Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

1. atriði: Rétt forgangsröðun

1. atriði: Rétt forgangsröðun

1. atriði: Rétt forgangsröðun

„Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ — Filippíbréfið 1:10.

Hvað felur það í sér? Í farsælum hjónaböndum taka hjónin þarfir maka síns fram yfir sínar eigin þarfir og líka fram yfir eignir, vinnu, vini og jafnvel aðra ættingja. Hjónin verja nægum tíma hvort með öðru og með börnunum. Þau eru bæði fús til að færa fórnir í þágu fjölskyldunnar. — Filippíbréfið 2:4.

Af hverju skiptir það máli? Í Biblíunni er lögð rík áhersla á fjölskylduna. Páll postuli skrifaði meira að segja að sá sem sæi ekki fyrir fjölskyldu sinni væri „verri en vantrúaður“. (1. Tímóteusarbréf 5:8, Biblían 1981) En forgangsröðun fólks getur breyst með tímanum. Fjölskylduráðgjafi nokkur tók til dæmis eftir því að margir sem sóttu ráðstefnu sem hann hélt virtust leggja meiri áherslu á starfsframa en fjölskylduna. Hann sagði að það væri eins og fólk gerði ráð fyrir því að geta lært einhverjar „skyndilausnir“ svo að það gæti „hakað við orðið ‚fjölskylda‘ á ‚verkefnalistanum‘ sínum og snúið sér síðan aftur að starfsframanum“. Hver er lærdómurinn? Það er auðveldara að segjast hafa fjölskylduna í fyrirrúmi en að sýna það í verki.

Prófaðu þetta. Svaraðu spurningunum hér fyrir neðan til að kanna hvernig þú forgangsraðar.

Þegar maki minn eða barn þarf að tala við mig gef ég þeim athygli mína eins fljótt og hægt er?

Þegar ég ræði við aðra, tala ég þá oft um eitthvað sem ég geri með fjölskyldu minni?

Myndi ég afþakka aukna ábyrgð (í vinnu eða annars staðar) ef fjölskyldan þyrfti á mér að halda?

Ef þú svaraðir spurningunum hér að ofan játandi gætirðu dregið þá ályktun að þú forgangsraðir rétt. En hvað myndu maki þinn og börn segja? Okkar eigið mat er ekki eina mælistikan á það hvort við höfum rétta forgangsröðun. Og það sama á við um hin sex atriðin sem rætt verður um á næstu síðum.

Settu þér markmið. Hugleiddu hvað þú getur gert sem sýnir að þú lætur fjölskylduna ganga fyrir. (Dæmi: Er eitthvað sem þú getur varið minni tíma í svo að þú hafir meiri tíma til að vera með maka þínum og börnum?)

Hvernig væri að segja fjölskyldunni frá markmiðum þínum? Þegar einn í fjölskyldunni sýnir að hann er fús til að breyta sér eru hinir líklegri til að gera hið sama.

[Mynd á blaðsíðu 3]

Foreldrar, sem láta maka sinn og börn ganga fyrir, verða sigursælir.