orð á tungu minni að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.“ — Sálmur 139:1, 2, 4, 23.

Við getum einnig verið viss um að skaparinn skilur okkur og þau lamandi áhrif sem þunglyndi getur haft á ófullkomna hugi okkar og líkami. Hann veit hvað veldur þunglyndi og hvernig er best fyrir okkur að þrauka við núverandi aðstæður. Þar að auki hefur hann sagt hvernig hann á eftir að lækna þunglyndi að eilífu. Við getum ekki óskað eftir neinum betri til að hjálpa okkur en Guði sem er samúðarfullur, ,uppörvar beygða og veitir kjark‘. — 2. Korintubréf 7:6.

En þeir sem eru þunglyndir velta kannski fyrir sér hvernig Guð geti hjálpað þeim þegar þeim líður illa.

Geta þunglyndir nálgast Guð?

Guð er svo nálægur þjónum sínum sem eiga við þunglyndi að stríða að það er eins og hann búi hjá „iðrunarfullum og þjökuðum í anda til að glæða þrótt hinna lítillátu og styrkja hjarta þjakaðra“. (Jesaja 57:15) Er ekki hughreystandi að vita að „Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta [og] hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda“? — Sálmur 34:19.

Hvernig geta þunglyndir fengið huggun frá Guði?

Þeir sem tilbiðja Guð geta hvenær sem er nálgast hann því að hann „heyrir bænir“ og getur hjálpað okkur að takast á við erfiðar tilfinningar og aðstæður. (Sálmur 65:3) Í Biblíunni erum við hvött til að úthella hjörtum okkar fyrir honum: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.

Hvað er til ráða ef okkur finnst við vera óverðug þess að Guð hlusti á bænir okkar?

Þunglyndum hættir til að álykta að þeir séu Guði ekki þóknanlegir. En himneskur faðir okkar 5er næmur fyrir viðkvæmum tilfinningum okkar og „minnist þess að vér erum mold“. (Sálmur 103:14) Jafnvel þó að ,hjartað kunni að dæma okkur‘ getum við ,friðað hjartað‘ því að „Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt“. (1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) Þú getur því notað svipað orðalag í bænum þínum og þú hefur lesið í versum í Biblíunni eins og Sálmi 9:10, 11; 10:12, 14, 17 og 25:17.

Hvað ef við erum svo illa haldin að við getum ekki lýst tilfinningum okkar?

Þú skalt ekki gefast upp þó að sársaukafullar tilfinningar geti orðið svo yfirþyrmandi að það verður erfitt að tjá sig rökrétt. Haltu áfram að leita hans sem er „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar“, fullviss um að hann skilur tilfinningar þínar og þarfir. (2. Korintubréf. 1:3) María, sem minnst var á áður í þessari greinasyrpu, segir: „Stundum er ég svo ráðvillt að ég veit ekki hvað ég á að biðja um. En ég veit að Guð skilur mig og hjálpar.“

Hvernig svarar Guð bænum okkar?

Biblían gefur ekki til kynna að Guð ætli að fjarlægja alla erfiðleika okkar strax. En hann getur gefið okkur styrk til að þola hvað sem er — þar á meðal þunglyndi. (Filippíbréfið 4:13) Martina segir: „Þegar ég varð fyrst þunglynd bað ég Jehóva um að lækna mig strax vegna þess að mér fannst ég ekki þola þetta lengur. Núna er ég sátt við að biðja um styrk frá degi til dags.“

Biblían er dýrmæt gjöf frá Guði. Hún hjálpar þeim sem þjást af þunglyndi að takast á við það. Sara hefur barist við þunglyndi í 35 ár. Hún hefur upplifað hversu mikils virði er að lesa daglega í Biblíunni. Hún segir: „Ég er mjög þakklát fyrir aðstoð frá fagfólki. En umfram allt hef ég skilið hversu gagnlegt og andlega uppbyggjandi það er að lesa í orði Guðs. Ég hef gert það að vana.“

Þunglyndi mun hverfa að eilífu

Þegar Jesús Kristur var á jörðinni sýndi hann máttinn, sem Guð gaf honum, til að lækna kvalafulla sjúkdóma. Hann var mjög fús til að hjálpa fólki sem þjáðist af þungbærum sjúkdómum. Þar að auki þekkti hann sjálfur þær raunir sem fylgja því að takast á við erfiðar tilfinningar. Kvöldið áður en Jesús átti að deyja sársaukafullum dauðdaga „bar [hann] með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða“. (Hebreabréfið 5:7) Þetta reyndi mikið á Jesú en við njótum núna góðs af því vegna þess að hann er „fær um að hjálpa þeim er verða fyrir freistingu“ eða prófraunum. — Hebreabréfið 2:18; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

Í Biblíunni er sagt að Guð ætli sér að fjarlægja alla erfiðleika sem geta valdið þunglyndi. „Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð og hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því sem ég skapa.“ (Jesaja 65:17, 18) ,Nýi himininn‘ eða Guðsríki mun endurreisa „nýja jörð“ sem er samfélag réttlátra manna á jörðinni. Þá verða allir fullkomlega heilbrigðir á sál og líkama. Allir sjúkdómar munu hverfa að eilífu.

„Ég ákallaði nafn þitt, Drottinn, úr djúpi gryfjunnar. Þú heyrðir hróp mitt: ,Byrg ekki eyra þitt fyrir ákalli mínu um hjálp.‘ Þú nálgaðist mig þegar ég hrópaði til þín, sagðir:,Óttast ekki!‘“ — Harmljóðin 3:55-57